Ég er Star Wars lúði. Viðurkenni það fúslega. Þó ekki svona lúði sem veit allt um allt í myndunum, svona hvað hin og þessi vélmenni heita eða raðnúmer á geimflaugum. Er meira svona tilfinningalegur Störnustríðslúði. Langar til dæmis óstjórnlega mikið í alvöru geislasverð.
Ímyndið ykkur til dæmis að sneiða með því brauð og fá það „instant“ ristað. Já og að geta sótt sjónvarpsfjarstýringuna með mættinum. Ég væri líka til í það. En nú er ég kominn út fyrir efnið sem er auðvitað Star Wars The Force Awakens. Hún var einmitt frumsýnd í síðustu viku – eins og það hafi farið fram hjá nokkrum manni. Allavega! Eftir að hafa leitt internetið hjá mér í tvo daga til að forðast „spoilera“, sat ég með fiðring í maganum, opinmynntur og spenntur. Svo byrjuðu herlegheitin og ég held að ég hafi varla lokað munninum allan tímann ekki einu sinni til að tyggja poppið. Þetta var rosalegt. Besta bíóupplifun mín í mörg ár. Sennilega bara frá því að ég sá Return of The Jedi í Nýja bíói þarna áttatíu og eitthvað lítið og örlög mín sem aðdáenda voru innsigluð.

En fölskvalaus gleðin var ekkert auðvitað ekkert örugg. Ekki eftir meðferð George Lucas á þessu sköpunarverki sínu. Með þessum þremur hræðilegu barnamyndum þarna um árið. En honum hefur sem betur fer verið sparkað og hann J.J. okkar í félagi við hann Lawrence gamla Kasdan reisir hér bálkinn upp úr öskustónni. Því myndin er ógeðslega flott frá byrjun til enda. Hröð og meira að segja nokkuð ofbeldisfull. Fer þó aldrei yfir neitt strik. Rígheldur bara allan tímann og fyrir lúða eins og mig var myndin fullkomin blanda af nostalgíu og bjartsýni um framhaldið. Hellingur af skemmtilegum vísunum í gömlu myndirnar og nóg að hlakka til næstu árin.
Án þess að fara nákvæmlega í söguþráðinn og hetjurnar, svona til að forðast að eyðileggja fyrir þeim sem eru að spara myndina til jóla, var auðvitað gaman að sjá allt gamla settið á sínum stað. Með Harrison Ford fremstan í flokki – og það besta var að hann virtist bara langa að vera þarna. Ólíkt síðustu skrefum fyrri þríleiksins þar sem hann virðist engjast um við flutning sumra línanna sinna. En sem betur fer og þrátt fyrir góða takta þeirra gömlu eru það þó nýju hetjurnar sem voru lang mest spennandi. Kylo Ren er flottur með þetta furðulega geislasverð sitt. Breyskur og alveg einstaklega reiður ungur maður sem var alveg frábært. Það var hins vegar hin unga Daisy Ridley sem gjörsamlega stal senunni sem hin kraftmikla Ray. Þar er komin hetja nýja bálksins og tímanna tákn að það skuli vera kvenhetja. Ljómandi alveg.
Auðvitað voru smá plottholur hér og þar, eins og gengur. Fýlupokar gætu svo haldið því fram að með öllum þessum vísunum í gömlu lummurnar hafi of mikið verið gert til þess að lúðar eins og ég færum glaðir heim. En það bætir bara upplifunina fyrir innvígða og þeir sem ekki hafa pælt mikið í fræðunum fatta nákvæmlega ekkert. Svo það skiptir ekki máli.
Það eina sem ég veit er að mér fannst myndin stórkostleg og ég ætla aftur. Prófa jafn hana vel í þrívídd – þótt það sé auðvitað guðlast.
The post Tilfinningaríkur dagur fyrir Stjörnustríðslúða appeared first on Fréttatíminn.