Ný íslensk rannsókn, sem birt var í Journal of Nutritional Science í vikunni, styður þá kenningu að samband sé milli D-vítamínskorts og þunglyndis. Rannsóknin er hluti af risavaxna samevrópska verkefninu MooDFOOD. Ingibjörg Gunnarsdóttir, verkefnisstjóri íslenska hlutans, segir niðurstöður benda til þess að stórir skammtar af D-vítamini hjálpi ekki til að bæta geðið, heldur sé mikilvægt að halda sér rétt ofan við lágmarksmörk. Allir ættu því að taka inn D-vítamín en ekki of mikið.
„Hlutverk D-vítamíns í beinheilsu er vel þekkt en D-vítamín virðist einnig geta haft áhrif á fleira, eins og geðheilsu. Þessi grein sem við vorum að birta styður þá kenningu að samband sé milli D-vítamínskorts og þunglyndis,“ segir Ingibjörg Gunnarsdóttir forstöðumaður Rannsóknarstofu í næringarfræði og yfirnæringarfræðingur Landspítala Háskólasjúkrahúss en hún er verkefnisstjóri íslenska hluta Evrópuverkefnisins MooDFOOD. 14 rannsóknarstofnanir í 9 löndum taka þátt í MooDFOOD verkefninu sem fjallar um tengsl næringarástands og þunglyndis og er umfang verkefnisins um 1,4 milljarðar króna.
Nýta sér gögn Hjartaverndar
„Evrópusambandið kallar reglulega eftir ákveðnum tegundum af rannsóknum á þeim sviðum þar sem talið er að staða þekkingar sé ekki nægilega mikil,“ segir Ingibjörg en árið 2013 var kallað eftir hugmyndum að rannsóknum á sviði næringar og þunglyndis. Rannsóknarhópurinn MooDFOOD varð fyrir valinu en Hjartavernd og Rannsóknarstofa í næringarfræði eru fulltrúar Íslands í hópnum.
„Okkar aðkoma í verkefninu er fyrst og fremst í faraldsfræði þar sem við notum gögn úr öldrunarrannsókn Hjartaverndar en þar er meðal annars að finna upplýsingar um styrk D-vítamíns í blóði, fitusýrusamsetningu í rauðum blóðkornum, fæðuval og þyngdarbreytingar allt niður í barnæsku. “
Stórir skammtar hjálpa ekki
Fyrstu niðurstöður íslenska hluta verkefnisins birtust í Journal of Nutritional Science í vikunni. Þar er sýnt fram á það að þeir sem mælast með lágt D-vítmín í blóði eru líklegri til þess að hafa verið þunglyndir á einhverjum tímapunkti. „Okkar greiningar benda samt ekki til þess að fólk myndi hafa gagn af mjög stórum skömmtum af D-vítamíni til þess að bæta geðið, heldur eru það eingöngu þeir sem eru mjög lágir sem voru líklegri til að vera þunglyndir. Margir samverkandi þættir geta haft áhrif á D-vítamín í blóði, en það virðist mikilvægt að koma öllum upp fyrir 30 nmól/l, meðan hærri D-vítamín gildi myndu líklega ekki skila bættri geðheilsu miðað við niðurstöður rannsóknarinnar. Þannig að allir ættu að taka inn eitthvað af D-vítamíni en kannski ekki allt of mikið.“
Mælir með síld og laxi um jólin
Ingibjörg segir að verkefnið sé í fullum gangi þar sem meðal annars sé verið að nota gögn sem liggja fyrir víða um Evrópu til að skoða tengsl á milli næringarástands og þunglyndis í stórum faraldsfræðilegum rannsóknum og að bráðlega fari fleiri greinar að birtast. Undirbúningur íhlutandi rannsóknar stendur einnig yfir, þar sem markmiðið er að rannsaka áhrif næringarmeðferðar á geðheilsu.
En fáum við nægt D-vítamín úr matnum, þar sem sólarljósið er ekkert þessa dagana?
„Næstu mánuði þegar ekkert er sólarljósið þurfum við að fá D-vítamín úr matnum, bætiefnum eða lýsi og það er mikilvægt að fólk passi upp á þetta. Við erum mjög gjörn á að taka vítamín og lýsi á morgnanna og ef það gleymist þennan morguninn þá er það svo fast í okkur að við þurfum að bíða til næsta morguns, en auðvitað má þá bara taka það í hádeginu eða um kvöldið. Það að velja D-vítamínbætta mjólk kemur okkur ansi langt, þannig að ef fólk velur hana frekar en þá venjulega þá hjálpar það til við að halda D-vítamíngildum í blóði innan eðlilegra marka. Þetta er kannski sérstaklega mikilvægt fyrir þá sem gleyma oft að taka D-vítamín sem bætiefni. En svo er ráðlagt að borða feitan fisk reglulega og við getum gert vel við okkur með síld og laxi um jólin .“
The post D-vítamín mikilvægt fyrir geðheilsu appeared first on Fréttatíminn.