Borgaryfirvöld í Reykjavík hafa unnið að því ljóst og leynt um alllanga hríð að losna við Reykjavíkurflugvöll. Þegar er byrjað að þrengja að honum með byggingarframkvæmdum. Vilji Reykjavíkurborg koma flugvellinum burt er erfitt að standa gegn því, hvað sem líður hugmyndum á þingi um að taka skipulagsvaldið af borginni í þessum efnum. Borgaryfirvöld vilja nýta það landsvæði sem fer undir flugvöllinn í annað og hafa fært fyrir því rök, þótt einhugur ríki ekki um málið í borgarstjórninni. Svæðið er vissulega dýrmætt, svo nærri miðborginni. Ýmsir eru ósammála þessum fyrirætlunum, einkum þeir sem á landsbyggðinni búa og eiga erindi með flugi til höfuðborgarinnar, auk þeirra sem líta til hagsmuna þeirra sem treysta verða á sjúkraflug til Reykjavíkur og skjótan akstur frá flugvelli á sjúkrahús. Þá eru skoðanir borgarbúa og íbúa á höfuðborgarsvæðinu vitaskuld skiptar í afstöðu til staðsetningar vallarins.
Svokölluð Rögnunefnd, sem í sátu Ragna Árnadóttir formaður, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Matthías Sveinbjörnsson og Dagur B. Eggertsson, skilaði í liðinni viku áliti sínu um framtíðarflugvallarstæði á höfuðborgarsvæðinu þar sem sjónir beindust að fjórum nýjum flugvallarsvæðum, auk breyttrar legu flugbrauta í Vatnsmýri, Bessastaðanesi, Hólmsheiði, Hvassahrauni og Lönguskerjum. Niðurstaða hópsins var að Hvassahraun, sem er á mörkum sveitarfélaganna Hafnarfjarðar og Voga, kæmi best út þegar horft væri til möguleika flugvallarstæða til að taka við flugumferð eða starfsemi umfram það sem nú er í Vatnsmýri, auk þess sem Hvassahraun kæmi vel út í samanburði við aðra flugvallarkosti þegar litið væri til þátta eins og veðurfars, rýmis og hindrana, kostnaðar og umhverfismála.
Vandinn við annars ágætt starf Rögnunefndarinnar er hins vegar sá að hún lagði ekki mat á þann kost sem augljósastur er, verði Reykjavíkurflugvöllur lagður af, að flytja innanlandsflugið til Keflavíkurflugvallar þar sem er stærsti og langbest búni flugvöllur landsins. Að ætla sér að fara þann milliveg í þessum langvarandi flugvallarvandræðagangi að koma upp nýjum flugvelli í landi Voga á Vatnsleysuströnd er langsóttur kostur. Flugvöllur á því svæði er kominn svo nærri Keflavíkurflugvelli að hreint óráð virðist vera að ætla sér í tugmilljarðaframkvæmdir þar en Rögnunefndin áætlar að stofnkostnaður flugvallar og bygginga sem tækju við allri starfsemi Reykjavíkurflugvallar næmi um 22 milljörðum króna. Reynsla af stórframkvæmdum hér á landi segir okkur auk þess að kostnaður fer yfirleitt talsvert fram úr áætlunum.
Fari flugvöllurinn úr Vatnsmýrinni innan einhvers gefins árafjölda, eins og allar líkur eru á, er einboðið að innanlandsflugið flytjist til Keflavíkurflugvallar. Því fylgja ókostir, um það þarf ekki að deila. Það er hagur þeirra sem heimsækja Reykjavík af landsbyggðinni að geta lent í miðri borg í stað þess að þurfa að ferðast til eða frá Keflavíkurflugvelli. Sama gildir um sjúkraflugið. Það liggur hins vegar fyrir að með bættum vegasamgöngum hafa styttri flugleiðir, sem áður voru í notkun, verið lagðar af. Með betra vegakerfi og aukinni vegaþjónustu styttist enn sá tími sem fer í akstur á langleiðum. Ef menn ætla á annað borð að leggja Reykjavíkurflugvöll af virðist því vera skynsamlegri kostur að setja aukið fé í bættar vegasamgöngur en grafa fyrir nýjum flugvelli, nánast við hliðina á Keflavíkurflugvelli. Þetta á við um hringveginn, ekki síst leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar, en sérstaka áherslu verður að leggja á leiðina á milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Hluti þeirrar leiðar hefur verið tvöfaldaður en það verk verður að klára að fullu svo örugg og óhindruð hraðbraut sé alla leið frá flugvellinum til Reykjavíkurborgar. Slík braut myndi stytta þann tíma verulega sem tæki að fara á milli – og auðvelda og stytta tíma bíla í neyðarakstri, meðal annars vegna sjúkraflugs. Uppi hafa verið hugmyndir um lestarsamgöngur á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur en hvort þær eru raunhæfar með tilliti til kostnaðar og annars skal ósagt látið.
The post Vatnsmýri eða Keflavíkurflugvöllur appeared first on FRÉTTATÍMINN.