Þær Erla Björnsdóttir og Þóra Hrund Guðbrandsdóttir hafa undanfarin ár gefið út Jóladagatal fjölskyldunnar, en upphaflega átti dagbókin að verða þeirra fyrsta verkefni. „Það er tímafrekt að gera svona dagbók svo dagatalið var ágætis byrjun á meðan við vorum að þróa dagbókina. Þessa dagbók er auðvitað hægt að nota sem hefðbundna dagbók, en hún er sett upp og gerð vísindalega má segja. Hún er þannig sett upp að hún eykur líkur fólks á að ná hámarks árangri,“ segir hún. „Við erum að efla framkvæmdahug og hvetja fólk til þess að ná settum markmiðum. Það er margsannað að jákvæð hugsun og þakklæti og það að ná markmiðum sínum eykur hamingju, og bókin er sett upp með það í huga,“ segir Þóra. „Í hverri viku fær fólk hvatningarorð og heilræði, og svo mælum við með því að fólk skrifi hjá sér í hverri viku hvað það er þakklátt fyrir hverju sinni. Það þarf ekki að vera neitt djúpt. Það eru litlu hlutirnir sem skipta máli.“
Þóra segir að þrátt fyrir að margir hafi fært allt sitt dagbókarskipulag í tölvur og smáforrit sé alltaf stór hópur sem heldur í þá iðju að halda dagbók. Hún segist sjálf ekki komast í gegnum vikuna nema með því að nota dagbók. „Við Erla erum báðar með ákveðið dagbókarblæti,“ segir hún. „Við erum báðar að vísu mjög uppteknar og þurfum að hafa skipulag á hlutunum, svo er ég með mjög mikinn athyglisbrest og ég þarf að hafa mikið skipulag. Ef ég skrifa ekki niður það sem ég þarf að gera þá er þetta bara einn grautur í höfðinu á mér. Fyrir mig virkar ekki að hafa dagbókina í tölvunni,“ segir hún. „Við það að skrifa hlutina niður þá man ég þá frekar, og það er þannig með marga aðra. Það eru rosalega margir sem hafa sett sig í samband við okkur og nota dagbókina. Fleiri konur en karlar þó,“ segir Þóra. „Það er líka hægt að nota hana sem matardagbók og þakklætisdagbók, svo þetta er svolítið „allt í einni“ bók.“
Þann 7. janúar ætla þær Þóra og Erla að halda kynningarfund á dagbókinni og fara yfir ýmsa þætti sem gera fólki kleift að hámarka líkur á árangri og aukinni hamingju á komandi ári. „Við pælum mikið í þessum hlutum,“ segir Þóra. „Erla er doktor í sálfræði og hún heldur fyrirlestra um allan heim og dagbók hjálpar fólki að komast í gegnum kvíða og líka þeim sem eiga erfitt með að koma hlutum í verk. Þetta er ekki bara fyrir fólk sem hefur mikið að gera. Við ætlum að fjalla um það sem dagbók snýst um,“ segir hún.
„Á næsta ári eru margar hugmyndir uppi á borðinu hjá okkur sem við erum að vinna að. Meðal annars ætlum við að markaðssetja dagbókina á erlendum markaði og hún fer í sölu á Amazon og slíkum vefjum, svo það verður spennandi að fylgja því úr hlaði. Önnur verkefni eru á teikniborðinu, og þau koma í ljós fyrr en síðar,“ segir Þóra Hrund Guðbrandsdóttir hjá Munum.
Kynningarfundur Munum á dagbókinni verður fimmtudaginn 7. janúar og verður staðsetningin tilkynnt í byrjun næstu viku. Hægt er að fylgjast með á Facebooksíðunni Dagbókin mín.
The post Dagbókin lifir góðu lífi appeared first on Fréttatíminn.