Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all 7652 articles
Browse latest View live

Umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu

$
0
0

Umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu

Sunnudaginn 14. október kl. 9.48 féll hjólreiðamaður af hjóli sínu á gangstétt í Furugrund gegnt húsi nr. 76. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 15. október. Kl. 12.36 varð árekstur með bifreið, sem var ekið austur Bústaðaveg og beygt áleiðis norður Reykjanesbraut, og bifreið, sem var ekið suður Reykjanesbraut. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.04 varð gangandi vegfarandi, á gangbraut í Ánanaustum gegnt Olís, fyrir bifreið, sem var ekið austur götuna. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 17. október. Kl. 0.02 var bifreið ekið austur Sæbraut og á vegrið gegnt Holtagörðum . Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.36 varð gangandi vegfarandi fyrir bifreið á Digranesvegi gegnt Kópavogsskóla. Hann var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 18. október kl. 16.49 varð þriggja bifreiða aftanákeyrsla á Reykjanesbraut til norðurs skammt sunnan Bústaðavegar. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.

Frá vettvangi við Sæbraut.


Frost um allt land –Él um landið norðaustanvert og snjókoma fyrir vestan

$
0
0

Vestur af Írlandi er nærri kyrrstæð og víðáttumikil 1045 mb hæð. Um 250 km suður af Svalbarða er 965 mb lægð sem hreyfist lítið, en grynnist smám saman. Á Grænlandssundi er 996 mb smálægð sem þokast austur

Veðurhorfur á landinu
Vestlæg átt 5-13 m/s, hvassast syðst. Úrkomulítið víðast hvar og lægir þegar líður á kvöldið og léttir til um landið norðan- og austanvert í nótt. Fremur hæg breytileg átt á morgun og lengst af þurrt og bjart, en súld með köflum sunnantil á landinu. Gengur í suðaustan 8-15 með rigningu eða slyddu um landið sunnan- og vestanvert seint á morgun, fyrst sunnanlands. Hiti 1 til 8 stig í dag, hlýjast syðst, en svalara á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Suðvestan 10-18 m/s og rigning eða slydda, en norðaustlægari og slydda eða snjókoma á Vestfjörðum. Snýst í norðan 8-13 um kvöldið með éljum, en styttir að mestu upp fyrir sunnan. Kólnandi veður, hiti um og yfir frostmarki um kvöldið.

Á fimmtudag:
Norðlæg átt 8-13 m/s og él, einkum norðantil á landinu. Hiti kringum frostmark.

Á föstudag:
Norðan 10-15 m/s austantil á landinu, en mun hægari vestast. Léttskýjað sunnan- og vestanlands, en él um landið norðaustanvert. Frost 0 til 7 stig.

Á laugardag:
Fremur hæg breytileg átt og víða bjart veður, en skýjað og þurrt að mestu norðaustantil. Snýst í vaxandi sunnanátt og þykknar upp vestantil á landinu um kvöldið. Áfram kalt í veðri.

Á sunnudag:
Útlit fyrir stífa suðaustanátt með rigningu eða slyddu og hlýnar.
Spá gerð: 22.10.2018 08:05. Gildir til: 29.10.2018 12:00.

Það er kúnst að svívirða saklausan mann

$
0
0

Elliði Vignisson fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, sakar núverandi stjórnendur Vestmannaeyjabæjar og fylgismanna þeirra um árásir á Lúðvík Bergvinsson, þetta kemur fram á vef Eyjafrétta

,,Eftir að niðurstaða kosninga lá fyrir í vor og myndaður var meirihluti án aðkomu míns flokks tók ég ákvörðun um að draga mig alveg í hlé frá umfjöllun um málefni Vestmannaeyjabæjar. Ég ákvað að gefa nýjum stjórnendum svigrúm til að taka við keflinu. Ég ákvað að verjast ekki árásum á mig persónulega né á störf mín heldur láta slíkt yfir mig ganga. Nú er þó því miður komin upp sú staða að ég get ekki setið hjá. Það er verið að svívirða saklausan mann.

Ósanngjarnar árásir á pólitískan andstæðing minn

Árásir núverandi stjórnenda Vestmannaeyjabæjar og fylgismanna þeirra á Lúðvík Bergvinsson eru í mínum huga fordæmalausar. Að birta valda reikninga úr bókhaldi hlutafélags og bæjarfélagsins með aðdróttunum um spillingu, gefa í skyn að brot hafi verið framið án beinna ásakana, brigsla, vefengja og rægja. Það er ljótur leikur og ég væri ekki sá maður sem ég vil vera ef ég stigi ekki fram honum til varnar, jafnvel þótt seint verðum við Lúðvík taldir samherjar í pólitík. Um stund meira að segja svarnir andstæðingar.

Einhugur um yfirtöku á rekstri Herjólfs
Ég ætla ekki að rekja hér þá forsögu sem var að stofnun Herjólfs hf. Hún er Eyjamönnum vel kunn. Eins og allir þekkja er yfirtakan á rekstri Vestmannaeyjaferju forsenda þess að Vestmannaeyingar geti tekið við og ráðið yfir lífæð sinni sem eru samgöngur á sjó milli lands og Eyja. Um þetta ríkti einhugur í seinustu bæjarstjórn og um þetta sameinuðust Eyjamenn á fjölmennum borgarafundi.

Gæfa að fá Lúðvík að starfinu
Það var gæfa Vestmannaeyjabæjar að strax í upphafi skyldum við fá meðal annarra gamlan pólitískan andstæðing minn til að koma að þessari vinnu. Þó ég hafi aldrei trúað því að ég ætti eftir að segja það, miðað við það sem á undan er gengið í okkar samskiptum, þá var innkoma Lúðvíks Bergvinssonar og þekking hans meðal þess sem skipti sköpum að samningar við ríkið tókust.

Orð okkar Stefáns
Mig grunar að það hafi ekki síst verið fyrir orð mín og Stefáns vinar mín Jónassonar að Lúðvík lét til leiðast að taka þessa vinnu að sér. Í ljósi þessara staðreynda hefur verið óbærilegt fyrir mig að sjá og lesa þau ljótu skrif sem birt hafa verið vegna starfa hans fyrir bæjarfélagið.

Illa vegið að manni sem unnið hefur að heilindum
Gerð hefur verið tilraun til að gera vinnu Lúðvíks og Bonafide í samningaviðræðum við ríkið fyrir bæinn ótrúverðuga, og jafnvel reynt að tengja hana við spillingu. Þannig hefur verið veist að manni sem unnið hefur af heilindum fyrir sínar heimaslóðir. Manni sem mikið hefur lagt á sig fyrir verkefnið og hvergi hlotið þær þakkir sem hann á skilið. Manni sem varið hefur hundruðum klukkustunda í vinnu fyrir samfélagið sitt, lánað aðstöðu og margt fl.

Hver er tilgangurinn?
Mér -eins og vonandi flestum- er ljóst að tilgangurinn með þessari framkomu í garð Lúðvíks er ekki að valda honum skaða. Skaðinn sem sannarlega hefur verið unnin er fórnarkostnaður sem gerendur telja réttlætanlegt. Vegið er meðvitað að mannorði hans með annað að leiðarljósi. Tilgangurinn er sá einn að skaða það verkefni sem Lúðvík leiðir nú um stundir sem er að taka yfir rekstur Herjólfs með hagsmuni okkar allra að leiðarljósi. Enginn önnur skýring er tæk. Hverra hagsmuna er þar gætt?

Gangið hreint til verks
Með orðum þessum vil ég skora á þá sem að stjórnmálastarfi í Vestmannaeyjum koma að staldra við og endurskoða þær aðferðir sem beitt er. Að leggjast ekki svo lágt að ráðast á manninn heldur ræða málefnin. Að ganga hreint til verka og veita málefnum forystu -eða jafnvel að hætta þeim- frekar en að skaða framgang þeirra með árásum á grandvart fólk sem ekkert vill með störfum sínum annað en vinna samfélagi okkar gott.
Mannorð eru hluti af mannhelgi. Að ráðast gegn því er aldrei réttlætanlegt. Hálfkveðnar vísur, rógburður og útúrsnúningur er ekki boðlegur fólki sem kosið hefur verið til ábyrgðastarfa. Það er kúnst að svívirða saklausan mann. Kúnst sem sumir kunna of vel. ” Segir  Elliði Vignisson f.v. bæjarstjóri í Vestmannaeyjum á vef Eyjafrétta

Ef ætlarðu að svívirða saklausan mann,
þá segðu aldrei ákveðnar skammir um hann,
en láttu það svona í veðrinu vaka,
þú vitir, að hann hafi unnið til saka.

En biðji þig einhver að sanna þá sök,
þá segðu að til séu nægileg rök,
en náungans bresti þú helst viljir hylja,
það hljóti hver sannkristinn maður að skilja,

og gakktu nú svona frá manni til manns,
uns mannorð er drepið og virðingin hans,
og hann er í lyginnar helgreipar seldur,
og hrakinn og vinlaus í ógæfu felldur,

en þegar svo allir hann elta og smá,
með ánægju getur þú dregið þig frá,
og láttu þá helst eins og verja hann viljir,
þótt vitir hans bresti og sökina skiljir.

Og segðu hann brotlegur sannlega er
en syndugir aumingja menn erum vér,
því umburðarlyndið við seka oss sæmir,
en sekt þessa vesalings faðirinn dæmir.

Svo leggðu með andakt að hjartanu hönd,
með hangandi munnvikjum varpaðu önd,
og skotraðu augum að upphimins ranni,
sem æskir þú vægðar þeim brotlega manni.

Já, hafir þú öll þessi happsælu ráð,
ég held þínum vilja þú fáir náð,
og maðurinn sýkn verði meiddur og smáður,
en máske að þú hafir kunnað þau áður.

Pál J. Árdal.

Elliði Vignisson
Fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfestir bráðabirgðaákvörðun vegna gjaldtöku Isavia

$
0
0

Þann 17. júlí 2018 tók Samkeppniseftirlitið bráðabirgðaákvörðun þar sem Isavia ohf. var gert að stöðva tímabundið þá gjaldtöku á ytri rútustæðum (fjarstæðum) við Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem tók gildi 1. mars 2018.

Til stóð hjá Isavia að hækka umrædd gjöld verulega 1. september sl. en þá átti svokallaður afsláttur á aðlögunartímabili falla niður. Var þessi ákvörðun um stöðva gjaldtöku tekin þar sem sennilegt var talið að Isavia hefði misnotað markaðsráðandi stöðu sína með óhóflegri verðlagningu við gjaldtöku fyrir notkun á fjarstæðum.

Jafnframt var talið sennilegt að Isavia hafi mismunað viðskiptavinum í verðlagningu og skilmálum. Þá taldi Samkeppniseftirlitið að bið eftir endanlegri ákvörðun gæti skaðað samkeppni og haft veruleg skaðleg áhrif á rekstur fyrirtækja sem nýta þurfi fjarstæðin. Gildir þessi ákvörðun til 31. desember 2018.

Isavia skaut bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála og krafðist þess að hún yrði felld úr gildi. Með úrskurði sínum í dag hafnaði áfrýjunarnefnd þessari kröfu Isavia. Byggir áfrýjunarnefnd m.a. á því að Isavia sé í einokunarstöðu og samkeppnislög geri mjög ríkar kröfur til til slíkra fyrirtækja.

Telur áfrýjunarnefnd að undirbúningur Isavia að gjaldtökuni hafi verið óvandaður og fyrirtækið ekki gert viðhlítandi grein fyrir kostnaði við að veita þjónustu við fjarstæðin. Sennilegt sé að gjaldataka Isavia sé óhófleg og ólögmæt og brýnt hafi verið bregðast við henni. Úrskurður áfrýjunarnefndar er aðgengilegur hér.

Skátar afhentu forsætisráðherra verkefnapakka um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

$
0
0

Skátar afhentu forsætisráðherra verkefnapakka um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt Þuríði, Heiðbrá, Mörtu og Andra - mynd
Þau Þuríður, Heiðbrá og Andri, skátar úr Garðabæ og Vesturbæ, og Marta Magnúsdóttir, skátahöfðingi Íslands, heimsóttu Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, í gær. Skátarnir afhentu forsætisráðherra nýjan verkefnapakka í tilefni af þriggja ára afmæli Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna undir yfirskriftinni „Byggjum betri heim“.

Verkefnapakkinn fjallar um Heimsmarkmiðin og inniheldur leiki og verkefni fyrir alla aldurshópa í skátunum. Markmið efnisins er að fræða skáta um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og veita þeim innblástur um hvernig þeir, í sínu daglega lífi og með sínum skátaflokkum, geta tekið ábyrgð í því umhverfi sem þeir búa í og gætt hvers annars, samfélagsins og náttúrunnar.


Nánari upplýsingar um verkefnapakkann má finna hér: https://www.skatamal.is/byggjum-betri-heim/

Aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess

$
0
0

Fjórir ráðherrar ríkisstjórnarinnar kynntu á fundi hennar í dag tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess, til næstu fjögurra ára. Stýrihópur með fulltrúum hlutaðeigandi ráðuneyta hefur unnið að áætluninni í samstarfi við fjölda aðila á síðustu misserum.

Það eru ráðherrar félags- og jafnréttismála, dómsmála, heilbrigðismála og menntamála sem standa saman að tillögunni og samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun að leggja hana fyrir Alþingi. Áætlunin er í samræmi við sáttmála ríkisstjórnarinnar um að vinna markvisst gegn ofbeldi í samfélaginu, þar sem meðal annars er lögð áhersla á að útrýma kynbundnu ofbeldi, þar með töldu stafrænu kynferðisofbeldi.

Áætlunin tekur til ofbeldis í ólíkum birtingarmyndum og aðgerðirnar taka til líkamlegs, kynferðislegs og andlegs ofbeldis. Áætlunin byggist á þremur meginþáttum, þ.e; vakningu sem felur í sér forvarnir og fræðslu, viðbrögðum sem snúast um verklag og málsmeðferð og valdeflingu þar sem áhersla er lögð á styrkingu þolenda í kjölfar ofbeldis.

Svæðisbundið samráð og aðgerðir um allt land

Stýrihópur ráðherranna sem vann aðgerðaáætlunina boðaði meðal annars til fjölmenns vinnufundar við undirbúning hennar þar sem efnislegur grunnur hennar var lagður. Stýrihópurinn hefur í vinnuferlinu jafnframt kallað til fundar við sig marga sérfræðinga sem veitt hafa upplýsingar um hvaða aðgerða sé helst þörf og rætt um mögulegar útfærslur þeirra. Auk þessa hefur verið fundað með lykilaðilum í hverjum landshluta í því skyni að efla svæðisbundið samráð um forvarnir, málsmeðferð og stuðning við þolendur í kjölfar ofbeldis.

Margar þeirra aðgerða sem lagðar eru til í áætluninni lúta að réttindum barna og vernd þeirra gegn ofbeldi. Þær taka einkum til forvarna og fræðslu, en einnig eru nokkrar aðgerðir ætlaðar til þess ætlaðar að bæta málsmeðferð í málum sem varða börn. Aftur á móti miðast aðgerðir um stuðning, ráðgjöf og önnur úrræði einkum við fullorðna þar sem kveðið er sérstaklega um þá þætti gagnvart börnum í ákvæðum barnaverndarlaga.

Vitundarvakning um ofbeldi sem alvarlegt samfélagsmein á síðustu árum

Á undanförnum árum hefur færst stigvaxandi þungi í opinbera umræða um ofbeldi sem alvarlegt þjóðfélagsmein og vitund samfélagsins, stofnana þess, stjórnmálamanna og almennings um þörf fyrir markvissar aðgerðir gegn því hefur aukist að sama skapi. Afleiðingar ofbeldis á þolendur og aðstandendur þeirra geta verið mjög alvarlegar og varanlegar. Samfélagslegt tjón af völdum ofbeldis er einnig verulegt og má meðal annars mæla í auknu álagi á félags- og heilbrigðisþjónustu. Þá leiðir ofbeldi til lægri framleiðni á vinnustöðum, aukinnar starfsmannaveltu og lægri þjóðarframleiðslu.

Í desember 2014 undirrituðu þrír ráðherrar samstarfsyfirlýsingu um aðgerðir gegn ofbeldi og afleiðingum þess og var á grundvelli þess efnt til margvíslegra verkefna til að auka umræðu, þekkingu og faglega umfjöllun um ofbeldi í samfélaginu. Ráðherrayfirlýsingin var endurnýjuð í kjölfar alþingiskosninganna 2016 og aftur í kjölfar kosninganna 2017. Nú eru það ráðherrarnir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigríður Anderssen, dómsmálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sem hafa sammælst um að leggja fram þá tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi og afleiðingum þess sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun.

Samstarf þvert á ráðuneyti og málaflokka mikilvægt

Ásmundur Einar DaðasonÁsmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir að með aðgerðaáætluninni sé stigið mikilvægt skref í baráttunni gegn ofbeldi í samfélaginu. Ráðuneytin hafi unnið vel saman og nú bindi hann vonir við að Alþingi sameinist að baki metnaðarfullri aðgerðaáætlun sem unnið verði eftir á komandi árum: „Sum verkefni gera mjög ríkar kröfur til samstarfs og samvinnu þvert á ráðuneyti og málaflokka. Það á við um jafnréttismál, það á við um baráttuna gegn ofbeldi og það á við um samstarf í þágu barna, líkt og undirstrikað var með samstarfsyfirlýsingu fimm ráðherra sem undirrituð var í september síðastliðnum. Ég er sannfærður um að þessi afdráttarlausi vilji til samstarfs muni greiða fyrir aðgerðum og skila mikilvægum árangri á komandi misserum og árum“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags og jafnréttismálaráðherra.

Sautján ára ók á 161 km hraða

$
0
0

Sautján ára ók á 161 km hraða

Lögreglan á Suðurnesjum hefur á síðustu dögum kært ellefu ökumenn fyrir of hraðan akstur.

Sá sem hraðast ók var sautján ára piltur og mældist bifreið hans á 161 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund.

Hann þarf að greiða 240 þúsund króna fjársekt og sæta sviptingu ökuleyfis í þrjá mánuði, auk þriggja refsipunkta í ökuferilsskrá.

Í ljósi ungs aldurs hans hafði lögregla samband við aðstandendur hans. Þá voru skráningarnúmer fjarlægð af nokkrum bifreiðum vegna vanrækstu eigenda varðandi skoðunar – og tryggingarmál og einn ökumaður var tekinn úr umferð vegna gruns um vímuefnaakstur.

Þriggja daga þing ASÍ –Þrjú hundruð fulltrúar frá 48 stéttarfélögum af öllu landinu koma saman

$
0
0

Þriggja daga þing ASÍ hefst á morgun

Þrjú hundruð fulltrúar frá 48 stéttarfélögum af öllu landinu koma saman á 43. þingi ASÍ á morgun. Þar verður stefna sambandsins til næstu tveggja ára mörkuð auk þess sem ný forysta verður kjörin á föstudag. Ljóst er að nýr forseti ASÍ og tveir varaforsetar verða kjörnir auk þess sem búast má við nokkrum breytingum á fulltrúum í miðstjórn ASÍ en miðstjórnin fer með æðsta vald í Alþýðusambandinu á milli þinga.
Tvö hafa tilkynnt framboð til forseta ASÍ, þau Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS og Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Afls. Til varforseta hafa þrír tilkynnt framboð; Kristján Þórður Snæbjarnarson formaður Rafiðnaðarsambands Íslands, Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Fimm málefni verða rædd sérstaklega í hópavinnu á þinginu. Þau eru:

Tekjuskipting og jöfnuður
Jafnvægi atvinnuþátttöku og einkalífs
Tækniþróun og skipulag vinnunnar
Heilbrigðisþjónusta og Velferðarkerfið
Húsnæðismál

Í maí og september hélt ASÍ 18 fundi á 11 stöðum á landinu til að undirbúa umræðuna fyrir þingið en alls tóku tæplega 600 manns úr grasrót verkalýðshreyfingarinnar þátt í þessum fundum. Unnið verður áfram með niðurstöðu þeirra funda á þinginu.

Nánar má fræðast um þing ASÍ á sérstökum þingvef ASÍ.

Streymt verður frá upphafi þingsins á miðvikudag á heimasíðu ASÍ.


Lögreglan varar við farandverkamönnum

$
0
0

Lögreglan varar við farandverkamönnum

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa undanfarið borist allnokkuð af kvörtunum vegna írskra farandverkamanna, sem hafa boðið íbúum í umdæminu þrifþjónustu, m.a. háþrýstiþvott á hús og bílaplön.

Tilkynnendur, oftlega eldri borgarar, lýsa verulegum óþægindum vegna samskipta við mennina, segja þá mjög aðgangsharða og alveg einstaklega ýtna og freka.

Einnig hefur komið upp ágreiningur vegna upphæðar, sem var rukkuð eftir að þjónustan var veitt og kvittana sem treglega gekk að fá. Það er því að mörgu að huga þegar verkkaup eru annars vegar og eru húseigendur beðnir að hafa það í huga. Mál farandverkamannanna eru til skoðunar hjá lögreglu, m.a. hvort tilskilin leyfi séu fyrir hendi.

Færri bera traust til þjóðkirkjunnar og ánægja minnkar með störf biskups

$
0
0

Traust til þjóðkirkjunnar

,,Þriðjungur Íslendinga ber mikið traust til þjóðkirkjunnar en það er tíu prósentustigum lægra hlutfall en í fyrra. Rúmlega 28% bera hvorki mikið né lítið traust til þjóðkirkjunnar en nær 39% bera lítið traust til hennar.” Segir í nýrri Gallup könnun um málefni þjóðkirkjunnar.

Málefni þjóðkirkjunnar Traust til þjóðkirkjunnar
Þriðjungur Íslendinga ber mikið traust til þjóðkirkjunnar en það er tíu prósentustigum lægra hlutfall en í fyrra. Rúmlega 28% bera hvorki mikið né lítið traust til þjóðkirkjunnar en nær 39% bera lítið traust til hennar.

Eldra fólk ber meira traust til kirkjunnar en yngra, og íbúar landsbyggðarinnar meira en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Einnig er munur á trausti fólks eftir fjölskyldutekjum og loks er munur eftir því hvað fólk kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag, en traustið er mest hjá þeim sem kysu Sjálfstæðisflokkinn eða Miðflokkinn.*

Biskup Íslands
Ánægja með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands, minnkar talsvert frá því í fyrra en tæplega 14% eru nú ánægð með störf biskups. Ánægjan hefur ekki mælst jafn lág á þeim rúmum tveimur áratugum sem hún hefur verið mæld. Rúmlega 42% eru hvorki ánægð né óánægð með störf biskups og 44% eru óánægð með störf hans.

Konur eru ánægðari með störf Agnesar en karlar og íbúar landsbyggðarinnar ánægðari en íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er einnig munur á viðhorfum til starfa biskups eftir því hvað fólk kysi til Alþingis ef kosið yrði í dag, en þeir sem kysu Sjálfstæðisflokkinn eða Vinstri græn eru ánægðastir með störf hans.

Aðskilnaður ríkis og kirkju
Meirihluti Íslendinga er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Viðhorf fólks til aðskilnaðar er þó nær óbreytt frá mælingum undanfarinna ára þrátt fyrir að breytingar hafi orðið á trausti til kirkjunnar og ánægju með störf biskups. Nær 54% eru hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju, nær 23% hvorki hlynnt né andvíg og rúmlega 23% eru andvíg aðskilnaði.

Karlar eru hlynntari aðskilnaði ríkis og kirkju en konur, og yngra fólk er hlynntara honum en eldra fólk. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru hlynntari aðskilnaði en íbúar landsbyggðarinnar, og fólk með háskólapróf er hlynntara honum en þeir sem hafa minni menntun að baki. Loks er munur á viðhorfum fólks eftir því hvað það kysi ef kosið yrði til Alþingis í dag en þeir sem kysu Pírata eru hlynntastir aðskilnaði ríkis og kirkju.

Spurt var: Hversu mikið eða lítið traust berð þú til Þjóðkirkjunnar? Ertu ánægð(ur) eða óánægð(ur) með störf Agnesar M. Sigurðardóttur, biskups Íslands? Ertu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) aðskilnaði ríkis og kirkju?

Uppfærð frétt vegna andláts konu á Akureyri

$
0
0

Uppfærð frétt vegna andláts konu á Akureyri

Lögreglan hefur unnið að rannsókn málsins frá því um helgina. Lögreglan naut aðstoðar tæknideildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við vettvangsrannsókn og er henni lokið.

Karlmaður situr enn í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar þessa máls og var tekin skýrsla af honum í gær.

Frekari skýrslutökur eru fyrirhugaðar. Við handtöku mannsins fundust munir sem hann hafði í vörslum sínum en tilheyrðu hinni látnu.  Í dag fór fram húsleit á dvalarstað mannsins með hans samþykki. Þar var lagt hald á síma og tölvubúnað sem tekinn verður til rannsóknar. Maðurinn og konan þekktust og höfðu verið í samskiptum kvöldið áður.

Réttarkrufning hefur farið fram á hinni látnu og niðurstöðu hennar er beðið.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.

Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins hefur ekki áhyggjur af markaðnum

$
0
0

Framkvæmdastjóri Bílgreinasambandsins hefur ekki áhyggjur af markaðnum

Septembermánuður var þriðji mesti í sölu bifreiða hér á landi frá 2008. Þegar hátt í tíu mánuðir eru liðnir af árinu hafa 16.400 bifreiðar verið seldar. Í samtali við Maríu Jónu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóra Bílgreinasambandsins í Morgunblaðinu hefur hún ekki áhyggjur af markaðnum.

Það sem af er októbermánuði voru nýskráningar á bílum 435 og er búist við 200-300 nýskráningum til viðbótar áður en mánuðurinn er úti.

María Jóna segir ennfremur að það sé langur vegur frá því að um hrun á markaðnum sé að ræða og hún er ekki sammála því að að sala á nýjum bílum hafa dregist saman um 30% á síðustu vikum eins og Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar, hélt fram í síðustu viku.

Nýskráningar á rafmagnsbílum hefur aukist talsvert eða sem nemur 34% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Nýskráningum í tengitvinnbílum hefur aukist um 29%.

2400 ára gamalt skip finnst á hafsbotni – Líklega elsta skipsflak í heiminum

$
0
0

Forn­leifa­fræðing­ar hafa fundið skips­flak sem talið er vera 2400 ára gamalt, og liggur á botni Svarta­hafs

Talið er að um sé að ræða elsta skips­flak sem fund­ist hef­ur í heim­in­um hingað til og því um merkilegasta fund seinni ára um að ræða.  Skipsflakið er 23 metra langt, eða 75 fet, og er talið vera frá tím­um Forn-Grikkja. Við fund­inn kom í ljós að mast­ur skips­ins, stýri og fleira eru í góðu ásig­komu­lagi og er það þakkað því að mikill súr­efn­is­skortur sé svo djúpt í Svarta­haf­inu. Skipið er eitt af 60 skip­um sem forn­leifa­fræðing­ar hafa fundið síðustu þrjú ár.

Lík­lega er um flutn­inga­skip að ræða líkt og af þeirri teg­und sem aðeins sáust á forn-grísk­um leir­mun­um líkt og svo­kölluðum Sír­enu­vasa (e. Siren Vase) sem eru á breska þjóðminja­safn­inu.

„Skip sem er frá forn­öld og staðsett á meira en tveggja kíló­metra dýpi, það er alveg ótrúlegt að geti verið mögu­legt. Fund­ur­inn mun auka skiln­ing forn­leifa­fræðinga og annarra vís­inda­manna á sigl­ing­um og skip­um á forn­öld.“ seg­ir pró­fess­or Jon Adams sem stjórnaði rann­sókn­ar­leiðangr­in­um, í sam­tali við The Guar­di­an.

„Húsnæði fyrir alla – Við þurfum róttækar lausnir”

$
0
0

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, boðar til húsnæðisþings 30. október, í samvinnu við Íbúðalánasjóð, undir yfirskriftinni „Húsnæði fyrir alla“. Á þinginu verður í fyrsta sinn lögð fram skýrsla ráðherra um stöðu og þróun húsnæðismála, í samræmi við breytingu sem gerð var á lögum um húsnæðismál á síðasta löggjafarþingi.

Dagskrá þingsins er fjölbreytt þar sem fjallað verður um húsnæðismál og stöðu þeirra frá ólíkum sjónarhornum og mismunandi þörfum fólks.

Fjallað verður um fasteignamarkaðinn í heild, vandamál og lausnir á leigumarkaði, verkefni og aðgerðir stjórnvalda á sviði húsnæðismála, húsnæðismál á landsbyggðinni og jöfn tækifæri til uppbyggingar óháð búsetu og um ýmsar hliðar húsnæðismála á höfuðborgarsvæðinu, þörf fyrir sveigjanleika í búsetuformum og svo mætti áfram telja.

Þetta er í annað sinn sem félags- og jafnréttismálaráðherra efnir til húsnæðisþings sem haldið skal árlega, en ákvæði þess efnis var leitt í lög með breytingu á húsnæðislögum sem samþykkt var á Alþingi síðastliðið vor. Þá var ennfremur lögfest að ráðherra skuli við upphaf húsnæðisþings leggja fyrir skýrslu um stöðu og þróun húsnæðismála.

„Við þurfum róttækar lausnir”

Ásmundur Einar segir húsnæðisþingið vera mikilvægan vettvang fyrir umræðu um þennan mikilvæga málaflokk sem varðar okkur öll. „Ríkisstjórnin hefur þá skýru sýn að öruggt húsnæði óháð efnahag og búsetu sé ein af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Allar fjölskyldur landsins eiga rétt á viðunandi húsnæði á viðráðanlegu verði. Þetta þarf að tryggja um allt land en eins og staðan er núna er ljóst að til þess þarf fjölþættar aðgerðir byggðar á traustum grunni þekkingar á þörfum fólks á húsnæðismarkaði og markvissum áætlunum í þessum efnum. Við þurfum róttækar lausnir í húsnæðismálum, aðstæður kalla á slíkt“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra.

Húsnæðisþingið 30. október verður haldið á Hilton Reykjavík Nordica kl. 10.00 – 16.30. Opið er fyrir skráningu þátttöku á vef Íbúðalánasjóðs. Ekki verður innheimt gjald fyrir aðgang að ráðstefnunni en unnt er að skrá sig í hádegisverð sem þátttakendur greiða fyrir á staðnum.

Útflutningur á lambakjöti til Indlands orðinn að veruleika

$
0
0

Matvælastofnun hefur undanfarin tvö ár ásamt hagsmunaaðilum og sendiráði Íslands í Indlandi unnið að öflun leyfis til útflutnings á lambakjöti frá Íslandi til Indlands.

Samningaviðræðum er lokið og er útflutningurinn orðinn að veruleika. Þetta er annar stóri erlendi markaðurinn sem opnast fyrir íslenskt lambakjöt, en í haust var undirritaður samningur um hollustuhætti og matvælaöryggi vegna útflutnings á lambakjöti til Kína.

Indversk yfirvöld veittu um mitt sumar tímabundið leyfi til innflutnings á tilgreindu magni af lambakjöti. Endanlega var gengið frá heilbrigðisvottorði snemma í september, fyrsta sendingin fór til Indlands nú í byrjun október og fleiri sendingar eru fyrirhugaðar á næstu vikum.

Gerðar eru ýmsar sérkröfur og sett skilyrði varðandi útflutning á lambakjöti til Indlands.

Mikilvægustu sérkröfur Indlands varða riðu. Einungis má flytja til Indlands kjöt af lömbum frá svæðum þar sem aldrei hefur greinst riða og kjötinu á að halda aðskildu frá öðru kjöti í vinnslu og í geymslum.

Mikil áhersla er á að rekjanleiki sláturlamba og afurða þeirra sé öruggur.

Samningurinn gildir fyrir ákveðinn innflytjanda í Indlandi og frá einu sláturhúsi og tilgreindri vinnslustöð hér á landi. Um er að ræða tilraun til markaðssetningar á íslensku lambakjöti á Indlandi. Ef vel tekst til standa vonir til þess að fleiri framleiðendur á Íslandi geti notið góðs af.

Leyfi sem gefið var í þetta sinn er til sex mánaða, fyrir 5 tonn þar sem hluti af kjötinu er í heilum og hálfum skrokkum og hluti af kjötinu er stykkjaður og úrbeinaður.


Allir sakborningar sýknaðir í Aurum-málinu

$
0
0

Allir þrír sakborningarnir í Aurum-málinu voru sýknaðir í Landsrétti nú í dag

Ákæran var vegna sex milljarða króna láns sem að Glitnir veitti félaginu FS38 ehf. til þess að kaupa hlut eignarhaldsfélagsins Fons í skartgripakeðjunni Aurum Holdings.

Ákærðir í málinu voru Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis og Jón Ásgeir Jóhannesson sem er f.v. aðaleigandi bankans fyrir hönd FL Group og Magnús Arnar Arngrímsson, f.v. framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs.

En Magnús hafði hlotið tveggja ára fangelsisdóm í héraði og Lárus Welding eins árs fangelsi. En Jón Ásgeir Jóhannesson, var sýknaður í héraði.

Magnús Arnar og Lárus áfrýjuðu sínum dómum og ákæruvaldið áfrýjaði sýknudómi Jóns Ásgeirs en undi sýknudómi yfir fjórða sakborningnum, Bjarna Jóhannessyni. All­ur máls­kostnaður vegna Aur­um Hold­ing-máls­ins verður greidd­ur af ís­lenska rík­inu, en alls eru það tæp­ar 59 millj­ón­ir króna alls þegar allt er tekið.

 

Skýrsla um regluverk vegna vindorkuvera afhent ráðherra

$
0
0

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur móttekið skýrslu starfshóps um regluverk vegna vindorkuvera. Skýrslan felur í sér greiningu á því hvort í lögum og reglugerðum á sviði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sé fjallað með nægjanlegum hætti um starfsemi vindorkuvera og framkvæmdir vegna þeirra. Greiningin náði einnig til löggjafar á málefnasviði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins hvað varðar leyfisútgáfu og eftirlit.

Í skýrslunni er bent á að vindorkustarfsemi sé nýtt viðfangsefni hér á landi og að þörf sé á aukinni þekkingu þeirra sem koma að slíkum málum hvort sem um er að ræða ríki, sveitarfélög eða einkaaðila. Skipulagslöggjöf og löggjöf um mat á umhverfisáhrifum taki á slíkum framkvæmdum og starfsemi auk þess sem skylt sé að taka mið af annarri viðeigandi löggjöf vegna ýmiss konar áhrifa á umhverfið af slíkum framkvæmdum, svo sem á landslag, ferðaþjónustu, dýralíf, hljóðvist o.fl.

Starfsemi og framkvæmdir vegna vindorkuvera er háð leyfum og eftirliti af hálfu hins opinbera eins og gildir um annars konar virkjanir. Niðurstaða starfshópsins er því sú að ekki sé þörf á sérlöggjöf um vindorkuframleiðslu. Hins vegar er það mat starfshópsins að tilefni sé til tiltekinna breytinga á lögum og reglum.

Í skýrslu starfshópsins er einnig bent á að verkefni stjórnvalda í Landsskipulagsstefnu 2015-2026, sem felst í því að fræða og miðla upplýsingum um skipulagsmál og umhverfismat vindorkunýtingar, muni nýtast sveitarfélögum vel við stefnumótunarvinnu tengdri skipulagsgerð. Hið sama eigi við um vinnu Skipulagsstofnunar við endurskoðun Landsskipulagsstefnu 2015-2026 þar sem eitt af áherslumálum ráðherra er stefna um skipulag vindorku með tilliti til landslags og að sett verði viðmið um slíka nýtingu.

Starfshópurinn leggur áherslu á að leiðbeiningar Skipulagsstofnunar um vindorkunýtingu verði gefnar út sem fyrst og að stofnunin skoði það samhliða með öðrum stofnunum hvort þörf verði á setningu reglna um fjarlægðarmörk milli vindmylla og annarra mannvirkja eða byggðar, m.a. með tilliti til hávaða af vindmyllum, skuggavarps og öryggisþátta.

Samantekt á niðurstöðum og tillögum starfshópsins er að finna í lokakafla skýrslunnar.
Skýrsla starfshóps um regluverk í tengslum við starfsemi og framkvæmdir vegna vindorkuvera (pdf-skjal)

Lengsti biðlisti í 41 árs sögu Vogs – 602 eru á biðlista eftir meðferð

$
0
0

Þorgerður Katrín heimsækir Vík

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, og María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarmaður hennar, heimsóttu í gær nýja eftirmeðferðarstöð SÁÁ á Vík á Kjalarnesi.

Valgerður Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs, og Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, tóku á móti gestunum, ásamt sérfræðingum SÁÁ á meðferðarsviði, og sýndu þeim nýju meðferðarstöð samtakanna.

Í heimsókninni var umfangsmikið starf samtakanna kynnt, farið yfir stöðu biðlistans á Vogi og fjárframlög vegna áfengis- og vímuefnavandans rædd.

Í dag eru 602 einstaklingar á biðlista eftir að komast að á Vogi og hefur biðlistinn aldrei verið jafn langur í 41 árs sögu samtakanna. Skv. frétt SÁÁ þar um.

Talið frá vinstri: Torfi Hjaltason, María Rut Kristinsdótir, Ásgerður Björnsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Valgerður Rúnarsdóttir og Þóra Björnsdóttir

 

Starfandi borgarstjóri og borgarráð fá “uppgerðann” bragga með fullbúinni lóð gefins

$
0
0

Starfandi borgarstjóri og borgarráð fá “uppgerðann” bragga með fullbúinni lóð gefins

Vigdís Hauksdóttir hefur greinilega húmor fyrir hinum geysi vinsælu bröggum sem að Kristjánsbakarí hefur vart undan að framleiða vegna vinsælda. En á síðu sinni segir hún ,,Kristjánsbakarí kom og færði starfandi borgarstjóra og borgarráði “uppgerðann” bragga með fullbúinni lóð og líka óuppgerða bragga 😅😅😅

Af myndum að dæma, var lítil stemming fyrir gjöfinni enda hefur mikil reiði verið á meðal almennings vegna hins svokallaða ”Bragga máls” þar sem að kostnaður fór upp í tæpan hálfan milljarð og er bragginn enn ókláraður.

En það er þó ekki hægt að segja annað en að hinn kláraði og fullbúni braggi sem að kom að norðan, líti bara ansi vel út.

Og ef að vel er að gáð, má sjá að vinna hefur verið lögð í að skarta fallegum dönskum stráum á lóðinni sem að standa upp úr.

Hér að neðan eru svo fleiri myndir af bæði hinum fullbúna bragga og svo bröggum sem að bíða uppgerðar með tilheyrandi hönnunarkostnaði ofl.

Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2018

$
0
0

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur ákveðið að veiðidagar rjúpu verði fimmtán talsins í ár 2018, sem skiptast á fimm helgar frá 26. október. Með þessu er ráðherra að fjölga veiðidögum frá í fyrra.

Ráðlögð heildaveiði er um 67.000 rjúpur og miðað við fjölda veiðimanna undanfarin ár eru það um 10 rjúpur á hvern veiðimann. Áfram er í gildi sölubann á rjúpum.

Meginstefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær, sem og annarra auðlinda. Jafnframt skuli rjúpnaveiðimenn stunda hóflega veiði til eigin neyslu. Til að vinna að sjálbærri veiðistjórnun eru stundaðar mikilvægar rannsóknir og vöktun á stofninum og síðan rekið stjórnkerfi til að stýra veiðinni að viðmiðum um hvað telst sjálfbær nýting. Rjúpastofninn stendur betur nú en undanfarin ár. Því er talið ásættanlegt að rýmka þann tíma sem hægt að stunda veiðar. Það getur jafnframt orðið til þess að minnka álag á veiðislóð.

Fyrirkomulag rjúpnaveiða 2018 er eftirfarandi:

1. Heildarveiði árið 2018 miðast við 67.000 rjúpur sbr. mat Náttúrufræðistofnunar Íslands á veiðiþoli stofnsins.

2. Sölubann er á rjúpum. Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi. Umhverfisstofnun er falið að fylgja því eftir.

3. Hófsemi skal vera í fyrirrúmi. Veiðimenn eru eindregið hvattir til að sýna hófsemi og eru sérstaklega beðnir um að gera hvað þeir geta til að særa ekki fugl umfram það sem þeir veiða m.a. með því að ljúka veiðum áður en rökkvar. Umhverfisstofnun verður falið að hvetja til hófsemi í veiðum.

4. Veiðiverndarsvæði verður áfram á SV-landi líkt og undanfarin ár.

5. Veiðidagar eru 15 og skiptast á fimm helgar, frá föstudegi til sunnudags og hefst veiði síðustu helgina í október sem hér segir:
Föstudaginn 26. október til sunnudags 28. október, þrír dagar.
Föstudaginn 2. nóvember til sunnudags 4. nóvember, þrír dagar.
Föstudaginn 9. nóvember til sunnudags 11. nóvember, þrír dagar.
Föstudaginn 16. nóvember til sunnudags 18. nóvember, þrír dagar.
Föstudaginn 23. nóvember til sunnudags 25. nóvember, þrír dagar.
6. Fyrirsjáanleiki. Umhverfis- og auðlindaráðherra mun, til samræmis við ákvæði laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, fela Umhverfisstofnun að höfðu samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands að hefja vinnu við gerð tillögu um fyrirkomulag rjúpnaveiða sem taki gildi frá og með haustinu 2019. Um það hafi stofnunin samstarf við Samráðsnefnd um sjálfbærar veiðar og eftir atvikum aðra aðila, en í nefndinni sitja fulltrúar Skotvís, Fuglaverndar, Bændasamtakanna og Náttúrustofa, auk fyrrgreindra stofnana. Sú tillaga liggi fyrir í febrúar nk.

Veiðimenn eru hvattir til góðrar umgengi um náttúru landsins.

Viewing all 7652 articles
Browse latest View live