Íslendingar fengu hlutfallslega lang mest í sinn hlut af Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna eftir stríð. Gríðarlegur fjárausturinn markaði djúp spor í viðskiptum og stjórnmálum. Eftir að aðstoðinni lauk tóku við lán og styrkir frá Alþjóðabankanum, sem skilgreindi Ísland sem þróunarland fram til 1974.
Ísland var það ríki sem fékk hæstu fjárhæðir á hvern íbúa í gegnum Marshall-aðstoð Bandaríkjamanna eftir seinna stríð. Samt var Ísland ekki stríðshrjáð land. Þvert á móti hafði landsframleiðsla á Íslandi tvöfaldast á stríðsárunum á sama tíma og hún hafði helmingast í sumum löndum Evrópu.
Þótt fjöldi íslenskra sjómanna hafi farist þegar skipum með fisk á leið á markað á Bretlandseyjum var sökkt voru innviðir Íslands ekki laskaðir í stríðslok. Stríðsárin voru þvert á móti mesti góðæristími Íslandssögunnar, fyrr og síðar. Vergar þjóðartekjur uxu um rúm 10 prósent að meðaltali hvert ár á stríðsárunum. Þær rétt tæplega tvöfölduðust á meðan stríðið lamaði meginland Evrópu. Til samanburðar var þjóðarframleiðsla helmingi lægri í Austurríki 1945 en hún hafði verið 1938, 46 prósent lægri í Frakklandi, 35 prósent lægri á Ítalíu, 12 prósent lægri í Þýskalandi og 4 prósent lægri í Sovétríkjunum.

Fáir Íslendingar fórust
Þótt um 159 til 229 Íslendingar hafi farist í átökum vegna stríðsins og að sá mannskaði hafi verið þungt högg fyrir margar fjölskyldur og byggðarlög þá var það ekki mikið mannfall í samanburði við blóðbaðið í Evrópu. Mannfall Íslendinga var um 0,2 prósent af íbúafjöldanum í stríðsbyrjun sem er álíka hlutfall og mannfall Bandaríkjamanna og Dana.
Til samanburðar var mannfall Norðmanna um 0,35 prósent af íbúunum og mannfall Finna um 2,3 prósent, eða meira en ellefu sinnum meira en Íslendinga.
Mest mannfall varð hlutfallslega meðal Pólverja en talið er að 17 prósent af þjóðinni hafi farist í stríðinu. Í Litháen var hlutfallið 13,4 prósent, 11 prósent í Lettlandi og 5,9 prósent í Eistlandi.
Það er því ekki hægt að finna réttlætingu fyrir ríkulegri Marshall-aðstoð til Íslendinga í fórn þeirra vegna stríðsins.

Íslendingar fengu langmest
Þrátt fyrir að mannfall Íslendinga hafi ekki verið mikið í samanburði við aðrar þjóðir og alla þá efnalegu velsæld sem þjóðin naut á stríðstímanum fengu Íslendingar ekki aðeins mest allra af Marshall-aðstoðinni heldur langsamlega mest. Frá 1948 til 1951 fengu Íslendingar 43 milljónir dollara í aðstoð sem gera um 297 dollara á hvert mannsbarn miðað við íbúafjöldann 1951. Þetta er rétt tæplega þrisvar sinnum meira en næsta þjóð fékk. Bræður okkar og systur í Noregi sem fengu næst mest eða 113 dollara á íbúa; eilítið meira en Hollendingar sem fengu 112,5 dollara á mann.
Sjá má á grafi sem fylgir greininni hvernig Marshall-aðstoðin skiptist milli þeirra ríkja sem þáðu aðstoðina, brotið niður á íbúa. Eins og sjá má var Ísland ekki eina landið án stríðsátaka sem fékk aðstoð. Sama á við um Sviss, Svíþjóð, Írland og Portúgal.
Óheyrilega miklir peningar
Ísland fékk úr Marshall-aðstoðinni 8 milljónir dollara tímabilið 1948/49, 22 milljónir dollara tímabilið 1949/50 og 15 milljónir dollara tímabilið 1950/51; samtals 43 milljónir dollara á fjórum árum.
En hvað eru það miklir peningar?
Uppreiknað á gengi dagsins jafngilda þessar 43 milljónir dollara um 424 milljónum dollara á núvirði eða 55,1 milljarði íslenskra króna.
Þessi upphæð gefur þó ekki raunsanna mynd af því hvaða áhrif þessi aðstoð hafði á íslenskt samfélag. Fyrir það fyrsta voru Íslendingar 145 þúsund 1951 en eru nú orðnir 330 þúsund. Ef við tökum tillit til fjölgunar íbúa jafngildir Marshall-aðstoðin eftir stríð því að Íslendingar fengju í dag 125,4 milljarða króna að gjöf.
En það segir heldur ekki alla söguna. Landsframleiðsla á Íslandi hefur rúmlega tífaldast frá þeim árum sem Marshall-aðstoðin flæddi yfir fólkið, landið og miðin. Ef við framreiknum vægi aðstoðarinnar með tilliti til aukinnar landsframleiðslu þá var Marshall-hjálpin 1948 til 1951 jafngild því að Íslendingar hefðu á síðustu árum fengið 599 milljarða króna að gjöf.
Það er á við að hver fjögurra manna fjölskylda hefði fengið 7,3 milljónir króna. Það er ígildi 151 þúsund króna á mánuði í fjögur ár.
Þessi gríðarlega innspýting peninga í gegnum stjórnvöld festu í sessi hina íslensku spillingu sem kennd hefur verið við helmingaskipti Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, þótt Alþýðuflokkurinn hafi einnig verið við völd fyrri hluta tímabilsins. Marshall-aðstoðin var að hluta til hugsuð sem leið Bandaríkjamanna til að festa í sessi í Evrópu stjórnmálaöfl sem voru vilhöll Bandaríkjamönnum. Aðstoðin var notuð til að sveigja íslenskt þjóðlíf að uppsprettunni, sem voru valdastofnanir viðkomandi flokka.
Rausnarlegasta þróunaraðstoðin
Marshall-aðstoðin til Íslands, sem veitt var ofan í stríðsgróðann, er að öllum líkindum rausnarlegasta þróunaraðstoð sögunnar. Þetta vill gleymast þeim er halda því fram að það hafi fyrst og fremst verið vegna fullveldis og sjálfstæðis ríkisins sem Íslendingum tókst að brjótast frá örbirgð til bjargálna síðastir Evrópuþjóða.
Með samanburði á landsframleiðslu á Íslandi og hinum Norðurlöndunum yfir langt tímabil má jafnvel halda hinu þveröfuga fram; að fullveldi og sjálfstæði hafi frekar haft neikvæð áhrif á efnahagslegan styrk Íslands. Það sem réð mestu um viðreisn Íslands var stríðsgróðinn.

Þróunarland til 1974
Marshall-aðstoðin er ekki eina þróunaraðstoðin sem Íslendingar fengu því landið var skilgreint sem þróunarland hjá Alþjóðabankanum og naut stuðnings sem slíkt allt fram til ársins 1974.
Undirdeildir Alþjóðabankans, International Bank for Reconstruction and Development og International Development Association, veittu íslenskum stjórnvöldum lán og styrki fyrir samtals um 34,3 milljarða króna á núvirði frá 1951 til 1974.
Eins og áður sagði verður að hafa í huga að vægi peninga var annað á þessum árum svo einfaldur framreikningur á dollar dugar ekki til að gefa hugmynd um umfang aðstoðarinnar. Ef miðað er við magnbreytingar landsframleiðslunnar jafngildir þessi þróunarstuðningur til Íslendinga frá Alþjóðabankanum um 170 milljörðum króna í dag.
120 ár að borga til baka
Ef við leggjum þetta tvennt saman, Marshall-aðstoðina og stuðning Alþjóðabankans við þróunarríkið Ísland, jafngildir aðstoðin um 669 milljörðum íslenskra króna miðað við núverandi stærð hagkerfisins. Það eru um þriðjungur af landsframleiðslu eins árs.
Sameinuðu þjóðirnar mælast til þess að þróuð lönd verji um 0,7 prósentum af landsframleiðslu sinni til þróunarhjálpar. Ef Íslendingar stæðu við það tæki það þá um 48 ár að greiða til baka þá aðstoð sem þeir fengu á árunum 1948 til 1974.
Íslendingum hefur hins vegar ekki tekist að standa undir tilmælum Sameinuðu þjóðanna heldur hefur þróunaraðstoð þeirra lengst af verið um 0,25 til 0,3 prósent af landsframleiðslu. Með slíkum framlögum tæki það þjóðina ríflega 120 ár að endurgreiða þá aðstoð sem hún fékk á áratugunum eftir seinna stríð.
Töflur:
I. Marshall-aðstoðin
Skipt niður á framlög á íbúa eftir löndum. Heildarframlög innan sviga og aðstoð hvers lands sem hlutfall af þeirri aðstoð sem Íslendingar fengu.
- Ísland 297 dollarar á mann (43 m$)
- Noregur 113 dollarar á mann (372 m$) 38%
- Holland 112 dollarar á mann (1.128 m$) 38%
- Danmörk 89 dollarar á mann (385 m$) 30%
- Belgía & Lúxemborg 87 dollarar á mann (777 m$) 29%
- Bretland 75 dollarar á mann (3.297 m$) 25%
- Austurríki 67 dollarar á mann (468 m$) 21%
- Frakkland 54 dollarar á mann (2.296 m$) 18%
- Sviss 52 dollarar á mann (250 m$) 18%
- Grikkland 49 dollarar á mann (376 m$) 17%
- Svíþjóð 49 dollarar á mann (347 m$) 16%
- Írland 45 dollarar á mann (133 m$) 15%
- Vestur-Þýskaland 28 dollarar á mann (1.448 m$) 9%
- Ítalía 25 dollarar á mann (1.204 m$) 9%
- Portúgal 8 dollarar á mann (70 m$) 3%
- Tyrkland 6 dollarar á mann (137 m$) 2%
II. Þróunarhjálp Alþjóðabankans og undirstofnana hans til Íslands
- Sogsvirkjun og Laxárvirkjun 1951 2,5 m$ / 3.030 m.kr. á núvirði / ígildi 33,8 milljarða í dag
- Bætur húsakostur á sveitabæjum 1952 1,0 m$ / 1.144 m.kr. á núvirði / ígildi 12,9 milljarða í dag
- Áburðarverksmiðja ríkisins 1953 0,9 m$ / 1.021 m.kr. á núvirði / ígildi 10,0 milljarða í dag
- Fjarskiptaverkefni 0,3 m$ 1954 / 338 m.kr. á núvirði / ígildi 3,0 milljarða í dag
- Tíu ára átak til stækkun túna og framræslu mýra 1954 1,3 m$ / 1.463 m.kr. á núvirði / ígildi 13,1 milljarða í dag
- Hitaveita Reykjavíkur 1962 2 m$ / 2.020 m.kr. á núvirði / ígildi 13,1milljarða í dag
- Búrfell 1967 18 m$ / 16.579 m.kr. á núvirði / ígildi 76,9 milljarða í dag
- 34 km. tveggja akreina kafli á Suðurlandsveg og 14 km. tveggja akreina kafli á Vesturlandsveg 1971 4,1 m$ / 3.122 m.kr. á núvirði / ígildi 12,3 milljarða í dag
- Höfn í Vestmannaeyjum 1974 7 m$ / 4.591 m.kr. á núvirði / ígildi 15,1 milljarða í dag
- Sigalda 1974 10 m$ / 6.559 m.kr. á núvirði / ígildi 21,6 milljarða í dag
Alls: 42,4 m$ / 34.335 m.kr. á núvirði / ígildi 152,1 milljarða í dag
The post Íslendingar fengu ígildi 669 milljarða í þróunaraðstoð appeared first on Fréttatíminn.