Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Maður lærir mest á að taka sénsa

$
0
0

Iva Marín Adrichem ræðst aldrei á garðinn þar sem hann er lægstur, hvort sem kemur að lagavali í söngkeppnum eða því að halda tölur á málþingum á vegum félagsins Tabú. 

Iva Marín er sautján ára nemi við Menntaskólann í Hamrahlíð sem þegar hefur vakið athygli á ólíkum sviðum, fyrir söng sem baráttu fyrir mannréttindum. Hún býr með fjölskyldu sinni í Kópavogi, en ólst upp í Hollandi þar sem hún var í skóla til níu ára aldurs.
„Þar úti má enginn tala í tímum nema að rétta upp hönd og við ellefu ára aldur þurfa allir nemendur að taka landspróf sem segir til um hvernig nám þeir stunda restina af skólagöngunni. Það býður í raun upp á mismunun því það er erfitt að breyta um braut eftir þetta próf, ef þú klúðrar því hefur það áhrif á alla skólagönguna eftir það.“ Iva var í skóla fyrir blinda og sjónskerta og segir námið þar beinlínis gera ráð fyrir að börnin séu minni bóklegum gáfum gædd en þau sem ganga í almennan skóla. „Þar var ekki einu sinni boðið upp á að fara í akademíska braut í menntaskóla, heldur aðeins iðnnám.“ Þannig fengu börnin í skólanum ekki sömu tækifæri til vals í náminu og börn í almennum skóla.
Hún segir mikla flokkun í hollenska skólakerfinu, en það sé ekki af hinu góða. Ofan á þetta voru börn látin skipta yfir í annan skóla fengju þau viðbótargreiningu ofan á sjónskerðinguna. „Ef þú varst svo til dæmis greindur með ADHD varstu tekinn úr skólanum og settur í sérstakan iðnskóla, og varst þá heilum tveimur til þremur árum á eftir jafnöldrum þínum í skóla.“ Henni líkar því betur að vera í blönduðum skóla á borð við Menntaskólann við Hamrahlíð, en utan hans stundar hún söngnám.

„Ég hef verið að syngja frá því ég var pínulítil, en 13 ára byrjaði ég að læra klassískan söng.“ Iva tók svo þátt í söngkeppni framhaldsskólanna á síðasta ári fyrir hönd Menntaskólans við Hamrahlíð. Þar söng hún hið alræmda lag Loving You, sem Minnie Riperton gerði frægt. „Lagið er þekkt sem „lagið með háu nótunni,“ þannig þetta var ákveðin áhætta. Eins og kennarinn minn sagði við mig: Ef þú klúðrar þessari háu nótu ertu búin að vera.“ Það hafðist samt að ná nótunni, svo ég tóri enn,“ segir Íva glettnislega.
Hún segist frekar taka áhættu í lagavali en halda sig við örugga kosti. „Í 9. bekk tókum við vinkona mín einmitt lag með drottningunni Whitney Houston í undankeppni Samfés og klúðruðum því alveg glæsilega. En maður lærir einfaldlega mest á því að taka sénsa.“

Iva er líka í Graduale Nobili-kórnum og þegar kórinn sendi meðlimi sína í áheyrnarprufur fyrir uppsetningu Íslensku óperunnar á La Bohéme opnaðist fyrir henni nýr heimur. „Ég var ekkert að spá í óperu og hlustaði bara á Lady Gaga og Adele, en nú gjörsamlega elska ég óperur og að taka þátt í þeim.“ Iva hefur verið viðloðandi óperuna síðan.
Hún hefur tekið virkan þátt í starfi Tabú, femínísks félags kvenna með fötlun, frá stofnun félagsins. Hún hefur komið fram á málþingum og skrifað greinar á þess vegum. „Þetta er svo þroskandi starf því þarna eru konur á öllum aldri með ólíkar skerðingar og fjölbreyttan bakgrunn. Það hefur gefið mér ótrúlega mikið að vinna með þeim og vonandi get ég gefið eitthvað til baka með því að vera í þessu starfi. Umræðan um réttindi fatlaðra hefur ekki verið nógu sýnileg hingað til.“

Hún segir misrétti og ofbeldi gegn fötluðum þrífast í aðgreiningu á borð við þá sem hún upplifði í skólanum í Hollandi. „Nú var einmitt að komast upp gróft kynferðisofbeldismál í skóla fyrir börn með viðbótarfatlanir og tungumálaörðugleika í Hollandi, þar sem kennari beitti varnarlaust barn ofbeldi. Þessi aðgreining laðar að ofbeldismenn, það er bara staðreynd. Eins hef ég heyrt um ljót mál í sérskólum á borð við Heyrnleysingjaskólann (sem starfræktur var til 1992). Ég held að við gætum komið í veg fyrir slík mál með því að blanda börnum með ólíkar þarfir saman.“

Ivu finnst þó að umræðan eigi að leita lausna í stað þess að einblína bara á hversu hræðilegir hlutirnir séu. Hún segir fórnarlambsvæðingu jafnframt ekki vera jákvæða þegar komi að málum eins og geðheilsu, fötlun eða ofbeldi. „Það verður auðvitað að skoða vandamálin gagnrýnið en mér fyndist frábært ef fjölmiðlar kæmu lausnunum líka á framfæri. Lausnum sem oft koma fram á málþingum og öðrum vettvangi þar sem þessi mál eru rædd, en fá ekki athygli í fjölmiðlum.“

Hún er sammála því að ungt fólk virðist verða sífellt meðvitaðra um mannréttindamál. „Ég held að þessi þróun komi til vegna þess að þessi mál eru rædd meira og fyrr í skólunum. Ég tek eftir því að ungt fólk lætur sig slík mál varða og nýjasta og frægasta dæmið er líklega þetta frábæra atriði Hagaskóla í Skrekk.“
Aðspurð um hvort söngurinn eða stjórnmálin laði hana frekar að sér segist hún ætla að einbeita sér að söngnum fyrst um sinn. Enda geti það verið lýjandi að vera sífellt að vinna í mannréttindamálum.
„Maður verður líka að kunna að hafa gaman og velta sér ekki bara upp úr því slæma, þá brennur maður bara út.“

Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir

salka@frettatiminn.is

 

Íva Marín Adrichem
Iva Marín Adrichem er með fjölhæfari sautján ára stúlkum. myndir|Hari

The post Maður lærir mest á að taka sénsa appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652