Konan mín fær svo gott sem aldrei afskorin blóm. Ég veit vel að það myndi gleðja hana að fá stöku túlípana en ég skil bara ekki konseptið – að kaupa dauð blóm. Miklu betra að kaupa bara banana eða eitthvað og svo kryddjurtir á hátíðisdögum. Blóm í mold er þó allt önnur ella en ég kaupi þau því miður ekki heldur. Fyrir nokkru, þegar þreyta á bið eftir blómum kom upp í minni frú, keypti hún þau bara sjálf – á Bland. Hún fór þó örlítið fram úr sér eftir alla biðina og keypti ansi stórt blóm. Hún spurði því, eðlilega, hvort hún ætti að senda eftir því bíl. Ég hélt nú ekki. Ég ætti að ráða við að sækja eitt blóm, þó það væri af stærri gerðinni og að auki staðsett í efri byggðum Kópavogs. Frúin yppti öxlum og rétti mér peninga enda veit hún sem er að ég er sjálfsækir. Það er að ég að notast aldrei við þjónustu sendibíla. Fer frekar hundrað ferðir á mínum einkabíl og sæki það sem vantar – í pörtum ef þurfa þykir. Óttaðist því ekki að sækja eina pottaplöntu í Kórahverfið. Það runnu þó á mig tvær grímur þegar þangað kom og loks skildi ég þetta með sendibílinn, því þegar Kópavogskonan opnaði útidyrnar hjá sér spratt plantan á móti mér og á bak við hana var mærin buguð eftir að hafa rogast með plöntuna úr stofunni. Þótt ég sé á steisjón komst blómið ekki fyrir í skottinu. Það kom þó ekki til mála að gefast upp, af því að þannig er það ekki hjá sjálfsækjum. Ég setti því blómið á gólfið farþegamegin, opnaði gluggana og hélt af stað. Blómið teygði sig út um gluggann sín megin og yfir bílstjórasætið og út um gluggann þar. Mér leið eins og ég væri hann þarna í Litlu hryllingsbúðinni og blómið væri nýbúið að gæða sér á tannlækninum. Lét þó ekki bugast heldur brosti bara kankvís til allra sem með mér voru í umferðinni, gerði laufyfirskegg og skilaði plöntunni svo af mér þegar heim var komið. Stoltur og glaður yfir því að hafa ekki gefist upp og keypt sendil.
Vandamál eiginkonu minnar enda hins vegar ekki á því að fá aldrei blóm. Því sjálfsækir þarf makker, félaga sem ekki bregst á ögurstundu. Þar hefur hún staðið sína plikt og það skal viðurkennt að mikið hefur verið á hana lagt. Hefur þurft að rogast með allt inn og út úr bílnum. Allt frá sófastólum upp í heilu stofurnar. Hún hefur næstum verið afhausuð af fúllsæs spónablötu sem ég tróð í smábíl og til að koma fyrir þurfti að fjarlægja hauspúðana á sætunum til að koma fyrir. Svona hefur þetta gengið síðan hún kynntist mér fyrir tuttugu árum, tæpum þó.
Eitt eftirminnilegasta ferðalagið var þó þegar frúin var látin halda föstum risastórum skáp, sem sjálfsækirinn keypti samsettan úr gallaða horninu í Ikea, á þaki Ford Fókus steisjónbifreiðar fjölskyldunnar. Það skal þó taka fram að skápurinn var líka teipaður fastur með límbandi við þakið svo frúin var aðallega með höndina á honum svona til að segja til um hvort límingin héldi ekki örugglega enn. Þetta gerði hún án þess svo mikið sem að blikka.
Ég fyllist líka stolti þegar ég geng um húsið og sýni fólki allt sem ég, og við í sameiningu, höfum sótt í gegn um tíðina. Ja, allt þar til kemur að eldhúsinu, sem er ljóður á annars óflekkuðum sjálfssækiferli. Þannig var að við hjónin breyttum téðu eldhúsi fyrir ekki svo löngu. Stóra vandamálið var að akkúrat á þeim tíma var ég ekkert á leiðinni að skipta um eldhús. En ég er ekki bara sjálfsækir heldur er ég líka háður því að fá góðan díl – og þarna var ég í búð sem selur eldhúsinnréttingar að skoða úrvalið af einskærum áhuga. Sölumaðurinn góði fann strax þennan veika blett og sagði að sýningareintakið á risastórri eldhúsinnréttingu sem hann var nýbúinn að setja upp væri til sölu og gerði mér skömmu síðar tilboð sem ég gat ekki hafnað. Þetta var svona annað hvort núna eða strax díll. Bara of góður til að sleppa. Auðvitað var innréttingin allt of stór fyrir litla íbúð í Hlíðunum en díll er díll og núna eru lítil eldhús á víð og dreif um íbúðina – en það þó önnur saga. Stóra vandamálið var að sölumaðurinn vildi draslið burtu og það í hvelli. Það þýddi að ekki var í boði að ná í kerruna hjá pabba og fara 15-20 ferðir eða svo. Ég varð að panta bíl! Risatrukkur mætti á staðinn skömmu síðar og við byrjuðum að hlaða vagninn, sendibílstjórinn og ég. Hann rólegur og yfirvegaður í öllum aðgerðum – ég hlaupandi um hálfkjökrandi í panikki yfir hvað þetta myndi nú kosta allt saman og díllinn færi í vaskinn fyrir vikið. Þetta hafðist þó og ég borgaði manninum blóðpeningana. Hef meira að segja, með tíð og tíma, lært að elska eldhúsið mitt þótt ég hafi ekki sótt það sjálfur. Það fylgir bara ekki sjálfsækitúrnum.
Þar sem nokkur misseri eru nú liðin og ég er búinn að jafna mig á sendlatúrnum er ég nú að byrja á baðinu. Skal það gert upp með tilheyrandi sjálfsækingum á skutbílnum og ekki einni sendibílaför. Ég er meira að segja kominn með krók. Vona bara að mín ástkæra eiginkona sé ekki orðin of góðu vön eftir að hafa ekki þurft að bera eldhúsið inn.
Kannski ég stoppi við á heimleiðinni og kaupi blóm.
The post Setjum þetta í skutbílinn appeared first on Fréttatíminn.