Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Eru lífeyrissjóðirnir of stórir fyrir Ísland?

$
0
0

Íslensku lífeyrissjóðirnir eru vaxnir samfélaginu yfir höfuð. Iðgjöld þeirra valda gríðarlegu álagi á skattheimtu. Þörf þeirra fyrir að koma eignum sínum í ávöxtun erlendis veldur miklum þrýstingi á krónuna. Ávöxtunarkrafa á gríðarlegar eignir er meiri en lítið hagkerfi getur staðið undir.

Heildareignir íslenskra lífeyrissjóða voru um 3270 milljarðar króna í árslok 2015. Þetta er svo há upphæð að fólk ætti að hafa áhyggjur ef það skilur hana.

Ef við ímyndum okkur blokk sem hefur fjórar 25 milljón króna íbúðir á hverri hæð þá myndi blokk sem héldi utan um alla eign lífeyrissjóðanna ná rúma 88 kílómetra upp í loftið. Blokkin sú myndi fara í gegnum veðrahvolfið, kljúfa miðhvolfið, fara í gegnum ósonlagið og ná langt upp í heiðhvolfið, rétt undir norðurljósunum.
Svo miklar eru eignir lífeyrissjóðanna.

Geta sogað orkuna úr samfélaginu

Auðvitað er lítið vit í að reyna að skilja eignir lífeyrissjóðanna með svona kúnstum. Eðlilegra er að miða þær við hagkerfið sem bjó þá til og þarf að fóstra þá og næra.

Íslenska hagkerfið er um 2050 milljarðar króna að stærð. Það eru þau verðmæti sem renna í gegnum það á einu ári. Eignir lífeyrissjóðanna jafngilda því einni landsframleiðslu og 60 prósentum til viðbótar.
Allt væri þetta gleðilegt ef ekki væri fyrir það að lífeyrissjóðirnir þurfa að ávaxta eign sína á hverju ári um 3,5 prósent umfram verðbólgu til að standa við loforð sín um elli- og örorkulífeyri í framtíðinni. 3,5 prósent ávöxtun á 3270 milljarða króna eignir krefst þess að um 114,5 milljarðar króna séu dregnar upp úr hagkerfinu.

Það eru um 5,6 prósent af landsframleiðslu. Og það er langt umfram eðlilegar væntingar um hagvöxt. Frá stríðslokum hefur árlegur hagvöxtur á Íslandi að meðaltali verið nálægt 3,7 prósentum. Þörf lífeyrissjóðanna fyrir ávöxtun er mun meiri en það. Ef íslenska hagkerfið ætti að standa undir ávöxtunarþörf sjóðanna myndu þeir hægt og bítandi sjúga alla orku úr samfélaginu.

Útstreymið myndi fella krónuna

Til að mæta þörf sjóðanna fyrir ávöxtun er af þessum sökum gert ráð fyrir að sjóðirnir ávaxti sitt pund erlendis. Í dag eiga sjóðirnir um 726 milljarða króna í erlendum eignum. Eftir sitja í landinu 2375 milljarðar króna. Til að fóðra þá með 3,5 prósent ávöxtun þyrfti íslenska hagkerfið að skaffa um 83,1 milljarða króna árlega. Það er um 4 prósent af landsframleiðslu og nokkuð meira en meðalhagvöxtur frá stríðslokum. Og mun meira en meðalhagvöxtur á þessari öld, sem hefur aðeins verið um 2,6 prósent.

Það er því brýnt og aðkallandi markmið að losa eignir lífeyrissjóðanna úr landi. Ekki dugar að senda úr landi það sem lífeyrissjóðirnir innheimta á hverju ári umfram það sem þeir greiða í lífeyri heldur þyrfti að minnka innlendar eignir sjóðanna umtalsvert, koma þeim helst undir 1000 milljarða; bæði til að draga úr áhættu sjóðanna og til að minnka áhrif þeirra á íslenskt efnahags- og atvinnulíf.
Ef þjóðin setti sér markmið um að koma innlendum eigum sjóðanna undir 1000 milljarða á 15 árum þyrftum við að flytja úr landi um 125 milljarða króna af eignum þeirra til viðbótar við þá um 43 milljarða króna sem sjóðirnir innheimta á ári umfram það sem þeir greiða út í lífeyri.

Samtals væri þetta um 168 milljarðar króna á hverju ári í 15 ár. Sú fjárhæð er um 35 prósent hærri en afgangurinn af vöru- og þjónustuviðskiptum 2014. Sem var mjög fínt ár að þessu leyti.

Það er því augljóst að þessum fjármunum verður ekki komið úr landi nema að fella krónuna duglega og bæta þar með greiðslujöfnuðinn við útlönd. Auðvitað mætti sjá fyrir sér að á móti útstreymi lífeyrissjóðanna kæmi erlend fjárfesting en reynsla okkar segir að hún sé tiltölulega lítil og til að laða hana til landsins hafa stjórnvöld lofað skattfrelsi og allskyns fríðindum. Það er því næstum hrollvekjandi að hugsa til þess ef þau reyndu að laða hingað 168 milljarða króna árlega í 15 ár.

Innlend eign lífeyrissjóðanna sem vill komast út hefur þannig sömu áhrif og snjóhengjan svokallaða, innlend eign þrotabúa föllnu bankanna sem kröfuhafa vildu flytja út. Sjóðirnir hafa verið eins og aðrir lokaðir innan gjaldeyrishafta frá Hruni. Í fyrra veittu stjórnvöld þeim undanþága upp á 10 milljarða króna árlega. Það sjá allir að það breytir í raun engu í ógnarstórri heildarmyndinni.

Mikil skattheimta, minni velferð

Það má sjá fyrirferð lífeyrissjóðanna birtast víðar í samfélaginu. Í dag eru iðgjöld í sjóðina 12 prósent af launum. 4 prósent eru dregin frá launum en 8 prósent eru skilgreind sem framlag launagreiðenda. Ástæðan fyrir þessu tvennskonar bókhaldi er líkast til sú að fyrirtækjaeigendur vilja fá sæti í stjórn sjóðanna í krafti framlags sem er eyrnamerkt þeim.

Þar sem elli- og örorkulífeyrir tilheyrir víðast opinberu skatt- og velferðarkerfi er eðlilegt að meta skylduaðild að lífeyrissjóðum á Íslandi sem hluta af þessum kerfum. Tekjuskattur og útsvar af 250 þúsund króna mánaðarlaunum er því ekki 16,7 prósent eins og halda mætti heldur 26,5 prósent þegar lífeyrisiðgjöldin eru tekin með. Tekjuskattur og útsvar af 500 þúsund króna mánaðarlaunum eru ekki 28,0 prósent heldur 37,1 prósent. Og hæsta skattþrepið á tekjur eftir 704 þúsund krónur er ekki 46,3 prósent samanlagður tekjuskattur og útsvar heldur 58,3 prósent þegar iðgjöldin eru tekin með.

Það er hærri jaðarskattur en tíðkast í velferðarkerfum Norðurlanda. Þar er hár skattur notaður til standa undir öflugu velferðarkerfi. En þar sem góður hluti iðgjalda lífeyrissjóðanna er tekinn út úr íslenska kerfinu og geymdur til síðari tíma; má segja að Íslendingar búi við skattheimtu norræns velferðarkerfis en njóti hins vegar ekki ávaxta þess.

Í Fréttatímanum í síðustu viku kom fram að munurinn á félagslegri aðstoð á Norðurlöndunum og hérlendis jafngildi um 100 milljörðum króna. Næstum helming þeirra upphæðar má rekja til áhrifa lífeyrissjóðakerfisins á skatta og velferð.

Enn á að auka vandann

Þrátt fyrir þessa fyrirferð lífeyrissjóðakerfisins í íslensku hagkerfi og samfélagi sömdu samtök atvinnurekenda og Alþýðusamband Íslands um að hækka enn iðgjöld í lífeyrissjóðina í nýafstöðnum samningum sem kallaðir hafa verið SELEK (Samstarfsnefnd um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga). Á næstu árum munu lögbundnu iðgjöldin hækka úr 12 prósentum í 15,5 prósent. Þeir sem kjósa að borga 6 prósent af launum sínum í séreignaþjóð munu því borga sem nemur 21,5 prósent af launum sínum til lífeyrissjóðanna.

Meginröksemd fyrir hækkun iðgjaldanna var að verið væri að jafna réttindi fólks á almennum vinnumarkaði og opinberra starfsmanna. Jöfnun þess óréttlætis mun hins vegar valda gríðarlegu álagi á hagkerfið, á efnahagslífið, velferðarkerfið og fjármál einstaklinga.
Þessi 3,5 prósentustigshækkun mun hækka raunskatta (tekjuskatt, útsvar og lögbundin iðgjöld í lífeyrissjóði). Skattbyrði af 250 þúsund króna mánaðarlaunum mun hækka í 28,8 prósent og í 39,1 prósent af 500 þúsund króna mánaðarlaunum. Jaðarskattur af launum yfir 495 þúsund krónum á mánuði verður 55,3 prósent og 61,8 prósent yfir 704 þúsund krónum á mánuði.

 Soga allt inn í sig

Hækkun lögbundinna iðgjalda mun færa árleg iðgjöld upp í um 205 milljarða króna á núvirði. Það eru 10 prósent af landsframleiðslu. Að frádregnum lífeyrisgreiðslum munu tæplega 100 milljarðar króna renna frá launafólki til sjóðanna án þess að nýtast til velferðar fyrr en löngu, löngu seinna.

Þar með mun þörfin á útstreymi fjár til útlanda aukast til muna. Ef við göngum aftur út frá 15 ára áætlun um að minnka innlendar eignir sjóðanna niður fyrir 1000 milljarða þyrfti árlega að flytja út um 210 milljarða króna í heil fimmtán ár. Auðvitað má gæla við að það sé hægt. En til þess þyrfti gengi krónunnar að húrrast niður með tilheyrandi hækkun innflutnings og kjaraskerðingu fyrir launafólk. Það er hæpið að aukning ferðamanna, efling útflutnings eða innstreymi erlendra fjárfestinga muni ná að vega upp þörf lífeyrissjóðanna fyrir útstreymi fjármagns.

Ef við reiknum með að sjóðirnir fjárfesti aðeins fyrir 10 milljarða króna árlega erlendis mun innlend eign þeirra tútna enn frekur út vegna hækkunar iðgjalda. Reikna má með að innlend eign sjóðanna verði orðin meira en tvöföld landsframleiðsla eftir um níu ár og þörf þeirra fyrir ávöxtun meira en þrefaldur hagvöxtur liðinna ára.
Lífeyrissjóðirnir eru tröllauknir í íslensku samfélagi í dag en eftir ákvörðun SALEK-hópsins verða þeir tröllaukið skrímsli.

Öllum gullkistum rænt

Eitt sem mannkynssagan kennir okkur er að allir gullkistur eru á endanum rændar. Lífeyrissjóðirnir íslensku eru ekki nema um 55 ára í núverandi mynd. Úr stuttri sögu þeirra þekkjum við dæmi um hvernig þeir voru rændir.

Á tímabili neikvæðra vaxta á áttunda áratugnum rann fé út úr sjóðunum til fyrirtækja annars vegar og til húskaupenda hins vegar. Sjóðirnir uxu ekkert á áttunda áratugnum. Iðgjöld af dagvinnulaunum svo til allra launþega runnu með öðrum orðum inn í sjóðina og svo út aftur sem einskonar niðurgreiðsla til þeirra sem tóku helst lán í samfélaginu. Á núvirði nemur þetta rán hundruðum milljarða. Ef miðað er við launatekjur í dag er umfangið sambærilegt við um 500 til 600 milljarða króna á tíu ára tímabili.

Sjóðirnir sjálfir mátu tap sitt við Hrunið eftir fjárfestingar á bóluárunum upp á 479 milljarða króna sem eru tæplega 600 milljarðar króna á núvirði. Í skýrslunni koma fram að stjórnendur sjóðanna töldu sig fórnarlömb aðstæðna en að stjórnir sumra sjóða hafi verið óþægilega leiðitamar.

Eftir því sem lífeyrisgreiðslur úr sjóðunum hækka hefur dregið úr framlögum úr almannatryggingakerfinu auk þess sem þjónustugjöld hafa verið lögð á aldraða. Það er kannski ofmælt að kalla slíkar tilfærslur rán en þær sína hvernig kerfið aðlagar sig að sjóðunum – en ekki öfugt. Fólk sem leggst inn á spítala á Íslandi þarf ekki að borga nema það sé komið á ellilífeyrisaldur. Þá er spítalinn kallaður hjúkrunarheimili og sjúklingarnir krafðir um allt að 350 þúsund krónur á mánuði í legugjald.

Stutt saga íslensku lífeyrissjóðanna styður þann lærdóm sögunnar að líklegt sé að gengið verði í digra sjóði þeirra á næstu áratugum og þeir fjármunir sem þar eru geymdir muni ekki allir renna í lífeyri félagsmanna.

Graf4_05 (2)
Íslensku lífeyrissjóðunum hefur verið líkt við erlenda ríkisfjárfestingasjóði, ekki síst norska eftirlaunasjóðinn sem hefur byggst upp af auðlindagjaldi á olíu. Það sama má segja við um flesta slíka sjóði. Fyrir utan auðlindasjóði þá eru dæmi þess að smáríki, sem eru fjármálamiðstöðvar og með ofvaxið banka- og fjármálakerfi, safni upp sjóðum sem fjárfesta erlendis og er ætlað að vega upp mögulegar niðursveiflur í hagkerfinu í framtíðinni. Á grafinu sést stærð íslensku lífeyrissjóðanna sem hlutfall af stærstu ríkisfjárfestingasjóðunum, annars vegar heildareign og hins vegar sá hluti eignarinnar sem fjárfest er fyrir erlendis. En það er eðli þessara sjóða að fjárfesta utan eigin hagkerfis. Þótt Ísland sé auðlindaland þá byggir sjóður Íslendinga ekki á auðlindagjaldi, eins og flestir aðrir sjóðir, heldur á skattlagningu launatekna almennings.

 

The post Eru lífeyrissjóðirnir of stórir fyrir Ísland? appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652