Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild HR, kynnti í gær fimmtudag, á ráðstefnu um kynferðisbrot í Háskólanum í Reykjavík, niðurstöður rannsóknar sinnar á dómum Hæstaréttar, þar sem sakfellt er fyrir nauðgun og þolandi brotsins er barn yngra en 18 ára. Hún segir mikinn lærdóm mega draga af þessum dómum, sérstaklega af upplýsingum er varða líðan þolendanna.
Helstu ástæður þess að þolandi kærir ekki:
-Skömm, sektarkennd og niðurlæging
-Þolandi hefur óhlýðnast foreldrum
-Ótti við umtal
-Ótti við geranda
-Samúð með geranda
-Gerandi nýtur virðingar
-Viðbrögð vina og vandamanna
Úr niðurstöðum rannsóknarinnar:
Í 29 af 32 tilfellum leitaði þolandi læknisaðstoðar
76% tilfella sjást líkamlegir áverkar á þolanda
75% brotanna voru kærð innan tveggja sólarhringa
95% tilfella neitar gerandi sök
34% tilfella sætir gerandi gæsluvarðhaldi
18% tilfella sætir gerandi geðrannsókn
Í rannsókn Svölu kemur í ljós að frá og með stofnun Hæstaréttar árið 1920 þar til í ágúst á þessu ári hafa á þriðja hundrað dóma fallið vegna kynferðisbrota gegn börnum. 32 þessara dóma varða nauðgun ungmenna sem falla ekki undir sérákvæði gagnvart börnum, þ.e. sifjaspell, trúnaðartengsl eða brot gegn barni undir lögaldri. Í öllum tilfellum var þolandinn stúlka og gerandinn karlmaður. Meðalaldur þolenda var 15,7 ár og meðalaldur geranda 26 ár. Brotin voru langoftast, í tuttugu tilfellum, framin á umráðasvæði geranda (heimili, sumarbústað, bifreið eða hlöðu).
Það sem er áhugavert við þessa rannsókn á dómunum er að þú skoðar sérstaklega og dregur fram upplýsingar sem snúa að líðan, tilfinningum og hugsunum þolendanna.
„Já, mér fannst mikilvægt að skoða dóma þar sem sakfellt er fyrir þessi brot sérstaklega því þar er að finna margvíslegar þýðingarmiklar upplýsingar sem við getum dregið lærdóm af. Það má átta sig betur á eðli brotanna og einkennum með því að lesa dóma hæstaréttar. Ég skoðaði sérstaklega upplýsingar um líðan, tilfinningar og hugsanir þolendanna. Ekki síst í þeim tilgangi að mæta þolendum af meiri skilningi, til þess að konur þori að segja frá eins alvarlegum atburði og nauðgun er og leiti sér hjálpar. Skömmin sem svo margar konur upplifa gerir það að verkum að þær byrgja þetta inni og getur það síðar meir valdið veikindum, bæði andlegum og líkamlegum. Í kjölfarið kemur allt annað, eins og til dæmis hvort þær vilja kæra. Mikilvægt er að við spyrjum okkur hvað við getum gert til að stuðla að því að konum sem er nauðgað líði ekki eins og sakborningum. Að þær þurfi ekki að skammast sín og upplifa að þær hafi gert eitthvað rangt. Númer eitt í mínum huga er að þolanda kynferðisbrots finnist hann hafa frelsi til að segja frá.“
En í ljósi þess sem hefur gerst nýlega, að meintur gerandi kæri meintan þolanda fyrir rangar sakagiftir, eins og í hinu svokallaða Hlíðamáli. Það er nú varla til þess að hvetja þolendur til að segja frá, hvað þá kæra?
„Það er mjög óvenjulegt að meintur þolandi skuli vera kærður fyrir rangar sakargiftir strax á frumstigi rannsóknar. Þetta er einstakt tilvik og ég man ekki eftir öðru dæmi. Ég hef enga trú á því að aðrir lögmenn muni almennt leika þetta eftir. Í þessu máli er staðan sú að kærandi brots er samtímis kærður fyrir alvarlegt hegningarlagabrot. Hann er því sakborningur samhliða því að kæra. Þetta hefur án efa neikvæð áhrif á þá sem velta fyrir sér hvort þeir eigi að leggja í að kæra eða ekki og til þess fallið að fæla þolendur frá því að kæra. Svo spyr maður sig; verði einhver sakfelldur fyrir nauðgun sem hefur kært þolanda fyrir rangar sakargiftir, er það ekki ávísun á kæru fyrir rangar sakargiftir af hálfu þolandans? Hvar endar þetta?“
Nú er það svo að aðeins lítill hluti kæra vegna nauðgunar kemst áfram í kerfinu og stundum hefur maður á tilfinningunni að dómstólar leiti hverrar glufu til að sýkna gerendur. Er það svo, að dómskerfið sé “gerendavænt”?
„Nei, það er ekki svo. Ég ber traust til dómstólanna og þeir fara eftir reglum sakamálalaganna um sönnun og sönnunarmat. Engar sérkröfur eru gerðar til strangara sönnunarmats í þessum málum umfram önnur. Vandinn í þessum brotaflokki byggist á hinum oft og tíðum veikburða sönnunargögnum í málunum þar sem orð er gegn orði, engum vitnum til að dreifa eða sýnilegum sönnunargögnum, s.s. áverkum. Þetta gerir sönnun erfiða. Þó tel ég að styrkja megi framburði og skýrslur sérfræðinga sem skoða þolendur í kjölfar brots og að skoða megi hvað sé nauðsynlegt að þar komi fram til að þær nýtist sem gagn í dómi til sönnunar á sekt.“
Hvað með nýju lögin í Bretlandi, þar sem meintir gerendur þurfa að sanna að þeir hafi fengið “já”, frekar en að meintur þolandi þurfi að sanna að hann hafi sagt “nei”.
„Ég er ekki búin að skoða hina bresku löggjöf í kjölinn en sýnist í fljótu bragði að sakborningur þurfi að sýna fram á að hann hafi haft gilda ástæðu til að vera í góðri trú um samþykki. Íslenska ákvæðið segir ekkert um samþykki berum orðum, þótt það sé undirliggjandi skilyrði. Breska framsetningin er áhugaverð og ef til vill ástæða til að skoða íslenska ákvæðið í því ljósi, þ.e. hvort herða megi á skilyrði, í lögum eða dómaframkvæmd, um að gerandi geti talist hafa verið í góðri trú um samþykki. Það myndi þó ekki leysa úr öllum álitamálum og er vandrötuð leið.“
Þegar dómar eru skoðaðir þá er þar oft tekið fram hvernig þolandi hegðar sér gagnvart geranda eftir verknað. Skiptir þetta máli fyrir dómi?
„Það eru engin stöðluð viðbrögð við nauðgun eða eftir verknað. Viðbrögð eru ekki mælikvarði á það hvort verknaður hafi verið framin eða ekki, en tiltekin viðbrögð sem lýst er í dómi geta stutt við framburði og frásagnir aðila og vitna. Rannsóknin á sakfellingardómum Hæstaréttar sýnir að viðbrögð þolenda á meðan á verknaði stendur og eftir framningu hans eru afar ólík. Sumir berjast á móti meðan aðrir streitast á móti, sumir biðja geranda um að hætta, aðrir frjósa eða gráta og í einu tilviki sagðist stúlka hafa látið sem hún svæfi í þeirri von að áhugaleysi hennar myndi leiða til þess að maðurinn léti hana í friði. Svo eru tilvikin þar sem þolandinn sefur ölvunarsvefni og er ófær bæði um að gefa samþykki eða streitast á móti.“
En hvað með klæðnað þolanda og ölvun? Í hegningarlögunum frá 1869 þá var refsing við nauðgun vægari er þolandi hafði á sér “óorð”, er þessi drusluskömm enn til staðar?
„Það má vel vera að drusluskömm sé enn til staðar í samfélaginu. Með breytingunum á hegningarlögunum í gegnum tíðina hefur orðfæri sem gerir lítið úr verðleikum kvenna verið afnumið í samræmi við breyttan tíðaranda. Drusluskömmin endurspeglast þannig ekki í löggjöfinni þó að eima kunni eftir af henni annars staðar. Þegar dómarnir þrjátíu og tveir eru lesnir vekur athygli manns að áður fyrr var að finna mjög persónulegar upplýsingar um kynhegðun kvennanna fyrir brotið. Skýringin er m.a. sú að fram til ársins 1992 var eingöngu litið svo á í réttarframkvæmd að konu hefði verið nauðgað ef maður hafði komið getnaðarlim sínum inn í leggöng hennar og hafið samfarahreyfingar. Árið 1992 var nauðgunarákvæðinu breytt á þann veg í fyrsta lagi að það verndaði bæði karla og konur, en fram að því gátu eingöngu konur verið þolendur brotanna. Í öðru lagi voru „önnur kynferðismök“ lögð að jöfnu við samræði. Árið 2007 var síðan ákveðið að innlima í nauðgunarákvæðið verknaði sem höfðu varðað vægari refsingu, eins og að notfæra sér ástand manneskju sem ekki getur spornað við verknaði, s.s. vegna ölvunar eða notfæra sér andleg vanheilindi manneskju. “
The post Það eru engin stöðluð viðbrögð við nauðgun appeared first on Fréttatíminn.