Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Stríðspresturinn Obama

$
0
0

Það er ekki auðvelt að hlusta á Barack Obama halda ræður. Ekki sökum þess að honum mælst ekki vel, það eru fáir betri ræðumenn en einmitt hann. Heldur vegna þess að maðurinn sem höfðar í ræðum sínum til alls þess besta sem við gerum kröfur um og vonumst til frá samfélaginu sem við deilum með öðrum; er líka maðurinn sem fyrirskipar tortímingu samfélaga. Maðurinn sem leggur græðandi merkingu á morð á saklausum er líka maðurinn sem fyrirskipar morð á saklausum. Maðurinn sem kallar okkur til baráttu fyrir réttlæti og jöfnuði er sami maðurinn og brýtur án eftirsjár rétt á öðrum og viðheldur ójöfnuði milli fólks og milli þjóða. Maðurinn sem bendir á hvernig mismunur leiðir til fátæktar sem sviptir börn draumum sínum þjónar fyrst og síðast þeim sem eiga mesta auðinn og hafa mestu völdin. Og maðurinn sem talar um þrá okkar eftir friði er mestur stríðsherra á Jörðinni.

Er hægt að tala mark á þessum manni?

Vald sturlar

Eru þetta ekki merki þess að maðurinn sé sturlaður. Sá sem sækist eftir að vera forseti Bandaríkjanna og telur sig standa undir þeim kröfum sem fólk gerir til hlutverksins er líklega sturlaður. Á einhvern máta. Sá sem reynir að stýra fleiru en er í mannlegu valdi að ná utan um verður geðveikur. Með tímanum nýtir hann völdin ekki til nokkurs gagns heldur aðeins til að halda í völdin. Og svífst einskis til þess. Sjáið bara Macbeth, Stalín og Maó.

En það eru líka til mildari útgáfur af sturlun valdsins. Og ekki alveg eins hættulegar. Fólk verður hégómagjarnt, styggt, fullt ofsóknahugmynda, haldið óraunsæjum hugmyndum um eigið mikilvægi — við þekkjum þetta allt. Barack Obama virðist reyndar í furðanlegu góðu jafnvægi. Það er stutt í breitt brosið og hann virðist kvikur í hugsun. En hann má svo sem vera sturlaður fyrir því.

En segir það ekki líka sitthvað um geggjun bandarísks samfélags að fólk skuli leita andlegrar leiðsagnar út úr harmi hjá manni sem fyrirskipaði árás á afganskt brúðkaup kvöldið áður? Og sturlun Vesturlanda allra? Á þetta ekki að vera leiðtogi hins frjálsa heims? Hefur þeim fullyrðingum nokkru sinni verið mótmælt? Beygir Evrópa sig ekki undir forystu Bandaríkjanna í öllu? Mörgu, alla vega? Flestu? Svo til öllu? Öllu.

Vald er ekki alltaf vit

Þessi blanda er ekki ný; mjúkmælti járnhnefinn. Þannig er ættarhöfðinginn sem verður stríðsherra. Guðfaðir mafíunnar er líka miskunnlaus gagnvart óvinum sínum en hefur ekki hjarta til að neita fjölskyldunni um nokkurn skapaðan hlut. Davíð konungur, Markus Árelíus og Geromino vildu leiðbeina sínu fólki í lífsglímunni en einnig leiða það í hernaði. Þeir réttlættu hatur sitt gagnvart einum með ást sinni á öðrum. Og fólk hefur ætíð sætt sig við þann tvískinnung. Í flestum deildum Jarðar er hann talinn merki um heilsteyptan karakter en ekki klofinn. Enginn elskar barnið sitt eins heitt og Arnold Schwarzenegger. Hann er drepur 350 manns á tveimur tímum með hléi ef einhver skerðir svo mikið sem hár á höfði þeirra sem hann elskar. Svo mikil er ást Schwarzenegger.

Svona er maðurinn nú vitlaus. Hann beygir sig alltaf fyrr fyrir valdi en viti. Við tökum meira mark á litlu viti sem kemur frá miklum valdsmanni en miklu viti af munni valdlausrar konu.

En er það eftir sem áður ekki geggjað að fólk skuli yfir höfuð vilja hlýða á huggunarorð frá þeim manni sem fyrirskipar flest mannvíg í heiminum? Er það ekki jafn klikkað og að fara í sálgreiningu hjá fjöldamorðingja? Kalashnikov undri legubekknum.

Gospel ræðumanna

En ég ætla mér ekki með þessu rausi að gera lítið úr ræðum Barack Obama; alls ekki. Ég er þvert á móti að reyna að fá ykkur til að hlusta á manninn. Ég er aðdáandi Obama ræðumanns. Mér finnst hann á stundum komast með tærnar nærri hælunum á Malcolm X. Báðir sækja þeir í mælskubrunn frelsunarkirkju svartra í Bandaríkjunum — þótt hvorugur tilheyri þeim að öllu leyti. Malcolm gat ekki þegið guðinn í þessum kirkjum, fannst hann of hvítur. Obama ólst upp meðal hvítra og trúlausra, en fann samfélagi svartra í þessum kirkjum fremur en einhvern guð; varð heill og sáttur við sig.

Það má segja að Malcolm, Obama, og svo sem margir aðrir, hafi svipaða stöðu í stjórnmálum og Mahalia Jackson, systir Rosetta Tharpe, Ray Charles og fleira gott fólk hefur í tónlistarheimum; fólkið sem tók gospelið úr kirkjunni og gerði það að veraldlegri tónlist. Obama byggir ræður um veraldleg málefni úr orðfæri og ágengni predikarans. Hann notar líka oftast sjónarhorn hans og stöðu; talar úr predikunarstól til safnaðar síns.

Mótmælendakirkjur svartra eru ekki bara halleljúin, tónlistin, dansinn og fjörið heldur miklu fremur samruni kröfu um félagslegt réttlæti og þakkargjörðar fyrir náð Guðs. Af þessum grunni hefur mótast von um samfélag sem miðast við þann smæsta og veikasta, krafa til hvers og eins um að byggja upp slíkt samfélag og heit um að láta ætíð drauminn varða leið okkar. Kirkja svartra er kirkja hinna undirokuðu og kúguðu og þaðan fær hún kraftinn og gleðina. Þar hittir Jesús sína smæstu bræður og lofar þeim réttlæti.

Hinn reiði guð

Þetta er því annar guð sem vitjar kirkju svartra en sá guð sem Ronald Reagan leiddi að nýju inn að miðju bandarískra stjórnmála þegar hann gerði samkomulag við bókstafstrúarmenn fyrir kosningarnar 1980. Þá þáði hann stuðning harðlínukristinna í skiptum fyrir að setja stefnumál þeirra á dagskrá bandarískra stjórnmála. Guðinn sem Reagan opnaði fyrir var guð þeirra sem eiga og óttast að missa. Guð svartra er hins vegar guð þeirra sem eiga ekkert og hafa svo engu að tapa, nema voninni.

Guð Reagan varð síðar helsti ráðgjafi George W. Bush, versta forseta Bandaríkjanna. Þetta er reiður guð; guð sem dæmir og guð sem refsar. Guð sem steypir bölvun yfir samfélagið ef samkynhneigðir fá að eigast og guð sem eltir upp óvini sína í fjarlægum löndum og lýstur þá flugskeytum. Guð Reagan og Bush er guð reglunnar í föllnum heimi; guð sem vill taka til, skilja hafrana frá sauðunum. Dagur reiði, dagur bræði, drekkir jörð með logaflæði.

Guð fátæka mannsins

Guð Obama er hins vegar guð upprisunnar og fagnaðarerindisins. Hans er dagur vonar. Þess vegna eru allir svona glaðir við messuna. Þetta er guð sem boðar að réttlætið sé á leiðinni. Þetta er guð hins batnandi heims; guð sem kallar fólk til vinnu við sköpunina; guð breytilegs heims. Þannig horfir heimurinn við hinum fátæka og undirokaða; svo til allt er óunnið. Veröld þeirra sem eiga er hins vegar fullkomnuð; hún getur aðeins hnignað og þess vegna verður að passa upp á hana.

Það má því ekki rugla saman tali Obama um söfnuð, kirkju og trú við bölbænir bókstafstrúarmanna. Það er mikilvægt að grein muninn þar á. Ekki síst ef fólk vill skilja pólitík. Guð spilar nefnilega stóra rullu í stjórnmálum, þótt strangt til tekið séu þau ekki hans grein. Trú og guðfræði voru lengst virkasti farvegurinn fyrir vangaveltur um stöðu mannsins í heiminum og stöðu einstaklingsins í samfélaginu. Margar af hugmyndum okkar um samfélag byggja þannig á andlegum grunni. Söfnuðurinn, trúin og Guð eru kannski farin úr þessum hugmyndum en þær eru enn andlegar í eðli sínu. Það fer best á að ræða þær á innblæstrinum — eins og Obama gerir.

Af skoskum siðaskiptum

Við skulum taka dæmi af sigri sósíaldemókratismans í Skandinavíu. Þar bjó fyrir tveimur öldum fátækt fólk við Guð kóngsins og embættismannanna. Það sat á kirkjubekkjum og lét prestinn ýmist skamma sig eða hóta sér. Það bjó í veröld þar sem Guð var reiður og alls ekki með því í liði. Siðaskiptin höfðu komið til Norðurlanda en ekki breytt miklu um samfélagslega stöðu Guðs. Hann var enn fjarlægur venjulegu fólki og í raun órjúfanlegur hluti alls þess veraldlega, andlega, peningalega og siðferðislega valds sem tróð á almúganum.

Siðaskiptin höfðu hitt Skota betur, enda byggðu þeir ekki á þýskum Lúther heldur heimamanni sem hét Jón Knox. Boðskapurinn um milliliðalaust sambands Guðs og manns hleypti af stað vakningu sem umbylti bæði heimsmynd og sjálfsmynd Skota. Fyrir fólk sem sat fast í og var hlekkjað við niður njörvað stéttskipt og óhagganlegt samfélag miðalda var þetta byltingarkennd hugmynd. Enginn kóngur, páfi, biskup, aðalsmaður, sýslumaður, ráðsmaður, verkstjóri eða nokkur annar er á milli þín og Guðs. Þetta stangast á við alla reynslu alþýðufólks af lífinu; frá hrísvendi strangs föður gegnum líf markað af valdboði annarra yfir hugsun þinni og gjörðum. Sú hugmynd að alþýðufólk gæti leitað til Guðs án milligöngu nokkurrar valdastofnunar var eins og aflagning konungsveldis, skriffinnsku og fulltrúalýðræðis; allt á einu bretti. Og upptaka beins lýðræðis. Boðskapur siðaskiptanna var almúgabylting á andlega sviðinu. Sem, nota bene, var ekki litla sviðið á þessum tíma heldur aðalsviðið þar sem mikilsverðustu átökin fóru fram og endanleg örlög fólks réðust.

Deila tónlist og guði en deila um allt annað

Þrátt fyrir andlega og þjóðlega vakningu Skota, og margt annað gott sem siðaskiptin færðu þeim, gekk þeim samt ekki of vel. Þeir voru annars flokks borgarar í ensku ríki og sigldu því í flokkum til Ameríku þegar færi gafst. En þó ekki fyrr en enskir höfðu eignað sér allar bestu jarðirnar á austurströndinni. Skotar, eins og Írar, komu sér fyrir dýpra inn í skóginum, hærra upp í fjöllunum og lengra frá ströndinni og borgunum. Þeir tóku með sér ást sína á viskí og söng og urðu með tímanum það sem kallað er rednecks; óheflaðri, ódælli og fátækari hluti hvítra landnema; fólk sem beygir sig ekkert frekar fyrir valdið í Washington en það hafði beygt sig undir valdið í London.

Ég ætla ekki að rekja árekstra þessara afkomenda Skota og írskra Skota við afkomendur svartra þræla. En úr stormasömu samlífi þessa fólks kom svo til öll tónlist sem kalla má ameríska og sem síðar sigraði heiminn. Og þegar svartir losnuðu undan Guði síns þrælahaldara fundu þeir skárri guð í mótmælendakirkjum Skotanna; guð sem vildi verða þeirra sérstaki guð, elska þá og styðja eins og væru þeir hans uppáhaldsbörn.

Þannig er skoska siðabótin eins konar pólitískur langafi Obama forseta. En hún tengist líka skandinavískum sósíaldemókrötum. Þegar fólk frá Norðurlöndum kom til Ameríku kynntist það loks þessum guði almúgafólks. Siðaskiptin á Norðurlöndum höfðu dagað uppi í embættismannakirkju efri stétta og ekki flutt neitt fagnaðarerindi til vinnuhjúa og fátæks fólks. Þegar Skandinavar hittu hins vegar í Ameríku guð sem leit á fátækt fólk sem jafngott fólk og hvað annað, og jafnvel betra; vildu sumir sigla aftur heim og færa ættingjum og vinum fréttirnar.

Alþýðubylting í kirkjunni

Þessi nýi guð átti eftir að gera byltingu í kirkjum Norðurlanda. Þar vék embættismannakirkjan fyrir leikmannakirkjunni. Það varð verkefni allra safnaðarmeðlima að byggja upp kirkju sína, söfnuð og samfélag. Í kringum heimatrúboðið byggist upp hjálparstarf fyrir fátæka og sjúka, drykkfellda og synduga, og síðar teygði það starf sig til fátækari landa og um allan heim. Þessi samfélagslega vakning í kirkjunni reis að neðan og náði völdum; aðeins fáum áratugum áður en krafan um samfélagslegt réttlæti og jafnrétti reis að neðan og náði völdum þegar pólitískur armur verkalýðshreyfingarinnar tók yfir landsstjórnina í Skandinavíu.

Nema á Íslandi. Þar varði embættismannakirkjan sig og þar varð heldur aldrei friðsöm sósíaldemókratísk bylting. Annað fæst ekki án hins. Á meðan guð kirkjunnar er í liði með valdastéttinni og ver óbreytt ástand, boðar að hver sitji á sínum bás og raski ekki jafnvægi samfélagsins sem væri það hans sköpunarverk; eru litlar líkur á að almúgafólk og verkalýður nái völdum og takist að aðlaga samfélagið að hagsmunum hinna fátæku og valdalitlu.

Ræður Obama eru því ef til vill meira framandi Íslendingum en flestum öðrum. Þær falla hins vegar ágætlega að skandinavískri hefð; ekki síst norskri. Áhrif kristinna safnaða á stjórnmál og samfélag varð mest í Noregi af Norðurlöndunum og þau áhrif er enn virk. Gro Harlem Brundtland hélt einu sinni ræðu um hvað væri að vera norskur. Að vera norskur er að vera góður, sagði hún. Ræða Jens Stoltenberg eftir morðin í Útey var líka pólitík á andlegum grunni.

Andlegur botn

Það hefur verið sagt um okkar tíma að við lifum efnahagslegt hrun, stjórnmálalegt hrun, stjórnskipulegt hrun, félagslegt hrun og siðferðislegt hrun því að baki þessum hrunum öllum er andlegt hrun. Okkur er ekki lengur ljóst hver staða okkar í heiminum er né hver staða okkar i samfélagi manna er. Það er engin sátt um hvað samfélag manna er, yfir höfuð. Er samfélag manna summa einstaklinga eða er samfélag manna sjálfstæður veruleiki sem umlykur einstaklingana og dregur þá ýmist niður eða upphefur?

Þetta er ekki trúarlegur vandi eða guðfræðilegur; en þetta er andlegur vandi. Og Barack Obama hefur talað meira um þennan vanda en flestir aðrir stjórnmálamenn á undanförnum árum. Og örugglega meira en íslenskir stjórnmálamenn leyfa sér. Þeir tala flestir eins og væru þeir verkfræðingar að boða bestu tæknilegu lausnina eða íþróttamenn að stæra sig af mestu afrekunum.

Það er því ágætt að spyrja sig þess meðan hlustað er á stríðsprestinn Obama hvort það vanti þennan andlega botn í íslenska samfélagsumræðu.

Nokkrar ræður

Hér eru nokkrar af ræðum Barack Obama. Veljið þá sem ykkur hentar. Það er ekki víst að það sé sú fyrsta. Og ekki reyna að hlusta á þær allar. Sumarið kallar. Það er verk að vinna.

Obama vakti fyrst verulega athygli fyrir ræðu sína á landsþingi Demókrata 2004, þegar John Kerry var útnefndur forsetaframbjóðandi:

Tengsl Obama við klerkinn Jeremiah Wright urðu hitamál í kosningabaráttunni 2008 og Obama svaraði þeim ásökunum með þessari ræðu sem kölluðu hefur verið: A more perfect union:

Í þakkarræðu sinni á kosninganótt 2008 gerði Obama ekki lítið úr þeim tímamótum sem kjör hans var:

Á fyrsta ári sínu í embætti hélt Obama til Mið-Austurlanda að boða frið meðal múslima og Bandaríkjamanna og hélt þá þessa ræðu í Kairó-háskólanum. Síðan þá hefur allt farið á versta veg í þessum heimshluta og fátt af því gengið eftir sem Obama boðaði í ræðunni; þvert á móti:

Árið 2011 hélt Obama minningarræðu um þá sem voru myrtir af byssumanni við pólitískan fund þingkonunnar Gabrielle Giffords í Tucson í Arizona.

Ræða Obama á ársfundi Clinton Global Initiative 2012 fjallaði um mansal og nútíma þrælahald:

Í kosningabaráttunni 2012 svaraði Obama slagorði repúblikana “We Built It” með þessari ræðu í Roanoke íVirginíu:

Obama hélt ræðu 2012 við minningarathöfn um þá sem voru myrtir í fjöldamorðunum í Sandy Hook í Newtown í Connecticut:

Hér má hlíða á eintal Obama á blaðamannafundi í Hvíta húsinu 2013 eftir að George Zimmerman var sýknaður af morðinu á Trayvon Martin í Florida:

Fyrr á þessu ári var þess minnst að fimmtíu ár voru liðin frá blóðuga sunnudeginum í Selma, einum af lykilatburðunum í réttindabaráttu svartra. Þar hélt Obama þessa tölu:

Hér er svo loks ræða Obama við jarðarför Clementa Pinckney, sem var tilefni þessarar samantektar, en þessi ræða hefur farið víða um Internetið og ekki síst söngur Obama:

Gunnar Smári Egilsson
gunnarsmari@frettatiminn.is

The post Stríðspresturinn Obama appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652