Golfboltar
Golf er ekki spilað án þess að nota þar til gerða bolta. Þeir týnast eins og vinstri sokkur í þurrkara og alveg eins og ef sá sokkur er úr ull þá skemmast þeir líka. Skemmtileg jólagjöf fyrir golfarann væri því að sérmerkja þeim svo jólaboltana. Allt frá nafni viðtakenda upp í að biðjast afsökunar á því að hafa brotið rúðu – sem gerist. Góður alhliða bolti væri til dæmis Srixon AD333 (12 stk.) sem kostar um 8.000 krónur með sérmerkingu. Draumur kylfingsins er þó yfirleitt hinn rándýri Titleist Pro V1 sem þó tæmir veskið helmingi hraðar.

Púttbraut
Skammdegisþunglyndi golfarans má létta með því að setja púttbraut undir tréð. Upprúllanlegt teppi með holu á endanum má nota til þess að þjálfa það sem fæstir æfa nógu mikið – púttin.
Séu teppi á íbúðinni fyrir er hægt að kaupa bara holuna. Passa bara að sá golfþyrsti nái ekki í dósaborinn og reyni að sökkva holunni í golfið. Hún er gerð til þess að sitja ofan á golfinu.
Púttholur kosta frá rétt rúmum þúsara og upp í rúmlega þrjátíu þúsund kall fyrir brautir með broti í.

Æfingakylfa
Það eru til margskonar æfingakylfur, svona til þess að sveifla í stofunni án þess að lemja í neitt. Það eru til mjúkar kylfur til að æfa taktinn. Til að æfa gripið eru til litlar kylfur með sérstöku þjálfunargripi og svo eru meira að segja til kylfur sem líta út eins og skrítin bátaár eða risastór píla sem æfa sveifluhraða. Þetta kostar frá um það bil frá 5 upp í 15 þúsund krónur.

Breytt og bætt
Uppfærslur er svo hægt að gera á golfkylfunum sem þegar eru í poka kylfingsins. Þar koma ný grip hvað sterkust inn. Þau þarf að skipta um á 1-3 ára fresti eftir því hversu mikið kylfurnar eru notaðar. Ný grip, jafnvel í uppáhalds lit jólabarnsins eru því tilvalin í pakkann. Það er ekki súperflókið að setja ný grip á en það er öruggara að láta ásetningu fylgja með í þessum pakka.

Fjarlægðarmælar
Á dögum nútímatækni er hægt að mæla fjarlægðina frá holunni með mýmörgum hætti. Einfaldast og ódýrast er að kaupa app í símann. Það gæti verið frá jólasveininum. Golfúr eru líka sérlega einföld leið til þess að mæla fjarlægðina en það vilja þó ekki allir spila golf með úr á hendinni og þá er bara að splæsa í fjarlægðakíki eða GPS staðsetningartæki. Þau kosta þó skildinginn og kannski hægt að láta ömmu sjá um þennan pakka.

Nördagolf
Golf er ekki flókin íþrótt. Setja bolta ofan í holu með sem fæstum höggum er nokkurn veginn allt sem þarf að vita um sportið. Það eru þó ekki allir á því að þetta sé svona einfalt og það má færa rök fyrir því. Eitt umtalaðasta æfingatæki síðasta árs var Game golf. Með því er hægt að sjá, eftir nokkra hringi, nákvæmlega hversu langt er slegið með hverri kylfu og það sem mikilvægara er hvað þarf að bæta. Þessi græja er þó ekki alveg ókeypis. Kostar um það bil 40.000 krónur í Hole in one en sé henni beitt rétt er þetta græjan fyrir golfarann sem vill halda utan um alla tölfræðina sem golfið vissulega býður upp á.
Golfferð
Þegar klukkan fer að slá sex á aðfangadagskvöld og kalt er úti er fátt betra en að ylja sér við tilhugsunina um að fara í golfferð til útlanda. Það er þó ekki alveg ókeypis, eins og gefur að skilja, en á hinn boginn þarf sá golfari sem veit að hann eða hún er að fara í margra daga golfveislu, til dæmis um páskana, ekki á þunglyndislyfjum að halda og því sparast heilmiklir peningar þar.

Allt hitt
Svo eru auðvitað alls konar fylgihlutir sem hægt er að splæsa í. Það þarf regnfatnað hér á Fróni. Regnhlífar eru líka nauðsynlegar í golfið og þær eru sérstaklega stórar og sterkbyggðar. Tí þarf alltaf að brúka. Aukabúnaður á golfkerrur eru vinsæl viðbót og hetturnar á trékylfurnar eru alltaf vinsælar.
The post Pakkarnir undir golftréð appeared first on Fréttatíminn.