Heimildarmyndin HUMAN TIMEBOMBS fjallar um flóknasta taugasjúkdóm í heimi, AHC, verður sýnd í Sambíóunum Egilshöll á laugardaginn kl 17.00. Árið 2012 var gerð vísindaleg uppgötvun þar sem orsök sjúkdómsins fannst. Vísindamenn í Bandaríkjunum halda því fram að með réttu fjármagni geti þeir fundið lækningu á sjúkdómnum. Nú stendur yfir sannkallað kapphlaup við tímann upp á líf og dauða til þess að finna lækningu. Lyfjafyrirtækin hafa ekki viljað taka þátt í þróun lyfja við sjúkdómnum þar sem hann er afar sjaldgæfur.
AHC hefur einkenni allra annara taugasjúkdóma, einkennin eru vægast sagt hræðileg en lækning við AHC mun koma til með að hjálpa milljónum manna með aðra taugasjúkdóma. Í myndinni kynnumst við ungri stúlku frá Reykjavík, Sunnu Valdísi, sem er eini Íslendingurinn sem greindur hefur verið með sjúkdóminn. Við fylgjumst með baráttu fjölskyldu hennar sem vinnur nú hörðum höndum að því að finna lækninguna sem búið er að staðfesta að sé í sjónmáli. Við fáum innsýn inn í það hvers vegna foreldrasamtök út um allan heim hafa sameinast um að gefast aldrei upp fyrir þessum banvæna sjúkdómi þrátt fyrir margvíslegar hindranir.
Athugið að atriði í myndinni geta vakið óhug og er því 12 ára aldurstakmark á sýningunni. Leikstjóri og handritshöfundur er Ágústa Fanney Snorradóttir.
The post Barátta Sunnu Valdísar í bíó appeared first on Fréttatíminn.