Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hefur gaman af tilraunastarfsemi

$
0
0

„Ég held ekki í neinar sérstakar jólahefðir en hef gaman af því að gera allskonar tilraunir,“ segir Hrefna um leið og hún sker eina sneið af ilmandi kanilsnúðabrauði og setur á disk.

„Mamma og tengdamamma sjá hins vegar alltaf til þess að við fáum ákveðnar kræsingar í kringum jólin og því væri kannski einum of ef ég færi líka að framleiða þær. En ég á eflaust eftir að taka við kökukeflinu síðar og æfi mig stundum á einni og einni tegund. Að því sögðu þá baka ég bara það sem mig langar til og hef tíma til fyrir jólin. Ekkert mikið en eitthvað smá.“ Hún viðurkennir þó að halda í eina hefð sem er piparkökubakstur. „Börnin hafa svo gaman af að gera piparkökur. Þá ýmist baka ég þær eða kaupi deig á leikskólanum til styrktar ferðasjóðum kennaranna.“

Hrefna segir að tilraunastarfsemin ráði jafnframt ríkjum þegar kemur að hátíðarmatnum og þar hafi hún prófað hitt og þetta. „Það er ekki oft sem maður fær tækifæri til að elda svona stórar sælkeramáltíðir eins og á jólunum.“ Þessvegna grípur hún tækifærið fegins hendi. „Reyndar er eitt alltaf til staðar og það er Waldorf salatið þar sem ég tel mig hafa fundið inn gullna meðalveg og hef það alltaf með. Ég rista líka oft möndlur og hnetur í hlynsírópi með rósmarín og sjávarsalti. Það er mikið sælgæti og ágætis mótvægi við sætindunum.“

Gaffli er stungið í kanilbrauðið og bitinn ratar í muninn þar sem hann leikur við bragðlaukana. Talið berst að þeim sem kenndu Hrefnu til verka í eldhúsinu.

„Í minni ætt eru miklar myndarkonur og ætli ég hafi ekki lært af þeim öllum. Þó hef ég nú lært mest af mömmu minni sem er mikill sælkeri og svo var ég svo heppin að eignast tengdamömmu sem er snillingur þegar kemur að mat og bakstri, enda heimilisfræðikennari. Amma mín heitin og systir hennar voru alltaf með fulla skápa af kökum og bakkelsi og einnig hefur amma mín í sveitinni matbúið mikið alla tíð. Hún er meistari í brauðtertugerð. Þannig þetta hefur svo sem alltaf verið í umhverfinu og ekki þótt mikið tiltökumál. Ég hef hins vegar ekki tíma til að baka alla daga en tek mig til þegar tilefni er og ég dett í gírinn. Svo hef ég lært mikið á að vera óhrædd við að prófa mig áfram. Hef svolítið gaman af svona tilraunastarfsemi,“ segir Hrefna.

Hér eru tvær uppskriftir frá Hrefnu Sigurjónsdóttur af brauði sem hentar vel á veisluboðið. Annað er sætt, en hitt er kryddað.

Kanilsnúðabrauð með glassúr.
Kanilsnúðabrauð með glassúr.

Kanilsnúðabrauð með glassúr

Deig:
800 g hveiti
100 g sykur
1 tsk vanillusykur
2 og ½ tsk þurrger
250 ml mjólk (bæta við ef þarf)
70 ml olía
2 egg
1 tsk salt

Fylling:
100 g smjör
50 g sykur
3 msk kanill

Glassúr með rjómaosti:
60-70 ml hreinn rjómaostur
1 bolli flórsykur
1-2 msk mjólk eða rjómi til að þynna
Fræ úr ½ vanillustöng eða 1 tsk vanilludropar
Aðferð:
Hitið ofninn í 170 gráður og blandið þurrefnum vel saman í stóra skál (t.d. hnoðskál). Bætið vökva út í og hnoðið vel. Látið deigið hefast í 30-40 mínútur. Gott getur verið að breiða rakt viskustykki yfir skálina og setja hana t.d. upp við hlýjan ofn. Bræðið smjörið við vægan hita og hrærið sykri og kanil saman við.

Þegar deigið er búið að hefast er það flatt út með kökukefli líkt og gert er með kanilsnúða og fyllingunni smurt jafnt á ferhyrninginn. Því næst er deiginu rúllað upp með því að brjóta lengri hlið upp og rúlla svo í eina stóra rúllu. Þá er rúllan skorin í tvennt svo úr verði tvö brauð. Samskeytin eru látin snúa niður. Þá er deigið skorið í fremur þykka snúða nema ekki er skorið alveg niður heldur rúmlega til hálfs, þannig að botninn sé heill undir og snúðarnir hangi saman. Einnig má nota vegleg eldhússkæri til að klippa í deigið en mér þykir þægilegast að nota stóran, beittan hníf. Þá eru snúðarnir togaðir í sitt hvora áttina til skiptis til að gera fallegt mynstur. Gott er að þjappa brauðinu svolítið saman eftir togið svo „hálfsnúðarnir“ loði saman. Penslið því næst brauðin með bræddu smjöri. Þegar hér er komið sögu má ýmist baka brauðin í formi eða á bökunarplötu með smjörpappír. Ef brauðið er sett í form er gott að setja smjörpappír í formið. Þá verður brauðið aðeins öðruvísi í laginu (líkara hefðbundnu brauði) og safaríkara þar sem fyllingin lekur síður úr. Á hinn bóginn er mjög fallegt þegar brauðið er bakað á smjörpappír. Þá dreifir það meira úr sér og verður frekar tilkomumikið. Bakið í 25-35 mínútur við 170 gráður eða þar til brauðið fær fallega, gullbrúna áferð. Takið brauðin út og kælið á grind.
Hrærið öllu sem á að fara í glassúrinn saman í hrærivél með þeytara og bætið við mjólk þar til æskilegri þykkt er náð. Dreifið óreglulega yfir brauðin með teskeið.

Glúenlaust kryddbrauð.
Glúenlaust kryddbrauð.

Glútenlaust kryddbrauð

3 dl fínt glútenlaust hveiti (t.d. Doves farm)
3 dl mjólk
3 dl sykur (má vera minna)
3 dl glútenlaust haframjöl
1 tsk engifer
1 tsk negull
2 tsk kanill
2 tsk kakó
2 tsk matarsódi
Smjör til að smyrja formið
Möndluflögur til að dreifa yfir og skreyta með
Aðferð:

Hitið ofninn í 180˚C og blandið öllu saman í stóra skál. Hrærið vel saman. Setjið í stórt smurt brauðform og dreifið möndluflögum yfir að vild. Bakið í u.þ.b. 40-50 mínútur eða þar til brauðið tekur á sig lit og virðist tilbúið. Gott er að fylgjast með og gæta þess að ofbaka ekki því ofnar eru misjafnir. Kælið og gæðið ykkur síðan á herlegheitunum. Best með ekta smjöri!

The post Hefur gaman af tilraunastarfsemi appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652