Það eru, held ég, oftast nokkuð margar kveikjur að bók og það á við í þessu tilviki,“ segir Sindri Freysson spurður hvernig honum hafi dottið í hug að setja ljóðabókina Góðir farþegar upp sem örmyndir af hugsunum mismunandi farþega og starfsfólks í flugferð. „Ég held að ein fyrsta hugmyndin hafi kviknað einhvern tíma þegar ég var á siglingu með ferju um Eyjahafið og skipstjórinn byrjaði að tala við farþegana. Hann talaði þunglyndislegri röddu í gegnum brakandi kallkerfi og það var eins og hann ætlaði sér að dáleiða okkur farþegana og sannfæra okkur um að fylgja sér í djúpið. Síðan verða þessi hörmulegu flugslys, ef slys skyldi kalla. Fyrst hvarf flugs MH-370 frá Malaysian Airlines sem verður upphafið að stærstu og umfangsmestu leit sem gerð hefur verið að farþegaþotu og er eitt dularfyllsta hvarf sem um getur, bæði í sögu flugsins og mannkynssögunnar. Ég hef engan sjúklegan áhuga á flugslysum en mér fannst þetta mjög heillandi. Ekki má gleyma German Wings þotunni sem flugmaðurinn flaug beint á frönsku Alpana. Mér fannst heillandi viðfangsefni að flugmenn þessara véla hefðu skipulagt sjálfsmorð sem var um leið fjöldamorð vikum og mánuðum saman. Þetta er ekkert stundarbrjálæði sem grípur þá, það liggur mikil skipulagning þarna að baki.“
Í framhaldi af því að velta fyrir sér skipulagningu flugstjóranna segist Sindri hafa farið að hugsa um líðan farþeganna sem sátu í þessum flugvélum og gátu enga björg sér veitt. „Þá rifjaðist upp fyrir mér að ein af mínum fyrstu minningum tengist frekar óþægilegri reynslu í flugvél. Þegar ég var fjögurra ára gamall fór ég með móður minni og systur fljúgandi til Vestmannaeyja og það var mín fyrsta flugferð. Þetta var ókyrrt flug, mikið hopp og manni var orðið flökurt og farin að óttast það að deyja. Þegar við komum að Vestmannaeyjum sá ég ekki betur en að við myndum fljúga beint á klettana og varð skelfingu lostinn. Á síðustu stundu lyftist svo vélin og lenti á vellinum og maður varpaði öndinni léttar. Kannski var þetta alfyrsta kveikjan að bókinni. Sumir hafa vit á því að fá sér sálfræðing en aðrir skrifa ljóðabækur.“
Í þessari stuttu bók tekst Sindra að veita innsýn í líf og forsögu um það bil fimmtíu ólíkra einstaklinga sem eru farþegar í vélinni, var þetta ekki frekar efni í skáldsögu? „Farþegar þessarar flugvélar eru einhvers konar þverskurður af heiminum, en um leið eru þeir fangar, fastir á milli himins og jarðar. Enginn þeirra er fulltrúi einhverrar ákveðinnar manngerðar, engar erkitýpur heldur fyrst og fremst manneskjur sem ljóðin reyna að glæða lífi. Það var mikil áskorun að framkalla fjölbreytileika í stíl og tóntegund án þess að verkið missti sinn heildarsvip. Um leið og hvert ljóð tæpir á forsögu viðkomandi farþega þá er viðfangsefnið meðvitundin um þetta afmarkaða rými og svo þessi yfirvofandi feigð. Auðvitað er þetta fyrirtaksefni í skáldsögu og hver veit nema maður skrifi hana þegar fram líða stundir. En mér fannst svo heillandi að búa bara til þessar augnabliksmyndir af fólki af báðum kynjum, á öllum aldri, af ólíkum þjóðernum og trúarbrögðum og leyfa síðan lesandanum að túlka sjálfur. Alveg einsog við veltum fyrir okkur öðrum farþegum þegar við fljúgum, hvert þeir stefna og hvort gott eitt vaki fyrir þeim.“
The post Sumir fara til sálfræðings, aðrir skrifa ljóðabækur appeared first on Fréttatíminn.