Að elda heilan kalkún kostar mikla fyrirhöfn og tekur langan tíma. Þess vegna getur það reynst góður kostur að elda bara kalkúnabringuna. Með því að vefja henni í beikon er það gulltryggt að hún verði ljúffeng og safarík. Í þessari uppskrift er bringan ekki bara vafin beikoni, heldur líka fyllt mauki úr beikonbitum, hvítlauk og ferskum kryddjurtum.
Hráefni:
1 tsk fenniku fræ
½ tsk rauðar chiliflögur
1 msk maldon salt
50 g beikonbitar
3 lauf af salvíu
½ bolli steinselja
¼ bolli ferskur graslaukur, saxaður
1 tsk ferskt rósmarín
2 msk ferskt rósmarín, saxað
2 msk rifinn sítrónubörkur
1 kalkúnabringa
12 sneiðar af beikoni
Byrjaðu á að fínmala fenniku fræin og chili flögurnar í mortéli. Helltu kryddinu í aðra skál og blandaðu saltinu saman við. Leggðu til hliðar.
Hitaðu olíuna í litlum potti á miðlungshita. Steiktu 50 g af beikonbitum á pönnunni, í u.þ.b. 5 til 8 mínútur, eða þar til þeir eru brúnir og stökkir. Láttu kólna.
Láttu beikonbitana og fituna af pönnunni í matvinnsluvél ásamt hvítlauk og maukaðu. Bættu við laufum af salvíu, steinselju, graslauk, rósmarín og rifnum sítrónuberki og maukaðu. Settu maukið til hliðar.
Þerraðu kalkúnabringuna með eldhúspappír og leggðu hana á ofnskúffu. Láttu skinnið snúa niður. Snúðu þykkari hlutanum á bringunni að þér. Renndu fingrinum meðfram bringunni þannig að fillet hlutinn losnar frá.
Notaðu beittan hníf og skerðu djúpa rauf í hliðina á bringunni, u.þ.b. 5 sentimetrum frá hálsinum að þykkasta hlutanum, en ekki skera bringuna í sundur. Flettu efri hlutanum sem þú varst að skera frá, þannig að bringan sé eins og opin bók. Taktu fillet og allt kjöt sem hangir út fyrir og komdu fyrir inn í þynnri hluta bringunnar. Hugmyndin er að bringan sé jafn þykk í báða enda.
Hafðu bringuna ennþá opna og stráðu kryddblöndunni yfir hana alla. Næst nuddarðu maukinu yfir alla bringuna og passar að það fari vel inn í skurðinn. Rúllaðu bringunni upp og passaðu að ekkert kjöt standi út af. Næst skaltu binda utan um bringuna með jöfnu millibili. Þú getur notað til þess sláturgarn. Best er að byrja á miðjunni.
Haltu áfram að loka bringunni með sláturgarni og á sama tíma móta hana í rúllu. Gættu þess að binda ekki of fast.
Leyfðu rúllunni að standa í 2 klukkutíma til að hún nái stofuhita. Hitaðu ofninn í 170 gráður, bakaðu bringuna í 40 til 45 mínútur.
Taktu hana úr ofninum og fjarlægðu garnið varlega með eldhússkærum. Raðaðu beikonsneiðum ofan á og ýttu endunum undir bringuna svo þeir haldist fastir. Stingdu kjötmæli í þykkasta hluta bringunnar og settu aftur inn í ofn. Taktu bringuna út þegar mælirinn sýnir 60 gráður, það ætti að taka 30 til 40 mínútur.
Hækkaðu hitann á ofninum í 200 gráður og hitaðu bringuna þar til beikonið er orðið stökkt, eða þar til kjötmælirinn sýnir 65 gráður. Það ætti að taka 5 til 10 mínútur.
Færðu bringuna upp á fat og leyfðu henni að standa í 40 mínútur áður en hún er borin fram.
The post Safarík kalkúnabringa klædd í beikon appeared first on Fréttatíminn.