„Þetta gengur mjög vel og þetta er allt að klárast,“ segir Kristófer Dignus kvikmyndaleikstjóri, sem um þessar mundir er að vinna hið vandasama verk að leikstýra Áramótaskaupi Ríkissjónvarpsins.
„Við erum að dútla í eftirvinnslu og slíku, og eigum eftir einn dag í tökum fyrir það sem vantar upp á. Ég gerði skaupið 2013 og lofaði konunni minni að gera það ekki aftur,“ segir hann. „Ég stóð við það, en svo kom nýtt ár og ég fann fyrir smá þrýstingi frá RÚV um að gera annað, svo ég sló til bara. Ferlið er mislangt eftir leikstjórum en ég lít á þetta sem ársverkefni. Í rauninni byrjar maður að pæla í þessu á nýársdag og er að pæla í þessu fram á gamlársdag,“ segir Kristófer. „Ef maður er búinn að ákveða það andlega að bjóða sig fram í þetta þá þarf maður að hafa þetta bak við eyrað allt árið.
Þetta er ekki endilega spurning um að liggja yfir fréttum og sökkva sér í pólitíkina eða slíkt, heldur að vera með angana úti og skynja hvernig þjóðfélagsandinn er. Það sem er gott við samfélagsmiðlana á netinu, er að maður fær góða heildarsýn á það sem er í gangi hverju sinni. Nú getur maður lesið sig í gegnum Facebook og Twitter og fengið stemninguna í þjóðfélaginu beint í æð, og eiginlega dag frá degi,“ segir hann. „Því við höfum skoðun á öllu, og við erum svo fá að allir, hver einn og einasti er á netinu, sem gerir það að verkum að það er auðvelt að lesa í samfélagið. Þetta hefur hjálpað mér og höfundunum að finna hvað hefur gengið á að undanförnu, og við munum reyna að endurspegla það í þessu skaupi,“ segir Kristófer.
„Það er í rauninni lygilegt hvað það er verið að gera gott skaup fyrir litla fjármuni. Þá er gott að finna fyrir því að öllum þykir vænt um skaupið og allir vilja vera með í því, svo það leggja allir mikið á sig til þess að láta þetta ganga upp. Leikarar vilja vera í skaupinu, allavega einu sinni.“
Hópurinn hlýðinn
Á árum áður tók áramótaskaupið nær eingöngu á pólitísku landslagi þjóðarinnar á ári hverju. Þetta hefur breyst á undanförnum áratug og segir Kristófer það vera vegna þess að það er svo margt annað skemmtilegra í gangi í þjóðfélaginu og pólitík sé oft ekkert fyndin.
„Ég held að sviðið sé miklu breiðara,“ segir hann. „Nú fer mikið fram á netinu og þau mál rata inn á kaffistofurnar líkt og pólitíkin gerði hér í eina tíð. Það er lítil pólitík í skaupinu í ár. Bæði vegna þess að okkur finnst íslenska þjóðin miklu skemmtilegri en það sem er að gerast inni á þingi, og líka var þetta frekar bragðdauft ár í pólitík,“ segir Kristófer. „Það voru ekki kosningar og eitthvað millibilsástand í gangi. Allir að bíða eftir því að geta kosið aftur og slíkt.
Ég ákvað upp á mitt eindæmi hverjir yrðu í handritsteyminu,“ segir hann. „Ég valdi það nánast eingöngu út frá því hverjum maður nennir að vinna og eyða tíma með. Það fer mikill tími í þessa vinnu og það er hræðilegt ef upp kemur sú staða að þurfa að slökkva elda á milli fólks. Einnig valdi ég fólk sem getur unnið vel saman og hópurinn var mjög þægilegur,“ segir Kristófer en með honum í handritsteymi skaupsins eru þau Steindi Jr., Guðjón Davíð Karlsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans. „Þetta er allt fólk sem ég þekki og hef unnið með áður,“ segir hann. „Ég veit að þau hlýða mér og er mjög fyndið og klárt. Þau hafa öll sína eiginleika og sína styrki sem sameinast vel í hóp. Sem gerir það að verkum að við fáum breiðara úrval af gríni.“
„Það sem ég gerði fyrir tveimur árum var að ég sleppti því að fara á samfélagsmiðlana í nokkra daga því ég vildi ekki sjá viðbrögðin. Sem ég hefði ekki átt að gera því viðbrögðin voru svo góð.“
Starfinu fylgir pressa
Það er mikil pressa á framleiðendum skaupsins því allir hafa skoðun á því, á mínútunni sem það klárast. Sumir sáttir og aðrir ósáttir og ræða það fram á nýja árið. Kristófer segist þó ekki hafa miklar áhyggjur af viðbrögðunum því þau eru alltaf á báða vegu.
„Ég er rólegri núna en þegar ég gerði það fyrst,“ segir hann. „Kannski er það vegna þess að mér finnst það betra en það sem ég gerði fyrir tveimur árum, ég veit það ekki. Ari Eldjárn sagði við mig fyrir tveimur árum. Hvað er það versta sem getur gerst? Ef maður hugsar um það, þá er ekkert sem getur gerst. Annað en það að einhverjir verða fúlir, en það stendur stutt yfir,“ segir Kristófer.
„Það sem ég gerði fyrir tveimur árum var að ég sleppti því að fara á samfélagsmiðlana í nokkra daga því ég vildi ekki sjá viðbrögðin. Sem ég hefði ekki átt að gera því viðbrögðin voru svo góð,“ segir hann og hlær. „Maður fer út í þetta ævintýri með það fyrir augum að maður getur aldrei gert öllum til geðs. Ef maður reynir það þá mun það mistakast. Maður fær fleiri til þess að hlæja ef maður er bara trúr sínu gríni og sinni sannfæringu. Ég tel mjög líklegt að einhver hópur, sem vill fá hárbeitt pólitískt skaup sem stingur á einhverjum kýlum, verði fyrir vonbrigðum,“ segir hann. „Þeir sem hafa gaman af hefðbundnum sketsum þar sem gert er grín að þjóðinni sjálfri verða sáttir.“
Sköpunargleðin fær að njóta sín
Martröð þeirra sem vinna að skaupinu er að eitthvað markvert gerist milli jóla og nýárs, sem ekki verður hægt að koma fyrir í skaupinu sjálfu. Kristófer segist þó hafa smá tíma upp á að hlaupa ef eitthvað óvænt gerist. „Það er erfitt ef það gerist. Sérstaklega þar sem fjármunir eru naumt skammtaðir í áramótaskaupið,“ segir hann. „Það er í rauninni lygilegt hvað það er verið að gera gott skaup fyrir litla fjármuni. Þá er gott að finna fyrir því að öllum þykir vænt um skaupið og allir vilja vera með í því, svo það leggja allir mikið á sig til þess að láta þetta ganga upp. Leikarar vilja vera í skaupinu, allavega einu sinni,“ segir hann. „Síðustu vikurnar er maður samt á nálum um að ekkert gerist í þjóðfélaginu. Helst má ekkert gerast sem ekki er hægt að leysa á einfaldan hátt.“
Kristófer hefur verið lengi í þessum bransa og unnið mikið fyrir sjónvarp. Hann leikstýrði hinum vinsælu þáttum um Fólkið í blokkinni og á þessu ári gerði hann sketsaþættina Drekasvæðið sem sýndir voru á RÚV. „Ég hef verið mikið í auglýsingum á þessu ári og svo eru leikin verkefni með hinum og þessum í þróun, sem lítið er hægt að segja meira frá á þessu stigi,“ segir hann. „Þau malla í kerfinu og verða vonandi að veruleika á næstu tveimur árum. Það sem er skemmtilegast að gera er að leikstýra leiknu efni, en maður verður að hafa þolinmæði sökum þess að það líður oft langur tími á milli og slíkt. Það er mjög gaman að fá tækifæri til þess að gera skaupið því maður getur leikið sér með mörg mismunandi form í einu,“ segir Kristófer. „Allar tegundir gríns, í bland við smá spennu og tónlistarmyndbönd. Maður fær mikið að leika sér, svo það er skemmtilegt að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín.“
Allir vilja gott skaup
Handritsskrifin að skaupinu gengu vel en þó voru sumir ekki alltaf sammála. „Hópurinn var mjög þægilegur og við tjáðum okkur mikið um allar hugmyndir frá byrjun,“ segir Kristófer. „Ég held að enginn hafi móðgast í ferlinu og á endanum voru allir sáttir. Auðvitað var fólk stundum ósammála um grín enda á það að vera þannig. Það var aðallega svekkelsi að geta ekki gert betur og meira vegna tímamarka eða slíkt. Það eru samt allir sáttir við lokaútgáfuna og það er spenna fyrir þessu. Við notum marga leikara eins og venjulega og í handritshópnum eru frábærir leikarar sem ég nota mikið,“ segir Kristófer.
„Þarna verða líka andlit sem fólk hefur séð áður í skaupinu og verða að vera. Það eru allir til í að leika í skaupinu. Skaupið er sameign okkar allra og það vilja allir að það sé gott. Meira að segja fólkið sem elskar það að rakka það niður. Innst inni þá langar það í gott skaup,“ segir Kristófer Dignus leikstjóri.
The post Skaupið er sameign okkar allra appeared first on Fréttatíminn.