Hvað er mínímalískur lífsstíll?
Mínimalískur lífsstíll er að hafa í lífi þínu aðeins það sem þú þarft og nýtur þess að hafa. Laus við óþarfa. Mínimalískur lífsstíll er að einfalda líf sitt til að geta betur lifað lífinu og notið þess meira. Það eru engar reglur um hvað á að eiga mikið af hinu eða þessu.
Hann snýst ekki um að eiga eins lítið og maður getur eða að eiga bara nauðsynjar, heldur að það sem þú átt gefi lífi þínu gildi. Þess vegna er mínimalískur lífsstíl jafn ólíkur á milli einstaklinga og við erum mörg.
Hvernig fellur jólahald að slíkum lífsstíl?
Ef jólahald er eitthvað sem fólk hefur gaman af fellur það bara mjög vel að mínimalískum lífsstíl. Aðalatriðið er að fólk njóti þeirra hefða sem fylgja gjarnan jólunum og geri þær að sínum.
Flestir sem aðhyllast mínimalískan lífsstíl reyna að stilla skyndikaupum í hóf svo það er eitthvað sem gott er að hafa í huga. Jólin koma alveg án þess að maður eignist allt nýjasta og flottasta tískujólaskrautið eða baki allar mögulega sortir. Mestu skiptir að taka því bara rólega og njóta frístundanna með fjölskyldunni og vinum. Eitt sem ég hef líka vanið mig á er að borða ekki of mikið í veislum , líka um jólin. Maður nýtur sín miklu betur ef maður er aðeins léttari í maganum.

Hvað á fólk að hafa í huga varðandi jólagjafir?
Smekkur manna er mjög misjafn og því ættu allir að reyna að forðast að gefa gjafir sem munu enda ónotaðar uppi í hillu. Gott er að spyrja þann sem gefa á gjöf hvort það sé eitthvað sem viðkomandi vantar eða langi til að eignast og vera þannig viss um að gjöfin nýtist.
Mínimalískar gjafir eru eitthvað sem fólk þarf ekki að eiga. Það getur verið til dæmis eitthvað matarkyns eða gjöf á upplifun eins og gjafabréf í leikhús eða miðar á tónleika.
Svo gæti líka verið sniðugt fyrir vini eða fjölskyldur sem ná sjaldan að hittast eða vilja eyða meiri tíma saman að gefa frekar samverustund í stað hluta. Til dæmis. kaupa sér saman miða í leikhús eða tónleika, fara saman á jólahlaðborð eða halda matarboð.
Hvernig skipuleggur þú þín jól?
Þetta verða fyrstu jólin sem ég verð ekki í prófum í desember svo ég hef í huga mikla afslöppun og rólegheit. Sonur minn, þriggja ára, hefur mjög gaman af því að baka svo við reynum líklega að baka eitthvað og hafa gaman af. Við ætlum að vera með lítið jólatré og föndra jólaskrautið sjálf.
Við gefum ekki margar gjafir og eigum eiginlega alveg eftir að ákveða hvað við ætlum að gera með flestar þeirra, ég er semsagt ekki of tímanlega með það. Eina gjöfin sem er ákveðin er sú sem ég og bróðir minn keyptum handa hvoru öðru en það eru miðar á tónleika og ætlum við að fara saman.
The post Njóta þess sem gefur lífinu gildi appeared first on Fréttatíminn.