Erna Mist er nýtt nafn í jólabókaflóðinu um þessi jól, en á dögunum kom út teiknimyndasaga hennar, Fáfræði. Teikningar Ernu eru einfaldar en textarnir eru mjög beittir og skemmtilegir. Hún segist hafa fengið mjög góðar viðtökur við þessum teikningum sínum sem margar urðu til í tímum í Menntaskólanum við Hamrahlíð hvar hún stundar nám.
„Ég mundi ekki segja að minn húmor væri kvenlægari. Ég var á bókamessu um daginn og þar voru mun fleiri strákar en stelpur sem keyptu bókina, en ég held að bæði kynin hafi gaman af þessu. Ég fékk mjög jákvæð viðbrögð þar.“
„Ég hef lengi verið að skrifa sögur og ljóð, en byrjaði ekki á myndasögunum fyrr en rétt fyrir síðustu jól,“ segir Erna Mist, teiknari og höfundur teiknimyndasögunnar Fáfræði.
„Þetta byrjaði eiginlega bara óvart. Ég byrjaði að leika mér að því að teikna í tímum í MH,“ segir hún. „Svo eftir skólaárið var ég komin með nóg af myndum í eina bók. Það var mjög auðvelt að leiðast út í það að teikna í tímum sem voru kannski leiðinlegir. Ætli ég hafi ekki teiknað mest í dönskutímunum,“ segir Erna.
„Brandararnir eru bara eitthvað sem mér hefur dottið í hug og sumt af þessu er bara eitthvað sem ég hef heyrt í umhverfinu og er svo fyndið því það er skrýtið. Annars kemur þetta bara af sjálfu sér. Þegar ég var komin með svona mikið af myndum og fannst öllum sem sáu þetta hjá mér að þetta ætti að koma út. Ég hringdi því bara í bókaútgáfuna Tind sem voru bara til í að gefa þetta út,“ segir hún. „Ég hef svo alltaf haldið áfram og er langt komin með bók númer tvö núna og væntanlega kemur hún út um næstu páska. Svo er ég líka að vinna að ljóðabók sem kemur mögulega út fyrir næstu jól. Það grín sem mér finnst fyndnast er yfirleitt það sem engum öðrum finnst fyndið,“ segir Erna. „Minn einkahúmor bara sem er svo absúrd stundum. Það eru nokkrir svoleiðis brandarar í bókinni,“ segir hún. „Þeir sem eru vinsælastir eru þeir sem ég tengi við einhverja fáfræði. Ég er líka að teikna þessa dagana fyrir einn landsþekktan höfund, sem ég get ekki tjáð mig meira um,“ segir Erna sem er á öðru ári í MH. „Krakkarnir í skólanum hafa flestir hrósað mér mikið, en auðvitað eru einhverjir sem dæma þetta. Aðallega þeir sem segja þetta of líkt teikningum Hugleiks Dagssonar,“ segir hún. „Þetta er samt bara ein tegund teiknimynda og það eru margir að teikna svona myndir um allan heim. Hugleikur er ekki sá eini, þó hann sé fyrirmynd hér á Íslandi. Það sem skiptir samt meira máli í þessu er textinn og minn húmor er alls ekki sá sami og hans. Ég mundi samt ekki segja að minn húmor væri kvenlægari. Ég var á bókamessu um daginn og þar voru mun fleiri strákar en stelpur sem keyptu bókina, en ég held að bæði kynin hafi gaman af þessu. Ég fékk mjög jákvæð viðbrögð þar,“ segir Erna Mist höfundur og teiknari.
The post Teiknaði mest í dönskutímum appeared first on Fréttatíminn.