Shaman Durek er seiðkarl (e. Shaman) sem er staddur hér á landi með það fyrir augum að hjálpa Íslendingum í átt að betra lífi. Hann kom hingað fyrst í febrúar og átti þá meðal annars fund með Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta, sem hafði heyrt af honum úr nokkrum áttum, en Shaman Durek hefur getið sér nafn í heimalandi sínu og víðar fyrir að hjálpa fólki. Hann er af margbrotnu þjóðerni, alinn upp í Bandaríkjum en móðir hans er hálf norsk og hálf austur-indversk, pabbi hans er ættaður frá Afríku og Haítí. Amma hans var seiðkona í Bandaríkjunum sem fékk vitranir löngu fyrir fæðingu Dureks sem sögðu henni að hann yrði seiðkarl.
„Ég byrjaði ekki þjálfun mína fyrr en ég var orðinn 12 ára,“ segir Durek. „Pabbi og mamma vildu að ég næði nægilegum þroska til að gera mér grein fyrir því hvað ákvörðunin um að gerast seiðkarl myndi hafa í för með sér,“ segir Durek. Hann segist alltaf hafa verið sérstakt barn. „Ég fékk vitranir og sá sýnir allt frá frumbernsku og var skrýtni strákurinn í skólanum,“ segir hann. „Ég hef helgað líf mitt fólki og þróun okkar tegundar. Ég hef viðað að mér þekkingu frá mörgum ólíkum menningarheimum, trúarbrögðum og heimspeki og hlotið þjálfun í heildrænum lækningum hjá mögnuðum læknum,“ segir Durek.
Þeir sem þekkja til seiðkarla tengja þá ósjálfrátt við frumskóga og náttúru. Shaman Durek segir að þannig séu flestir seiðkarlar í sínu náttúrulega umhverfi. „Mér finnst hins vegar stóra áskorunin felast í því að fara inn í borgir í ýmsum löndum víða um heim og hjálpa fólki þar. Jafnvel fólki sem hefur efasemdir. Það er stórkostlegt að sýna þeim hvað getur gerst,“ segir hann.
Hjálpar konum að styrkja systralagið
Aðaláhersla hans um þessar mundir er að hjálpa konum að styrkja systralagið. „Það hefur verið frábær reynsla að koma hingað til Íslands. Hér er mikið verk fyrir höndum. Mig langar að styrkja bönd sem eru milli kvenna og gera þeim ljóst hversu mikilvægt það er fyrir þær að efla systralagið og styrkja að ný þau tengsl sem eru milli kvenna,“ segir hann. Durek ætlar jafnframt að færa fólki hér verkfæri til þess að öðlast betri líðan, ekki síst til að vinna gegn þunglyndi sem eykst verulega í því mikla skammdegi sem hér ríkir á veturna.
„Ég legg mikla áherslu á að konur fylli á tankinn sinn – mér sýnist að það sé stórt vandamál hér hve margar konur huga ekki að því. Ég get ekki lýst því hvað ég sé margar konur á götu úti algjörlega úrvinda. Þær setja upp gervibros og gerviútlit en þegar ég sest niður með þeim sé ég að þær eru algjörlega uppgefnar, ekki fullnægðar, ekki ánægðar með sig eða líkama sinn. Það er vegna þess að þær passa ekki að hafa tankinn sinn fullan. Þær treysta á aðra um að veita sér hamingju. Ég legg áherslu á að konur verða að sjá um það sjálfar að fylla á tankinn. Þær eiga að veita sér það sem þær þurfa svo hann verði fullur og allt það sem yfir flæðir verði til að gefa öðrum. Þær eigi ekki endalaust að gefa af sér og ganga á eigin tank. Þær eiga að gefa af sér af því sem er umfram,“ segir Durek, sem er einmitt er með sérstakt námskeið í næstu viku sem heitir „Fill your vessel“ þar sem hann kennir konum að forgangsraða með þessum hætti.
Þakklátur fyrir hæfileikana
Þrátt fyrir að hafa þjáðst vegna hæfileika sinna í æsku er hann þakklátur fyrir þá. „Ég hef þjálfað þessa hæfileika og lært að nýta þá og fengið tækifæri til að vinna með stórkostlegu fólki um allan heim,“ segir Durek. Hann segir Íslendinga mjög skapandi og hæfileikaríkt fólk upp til hópa. „Það eru svo margar bjartar sólir hér en gjörðir þeirra og orð vinna gegn ljósinu,“ segir hann. „Ég heyri fólk segja: „Ég er að búa mig undir mistök,“ en ég vil að það segi: „Ég er að búa mig undir velgengni.““ Hann segir að það skipti höfuðmáli að hafa hugann í lagi – að hugsunin sé á réttri braut. „Hugsunin skiptir öllu máli. Ef þú ert í erfiðri aðstöðu sem veldur þér vanlíðan getur rétt hugsun gert hana frábæra,“ segir hann.
Ekki heilari – heldur þjónn
„Ég hef hjálpað mörgum til betra lífs. Ég er hins vegar ekki heilari, ég er þjónn. Ég er hér til að veita ykkur upplýsingar sem þið hafið ef til vill ekki en geta í raun gert líf ykkar mun betra. Þið eruð sjálf heilararnir. Hið eina sem ég geri er að gera fólki auðveldara að taka þær ákvarðanir sem það þarf að taka. Ég er ekki aðeins á andlegu nótunum, sem fyrir mér þýðir að elska skaparann, sjálf ykkur og náttúruna, seiðkarlar eru brýr, við erum sendiherrar hjartans, við erum tengsl þín við náttúruna, við sjálfan þig, fjölskylduna, vini þína, plánetuna. Það sem við gerum er að styrkja þessi tengsl þannig að fólk geti átt eigið samband við hið guðdómlega í öllu þessu. Það er ekki á mínu valdi að heila neinn. Allt sem ég geri er að sýna fólki að það sé að gera sér lífið erfiðara en það þarf að vera. Hið andlega er svo mikið um heilbrigða skynsemi og heiðarleika, að vera sannur í því sem þú ert. Mér finnst skorta nokkuð upp á heiðarleika hjá fólki hér. Það er allt of mikið um illt umtal og neikvæðni sem eyðileggur. Það er skapandi kjarni innra með öllu fólki sem jafnframt krefst þess að fólk sé heiðarlegt gagnvart sjálfu sér. Ef það gerir það ekki upplifir það sársauka. Flest vandamál í lífinu stafa af því að fólk er ekki heiðarlegt við sjálft sig,“ segir seiðkarlinn Durek.
The post Seiðkarl sem styrkir íslenskt systralag appeared first on FRÉTTATÍMINN.