Angelo Uijleman bíður dómsmeðferðar og reynir eftir bestu getu að sjá um sig sjálfur á Íslandi. Á meðan undirbýr hann nýtt líf í Hollandi og lærir umferðarstjórnun í fjarnámi.
Í fyrsta skiptið þarf hinn 27 ára Angelo Uijleman að sjá um sig sjálfur á gistiheimili við Snorrabraut. Hann kunni betur við lífið í fangelsinu á Kvíabryggju þar sem hann dvaldi áður. Angelo á í erfiðleikum með bjarga sér sjálfur og á stundum í erfitt með skynja og skilja aðstæður. Biðin eftir málsmeðferð vegna gruns um að hafa smyglað fíkniefnum til landsins reynist honum erfið en hann saknar fjölskyldu og vina í Hollandi.
Angelo hefur alla tíð búið hjá aldraðri móður sinni í Hollandi og verið náinn fjölskyldu sinni, en systkini hans tvö búa skammt frá. Hann er mikill fótboltaaðdáandi, heldur upp á tónlist níunda áratugarins og elskar að kynnast nýju fólki.
Angelo segist hafa flækst til Íslands þegar hann var orðinn leiður á starfi sínu á skyndbitastað í heimabæ sínum í Hollandi. Hann ákvað því að slá til þegar gamall vinnufélagi bauð honum laun fyrir að ferðast til Íslands. Angelo átti að keyra varning til landsins með Norrænu og fengi að njóta þess að vera á Íslandi. Angelo segist ekki hafa vitað að varningurinn innihélt 23 kíló af fíkniefnum og ferðin átti eftir að reynast honum dýrkeypt. Angelo bíður málsmeðferðar og á yfir höfði sér þungan dóm.
Eldar mat í fyrsta skiptið
Angelo er sáttur með aðstöðuna á gistiheimilinu, að hafa eigið rúm og aðgengi að eldhúsi. „Ég eldaði ítalskan mat í fyrsta skiptið í síðustu viku. Steikti sveppi og lauk á pönnu með hakki og rauðri sósu. Ég sauð pasta og fylgdi engri uppskrift heldur bara innsæi, þetta var fullkomið.“
„Ég hefði aldrei farið í þessa ferð hefði ég vitað af fíkniefnunum. Ég ætla aldrei að gera neitt svona aftur.“
Angelo saknar vina sinna og fjölskyldu í Hollandi afar sárt en heyrir í þeim í gegnum Skype og önnur samskiptaforrit daglega. Hann segir aðstandendur sína hafa haft miklar áhyggjur af því hvar hann væri niðurkominn þegar ekkert spurðist til hans dögum saman. „Ég skildi ekki neitt, allt í einu var fullt af lögreglubílum og lögreglan handtók okkur. Lögreglan sagði að í pakkanum væru 23 kíló af fíkniefnum, ég hefði aldrei farið í þessa ferð hefði ég vitað það. Ég ætla aldrei að gera neitt svona aftur, ég vil bara fara heim til Hollands.“
Angelo var handtekinn ásamt öðrum Hollendingi og tveimur Íslendingum þann 22. september. Í kjölfarið mótmælti Angelo ekki gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni því hann treysti sér ekki til að sjá um sig sjálfan á Íslandi.

Gæsluvarðahaldið reyndist þungbært
Angelo er greindarskertur en klár á sínu sviði. Þrátt fyrir það er hann jákvæður að eðlisfari og lítur alltaf á björtu hliðarnar. Hann lýsir þó dvölinni í einangrun, sem stóð yfir í átta vikur, sem óbærilegum tíma sem erfitt var sjá bjartar hliðar á. „Þetta var mjög erfiður og ruglingslegur tími. Ég fékk ekki að tala við neinn nema lögregluna og lögfræðinginn minn í fimm vikur. Þau voru samt mjög góð við mig, Ómar, lögfræðingurinn minn, er fullkominn. Ég fékk að fara út í klukkutíma á dag og í sturtu, ég kunni samt illa við sturtuna þarna. Ég hugsaði ljótar hugsanir og leið illa. Ég vildi bara heyra í mömmu og fara heim til Hollands því ég skildi ekki hvers vegna ég væri þarna.”
„Angelo er mikill fótboltaaðdáandi, heldur upp á tónlist níunda áratugarins og elskar að kynnast nýju fólki. Hann á erfitt með bjarga sér sjálfur og á stundum í erfiðleikum með skynja og skilja aðstæður.”
Kýs Kvíabryggju fram yfir gistiheimilið
Eftir fimm vikur af gæsluvarðhaldi fékk Angelo loksins að heyra í móður sinni, Geu, í síma. Í langan tíma vissi Gea ekki hvar Angelo var niðurkominn og lýsti eftir honum á vef Reddit. Angelo á erfitt með ræða fyrsta símtalið við móður sína eftir einangrun. „Það var gott, en mjög erfitt. Ég vona að hún geti heimsótt mig á afmælisdaginn minn en hún er frekar gömul og getur ekki keyrt.“
Í nóvember var Angelo fluttur á Kvíabryggju þar sem hann vill heldur að dvelja en á gistiheimilinu. „Það var frábær staður. Ég fékk mitt eigið herbergi og gat horft á fótbolta með vinum mínum á Kvíabryggju. Það voru allir svo góðir við mig og maturinn var fullkominn. Ég sakna þess að vera þar. Núna þarf ég að elda sjálfur og hef nánast engan félagsskap. Ég heyri stundum í vinum mínum þar og bið þá um að passa herbergið mitt.“
Þekktur á Íslandi
Angelo er orðinn þekktur meðal landsmanna og segir fólk stundum stöðva sig úti á götu. „Fólk vill taka mynd af sér með mér og segist þekkja mig úr fréttunum. Það eru allir mjög vingjarnlegir og heilsa mér í Bónus og í miðbænum. Það er samt erfitt að eignast vini á Íslandi, sem er leiðinlegt því ég elska að kynnast fólki. Skiptir ekki máli hvort það eru strákar eða stelpur, gamlir eða ungir, allt er frábært.“
Til þess að drepa tímann er Angelo duglegur að fara út að ganga, sitja á kaffihúsum og horfa á fótbolta á kránni. „Ég labba stundum í Kringluna þegar veðrið er gott. Það sem mér finnst best á Ísland er snjórinn en ekki þegar það er hvasst og alltof kalt. Ég kann ekki á strætó hérna, þessi íslensku nöfn á götunum eru flókin. Kannski ef ég læri á strætó þá fer ég í Kópavog í Smáralindina.“ Að frátöldum vinum og fjölskyldu saknar Angelo þess helst að keyra bíl. „Ég keyrði út um allt í Hollandi, vinir mínir gerðu stundum grín að því. Besta vinna sem ég hef verið í var að keyra flutningabíl.“
Undirbýr nýtt líf í Hollandi
Á degi hverjum vonast Angelo eftir fréttum af málsmeðferð en situr ekki auðum höndum og undirbýr nýtt líf í Hollandi. „Ég vil bara vita hvaða dómur bíður mín. Mér leiðist að bíða eftir svörum. Ég hef sagt lögreglunni allt sem ég veit og hjálpað eins og ég get. Núna er ég að undirbúa nýtt upphaf í Hollandi. Í síðustu viku fékk ég frábærar fréttir, ég fékk leyfi til þess að hefja nám við umferðarstjórnun. Þá get ég stjórnað hvernig vörubílar koma og hvert þeir fara. Vinir mínir eru að senda mér skólabækurnar og ég hlakka til þess að byrja, þá hef ég eitthvað að gera á daginn. Ég þarf bara að finna út hvernig ég sendi bréfið til skólans í póst. Ég veit heldur ekki hvert ég get farið með tómar plastflöskur.“
The post Saknar fangelsisins en Hollands meira appeared first on Fréttatíminn.