Í búri í íbúð í Reykjavík búa í sátt og samlyndi tveir risasniglar, ein risaþúsundfætla og þrír kakkalakkar. Dýrin sex eiga það sameiginlegt að vera upprunnin í Afríku en búa nú í Norðurmýri. Öll borða þau plöntur og grænmeti, banana, fiskamat og af og til egg. Æstust eru þau þó öll í haframjöl.
Þó allir myndu ekki sjá gildi þess að eiga snigla að gæludýrum er rétt að geta þess að sem dæmi þykir slím snigla einstaklega gott fyrir húðina. Þó þarf að gæta að því að þrífa húðina vel fyrir slíkar tilraunir, þar sem slímhúð þeirra er svo viðkvæm að þeir veikjast auðveldlega af utanaðkomandi sýklum. Sniglarnir Nói og White Fang hafa þó aldrei veikst alvarlega, en Nói er heilsuveilli en bróðir hans og er oft slappur og matvandur.
Kakkalakkarnir Sauron, Fróði og Sámur eru nefndir eftir persónum í Hringadróttinssögu og þykja ljúf gæludýr, enda þykir þeim gott að kúra af og til á hlýjum stöðum, eins og undir handarkrika og á maga eiganda síns. Þeir ku rólegir en eiga til að hvæsa, sérstaklega einn þeirra sem telur sig leiðtoga bræðranna. Sá er æstastur í að hvæsa og taka á rás.
Sambúð þeirra sýnir glöggt að ólíkar tegundir geta vel búið saman og eru kakkalakkarnir jafnvel gjarnir á að hjúfra sig upp að sniglunum, sé sá gállinn á þeim.
Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir
salka@frettatiminn.is


The post Sambýli óvenjulegra gæludýra appeared first on Fréttatíminn.