Sérsveitarmenn lögreglunnar voru staddir í aðstöðu sinni við Skúlagötu um kl. hálf þrjú í nótt er þeir heyrðu hróp í mönnum frá grjótgarði við Sæbraut neðan við Snorrabraut, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu höfuðborgarsvæðisins. Eftirfarandi er lýsing lögreglu af atburðinum: „Er lögreglumennirnir komu á vettvang til að ræða við mennina sem stóðu á grjótgarðinum sáu þeir unga konu í sjónum uþb. 5o metra frá landi og var hún hrópandi til þeirra. Annar lögreglumaðurinn fór þá til að sækja sjógalla í aðstöðu þeirra en hinn varð eftir og sá þegar konan var að örmagnast. Lögreglumaðurinn fór þá í sjóinn og synti til konunar og náði að bjarga henni. Þegar hann nálgaðist land var hinn lögreglumaðurinn kominn aftur og fór hann einnig strax í sjóinn án sjógalla og aðstoðaði félaga sinn við að koma konunni í land. Þegar lögreglumenn komu með konuna að landi var komin aðstoð frá slökkviliði, sjúkrabifreið og fleiri lögreglumenn. Konan var köld og hrakin og var hún flutt í sjúkrabifreið til aðhlynningar á slysadeild. Mennirnir sem voru á grjótgarðinum voru erlendir ferðamenn sem voru þarna á göngu og sáu konuna.“
The post Sérsveitin bjargar konu úr sjó appeared first on FRÉTTATÍMINN.