Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hætti í lögfræði til að læra kvikmyndatónsmíðar

$
0
0
Herdís Stefánsdóttir lærir kvikmyndatónsmíðar við NYU háskólann og verður fyrsta íslenska konan til að útskrifast með meistaragráðu í faginu. Hún gaf laganám upp á bátinn til að helga sig tónlistinni og gefur út plötu með hljómsveit sinni síðar á árinu.

„Ég elska þetta. Þetta er án gríns það skemmtilegasta sem ég hef gert,“ segir Herdís Stefánsdóttir um meistaranám sitt í kvikmyndatónsmíðum við Steinhardt-deildina í NYU. Herdís hefur lokið fyrra árinu í tveggja ára námi. Ef að líkum lætur verður hún fyrsta íslenska konan sem útskrifast með meistarapróf í kvikmyndatónsmíðum.

Hvernig atvikaðist það að þú fórst að læra kvikmyndatónsmíðar?
„Það gerðist bara smátt og smátt. Ég var í klassískum tónsmíðum í Listaháskólanum en sóttist mikið eftir því að vinna með öðrum, dönsurum og leikurum. Ég hef alltaf elskað kvikmyndir og byrjaði reyndar frekar ung að hlusta á sándtrökk frekar en popptónlist. En ég hafði aldrei hugsað mér að það væri hægt að verða kvikmyndatónskáld,“ segir Herdís sem skráði sig í lögfræði eftir að hafa klárað MR. Hún fann sig ekki í lögfræðinni.

„Nei, lögfræðin var ekki minn tebolli í lífinu. Ég var í lagadeildinni í tvö ár en seinna árið var ég bara að gera músík á fullu og sótti um í LHÍ og komst inn. Ég var samt búin með tvo þriðju af BA-gráðunni þegar fór út í annars konar lög.“

Herdís er 27 ára, alin upp í Vesturbænum og bjó um skeið í Svíþjóð sem barn. Hún fór eins og áður segir í MR, þá í lögfræði áður en hún helgaði sig tónlistinni. Eftir að hafa klárað LHÍ fór hún til Berlínar. „Ég var í eitt ár að vinna fyrir Egil Sæbjörnsson og svo var ég búin að vera að taka að mér lítil verkefni áður ég komst inn í þetta nám í NYU,“ segir hún og það lifnar yfir henni þegar hún lýsir náminu.

„Þetta er frábært. Að vakna klukkan níu á mánudegi og fara að semja tónlist við senu úr Avatar er magnað. Þetta er mjög krefjandi nám og ótrúlega flottir kennarar.“

Herdís kveðst ekki vita hvað taki við að námi loknu en hún býst þó við því að reyna fyrir sér úti. „Það stefnir allt í það, ég er þegar byrjuð að fá nokkur verkefni. Ég býst við að verða annað hvort í New York eða jafnvel L.A., það hafa margir í deildinni minni farið í starfsnám þangað. Ég held alla vega að ég komi ekki heim strax, nema einhver vilji ráða mig í vinnu – þá skoða ég það.“

Þessa dagana er það þó hljómsveitin East of my Youth sem á allan hug Herdísar. Hljómsveitina stofnaði hún með Thelmu Marín Jónsdóttur leikkonu í fyrra. „Við bjuggum saman í Berlín og vorum eitthvað að glamra og leika okkur. Svo fluttum við báðar heim í janúar, ósáttar og illa búnar fyrir lífið og héldum áfram að leika okkur uppi í Listaháskóla. Þá fór þetta að breytast meira í elektróníska tónlist og fyrsta lagið, Lemonstars, varð til,“ segir hún.

Eftir að hljómsveitin var bókuð á Iceland Airwaves var komin pressa á að semja fleiri lög og Telma heimsótti Herdísi til New York. „Við fengum svo Guðna Einarsson til liðs við okkur og náðum að gera frekar þétt sett á fimm dögum sem ég hafði aflögu í kringum hátíðina. Eftir það urðum við bara hin heilaga þrenning og höfum verið að vinna að tónlist í fjarsambandi í tíu mánuði. Ég í New York, Thelma á Akureyri og Guðni í Reykjavík.“

Frá því að Herdís kom til landsins í maí hafa þau þrjú unnið stíft að upptökum á plötu sem þau fjármagna í gegnum Karolinafund. Söfnuninni lýkur einmitt í dag og síðdegis í gær höfðu safnast ríflega fjögur þúsund evrur af þeim fimm þúsund sem stefnt er að.

„Okkur finnst við fyrst núna vera að byrja sem band. Í sumar förum við í tveggja vikna ferð til Berlínar til að spila á tónleikum og við verðum svo að spila í Iðnó á menningarnótt,“ segir Herdís.

 

The post Hætti í lögfræði til að læra kvikmyndatónsmíðar appeared first on FRÉTTATÍMINN.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652