
Fjórar perluvinkonur á níræðisaldri hittast fjórum sinnum á ári í saumaklúbb á Skaganum. Þær Hrefna, Guðrún, Björg og Sissa eru á aldrinum 82 til 86 ára og hafa verið vinkonur síðan þær byrjuðu að vinna saman sem sjúkraliðar upp úr árinu 1968. Enn búa þær á Akranesi, nema Sissa sem vílar þó ekki fyrir sér að keyra í saumaklúbbinn frá Reykjavík, þegar svo ber við.
„Við hittumst samt oft í viku, fyrir utan saumaklúbbinn, hringjumst á og svona. Maður kíkir kannski bara óvænt við í kaffi, ég held það sé ekki til siðs lengur. En við gerum það enn,“ segir Björg. Vinkonurnar eru klæddar í sitt fínasta púss og sitja að spjalli með rauðvín þegar blaðamaður mætir í klúbbinn. Það er greinilegt að þeim líður vel saman og klára setningar hver annarar af alúð, þegar það á við, og eru duglegar að mæra hvor aðra.
Björg segir frá því hve góð Guðrún hafi verið að sauma, hún hafi saumað árshátíðarkjól á sig á hverju ári og er vinkonunum minnisstæður kjóll úr bláu pallíettuefni. „Þú getur fengið hann lánaðan þegar þú giftir þig, Björg!“ segir Guðrún brosandi. „Iss, ég myndi ekki passa í hann,“ svarar Björg hlæjandi. En nú býður Hrefna upp á köku og kaffi, svo við færum okkur úr betri stofunni.
„Hrefna málaði bollastellið sjálf, hún er svo mikil listakona,“ bendir Guðrún á þegar við setjumst við borðið.
Allar eru þær sammála um að nauðsynlegt sé að eiga góðar vinkonur í gegnum lífið. Lykillinn að vináttu þeirra sé að þær hafi hlúð að hver annarri með ást og stutt hver aðra á hvaða stigum lífsins sem er. „Mannkærleikur og ást, er lykillinn,“ segir Guðrún.

salka@frettatiminn.is
The post Mikilvægt að hlúa að vináttunni appeared first on Fréttatíminn.