„Ísland var alveg frábært. Við komum hingað í þrennum tilgangi, til að brugga með Borg, til að kynna bjórana okkar á Skúla og halda jólapartí fyrir starfsfólkið okkar. Allir sem við hittum, bæði hjá Borg og á Skúla reyndust frábærir,“ segir Jens Eikeset, framkvæmdastjóri norska örbrugghússins 7 Fjell.
Jens og félagar hans voru hér á landi á dögunum við leik og störf. Bjóráhugafólk gat kynnt sér bjóra þeirra á barnum Skúla og á næstu mánuðum lítur dagsins ljós afrakstur samstarfs þeirra og Borg brugghúss. Sá bjór á að heita Smugan með vísan í veiðisvæði í Barentshafi þar sem Íslendingar og Norðmenn bitust um veiðirétt á árum áður.
Samkvæmt upplýsingum frá Borg brugghúsi verður bjórinn „einhvers staðar á bilinu milli Wheat Wine og Eastcoast Double Wheat IPA“ en áætlað er að hann verði c.a. 9-10% í áfengisstyrk. Hann er bruggaður með talsverðu magni af hveiti en í hann fóru einnig bragðsterk Kaffir-lime lauf, norsk einiber, mosaic og citra humlar, auk handfylli af harðfiski.
Hvað geturðu sagt mér um samstarf ykkar með strákunum í Borg?
„Þeir eru alveg frábærir. Þeir vita sínu viti og eru að gera margt spennandi. Ég er sérstaklega spenntur fyrir tilraunum þeirra við að brugga mjöð og tunnuþroskun. Bjórinn sem við gerðum saman er Wheat Wine, sem er afbrigði af Barley Wine sem margir þekkja, en með ýmsum áhugaverðum tvistum. Við settum smá norskan harðfisk út í, þorsk sem var veiddur og þurrkaður af brjáluðum veiðimönnum í Norður-Noregi. Svo notuðum við norsk einiber og Kaffir lime lauf. Þetta verður frábær bjór! Ég vona að við fáum bretti af honum sent út til Noregs en ég óttast að hann muni seljast fljótt upp,“ segir Jens. Hann segir jafnframt að stefnt sé að því að bruggararnir í Borg endurgjaldi heimsóknina og bruggi með 7 Fjell í Bergen í febrúar eða mars á næsta ári.
Hvað var eftirminnilegast við ferðina?
„Æ, þetta er kannski klisja en við fórum í Bláa lónið á laugardeginum, svona hæfilega þunnir og það var ótrúlegt! Kaldur bjórinn og heita vatnið gerði kraftaverk. Það var reyndar alger synd að það sé ekki seldur handverksbjór á stærsta ferðamannastað Íslands. Það er eitthvað svo 1999.“
Hvernig leist þér á bjórmenninguna á Íslandi?
„Hún er mjög áhugaverð. Handverksbjórmenningin virðist hafa þróast öðruvísi en í Noregi. Hjá okkur byrjaði þetta á tveimur gaurum í bílskúr og það tók stóru brugghúsin 12 ár að hoppa á vagninn. En á Íslandi eru stærstu handverksbrugghúsin hluti af stærri brugghúsum. Við smökkuðum marga af bjórunum hjá Borg og vorum allir mjög hrifnir af. Þeir gera mjög góða bjóra. Við heimsóttum þrjá bjórbari, Skúla, Micro Bar og Mikkeller. Þeir voru allir frábærir. Á Micro Bar sá maður handverksbjóra-senuna sem ungan og spennandi markað. Þar voru margir áhugaverðir bjórar gerðir af ungum og upprennandi brugghúsum.“
Bruggað í Borg
Þegar Fréttatíminn heimsótti norsku bruggarana í Borg fengu þeir að gæða sér á ýmsum forvitnilegum bjórum, á meðan á þeirra eigin framleiðslu stóð. Þeir fengu meðal annars að smakka tunnuþroskaða Surti og nýfilteraðan Úlf úr brugghúsinu. Þá var í boði Yuzu tilraunalögun og bláberjabjór sem Borgar-menn gerðu með Arizona Wilderness og er í vinnslu. Að auki var hægt að sjá tilraunir með tunnuþroskun, svo sem Surt nr. 30 sem þroskaður er í brennivínstunnu og mun væntanlega líta dagsins ljós á þorra.
The post Smugubjór á markað á nýju ári appeared first on Fréttatíminn.