Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Algengt að börn fái fyrsta símann níu ára

$
0
0

Algengt er að börn eignist sinn fyrsta síma þegar þau hætta í skólafrístund, um níu ára aldurinn. Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, segir foreldra eiga það til að vakna upp við vondan draum þegar börnin eru orðin háð símunum sínum. Hún bendir á að upplýst símanotkun verði að vera er hluti af uppeldinu í dag. 

Í síðustu viku bárust fréttir af því að síma hefði verið stolið af fimm ára barni í Smáralind. Í kjölfarið veltu margir því fyrir sér hvort algengt væri að fimm ára börn ættu yfir höfuð síma. Á Beauty tips vefnum spruttu meðal annars upp líflegar umræður um símanotkun barna. Móðir fimm ára drengsins, sem símanum var stolið af, kom svo inn í umræðuþráðinn þar sem hún upplýsti áhugasama um að síminn hefði verið gamall og án símakorts, og nýttist því sem leiktæki. Reyndar er það svo að margir foreldrar endurnýta nýta gamla síma, án símakorts, sem leiktæki fyrir börnin sín eins og einnig kom fram á fyrrnefndum umræðuþræði. En á hvaða aldri eignast börn síma í dag og þurfa börn yfir höfuð að eiga síma? Eru einhver aldursviðmið og er eitthvað sem foreldrar þurfa að hafa í huga þegar kemur að símanotkun? Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, svaraðir nokkrum spurningum Fréttatímans varðandi símanotkun barna.

Algengt að fá fyrsta símann níu ára

„Það er kannski ekki beint nauðsynlegt að krakkar eigi síma, því auðvitað komast þeir af án þess,“ segir Hrefna. „Veruleiki barna er samt sem áður ólíkur því sem var áður var og það er alls ekki óeðlilegt að þróun farsímanotkunar sé í takt við það. Auðvitað er mjög þægilegt að geta alltaf náð í börnin sín og í þeim skilningi er þetta öryggistæki.“
Varðandi viðmið um aldur þegar kemur að símanotkun segir Hrefna ekkert lágmarksviðmið hafa verið sett heldur sé foreldrum treyst til að vega og meta. „Ég veit að það eru krakkar að fá síma, og þá meina ég síma með símakorti til að nota sem síma, niður í átta ára en þeir eru samt oftast að fá síma í fyrsta sinn í kringum níu ára aldurinn. Þá eru börnin kannski búin að vera að suða dálítið lengi og þá sjá foreldrar oft í fyrsta sinn ástæðu til þess að láta þau hafa síma því þetta er aldurinn sem þau hætta í frístundinni og fara að vera meira ein, verða sjálfstæðari.“

Snjallsími eða takkasími

„Við þurfum að hugsa vel um það hvort tækið hæfi aldri og þroska barnsins. Við mælum alltaf með því að börn séu ekki að fá of flókin tæki, frekar eitthvað sem dugar. Þetta eru dýr tæki og við vitum að börn eiga það til að týna hlutum. Ef við kjósum að láta þau hafa snjallsíma þurfum við að passa upp á að kynna fyrir þeim muninn á þráðlausu neti, 3G og 4G neti og að þau átti sig á því að þetta kostar peninga,“ segir Hrefna og bendir á að séu börnin nettengd sé mjög mikilvægt að fara yfir allar netreglur. „Foreldrar eru eðlilega að velta þessu mikið fyrir sér. Nú er læsi mikið í umræðunni en það líka mikilvægt að kenna börnum miðlalæsi. Við þurfum að kenna börnum að vita muninn á réttu og röngu á netinu og að trúa ekki öllu sem þau lesa á netinu. Sama hvort börn fái síma eða ekki þá er þetta einmitt aldurinn sem er gott að fara yfir netreglurnar með börnunum.“

Kennum börnum gagnrýna hugsun

Hrefna segir það vera skyldu foreldra að fræða barnið um það hvernig eigi að nota símann áður en það fær hann í hendurnar. „Flestir símar í dag virka eins og lófatölvur, allavega snjallsímar, og við getum ekki sett þá í hendur barns án þess að setja þeim reglur um notkunina. Það eru til ýmis forrit sem leyfa foreldrum að stilla notkunina, t.d með því að stilla á hvaða tímum dags sé hægt að nota símann og með því að stilla símann þannig að ókunnug númer geti ekki hringt í hann. En það sem er lang mikilvægast er að ræða við börnin og kenna þeim að þróa með sér gagnrýna hugsun því við getum ekki alltaf verið til staðar til að líta yfir öxlina á þeim, og eigum ekki að vera það. Börnin verða að læra að setja sér mörk og það er í raun hluti af uppeldinu að fara yfir þessi síma og tölvunotkunarmál.“

Foreldrar vakna við vondan draum

Hrefna segir foreldra eiga það til að vakna upp við vondan draum þegar börnin eru orðin það háð símunum að þau verða stöðugt að vera að tékka hvað sé að gerast og líti varla upp frá skjánum. „Við hjá Heimili og skóla höfum talað um það hversu mikilvægt er að setja upp einfaldar reglur í samstarfi við börnin um símanotkun. Til dæmis að nota ekki síma við matarborðið, að börnin fari ekki með símann í herbergið þegar þau fara að sofa heldur geymi hann frammi. Foreldrar verða að sýna börnunum að þau vilji að notkunin fari fram á ákveðinn hátt. Smám saman sér þá barnið að þetta er eitthvað sem skiptir miklu máli.“
Hrefna bendir jafnframt á að það sé ekki síður mikilvægt að foreldrar sýni viljann í verki og séu sjálfir góðar fyrirmyndir. „Við megum heldur ekki stöðugt vera að glápa á símann sjálf. Það þýðir ekkert að sækja barnið á leikskólann og horfa svo bara á skjáinn frekar en barnið.
Við hvetjum líka foreldra til að fylgja fyrirmælum um aldurstakmörk sem miðlar á borð við Facebook og Instagram gefa sjálfir. Það er ástæða fyrir því að þessi aldurstakmörk eru sett. Þeir sem búa þess miðla til gera ráð fyrir því að börn undir 13 ára aldri hafi ekki þroska til að nota þá.“

The post Algengt að börn fái fyrsta símann níu ára appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652