Olga Ensamble hefur aðsetur í Utrecht í Hollandi þar sem meðlimirnir kynntust í námi. Bjarni Guðmundsson, tenór í Olgu, segir að eftir útskrift í vor hafi verið nóg að gera í Olgu Ensamble. „Við erum allir búsettir í Utrecht og við kynntumst allir í námi í Konservatoríunni hér, þar sem við vorum í námi hjá Jóni Þorsteinsson, íslenskum kennara í Hollandi,“ segir Bjarni. „Við kláruðum allir þetta nám í vor og þetta er fyrsti veturinn okkar sem atvinnusöngvarar og við erum bara að einblína á Olgu. Það hefur gengið alveg rosalega vel og við höfum verið með um tíu tónleika í mánuði síðan í október. Svo það hefur bara verið mikið að gera hjá ykkur.
Hinir erlendu meðlimir sönghópsins ætla nú ekki að eyða jólunum á Íslandi, ekki í þetta skiptið,“ segir hann. „Þeir ætla að koma og dýfa tánum í íslenskan vetur og sjá svo til hvort þeir þori því að eyða jólunum hér á næsta ári kannski. Við ætlum að halda þrenna tónleika um helgina. Í Áskirkju á föstudag, á Ólafsfirði á laugardag og í Aðventukirkjunni á sunnudaginn,“ segir Bjarni. „Ólafsfjörður er orðinn nokkurskonar heimavöllur hópsins. Við höfum komið til landsins og haldið tónleika síðustu þrjú sumur og alltaf farið á Ólafsfjörð,“ segir hann. „Kennarinn okkar, hann Jón er frá bænum og okkur hefur alltaf verið tekið vel þar, og getum hreinlega ekki sleppt því.
Á dagskrá hópsins er mjög fjölbreytt úrval jólalaga,“ segir hann. „Það er mikið af sígildum bandarískum jólalögum, ásamt hefðbundnum íslenskum og svolítið bland í poka. Við erum með okkar útgáfu af Santa Baby sem er ekki oft sungið af karlmönnum. Við breyttum textanum aðeins svo það hentaði okkur og þetta var skemmtileg áskorun,“ segir hann. „Við erum að fara að taka upp nýja plötu í apríl. Ætlum að gera það með Didda fiðlu í Þýskalandi og í vetur ætlum við að undirbúa nýtt prógram fyrir sumartímabilið, þar sem við munum syngja í Hollandi, Frakklandi og Íslandi. Svo erum við bókaðir á þriggja vikna tónleikaferðalag um Bandaríkin í byrjun ársins 2017,“ segir hann. „Þetta gengur allavega mjög vel og það eina sem ég er að gera um þessar mundir. Þetta er erfitt hark en verður alltaf betra og betra,“ segir Bjarni Guðmundsson í Olgu Ensamble.
Allir tónleikar Olgu um helgina hefjast klukkan 20.
The post Gerðu karlaútgáfu af Santa Baby appeared first on Fréttatíminn.