Langþráður draumur Geirs Gunnarssonar rættist á dögunum þegar hann fékk sína fyrstu vinnu eftir að hafa setið í fangelsi í 17 ár. Geir gat ekki sofið fyrir spenningi nóttina fyrir fyrsta vinnudaginn.
Það hefur verið draumur Geirs í áraraðir að losna úr fangelsi og verða betri maður. Hann þráði að lifa eðlilegu lífi og geta staðið á eigin fótum.
Á dögunum sótti hann um vinnu í íþróttavöruversluninni Sports Direct. „Ég fékk vinnuna þó ég hafi aldrei unnið í svona umhverfi áður. Konan sem réði mig þekkti söguna mína úr fréttunum svo það hjálpaði aðeins til að þurfa ekki fara yfir hana. Mér finnst mjög skemmtilegt að geta gert eitthvað sem er alveg nýtt fyrir mér. Nú hef ég bara unnið hér í tvo daga og mér líst mjög vel á.“
Geir vinnur í þjónustudeildinni og var á afgreiðslukassa fyrsta daginn. „Ég gerði mitt besta en það er margt nýtt að læra. Ég gleymdi til dæmis að taka þjófavörnina af allnokkrum vörum og þarf að læra að fylgjast betur með því.“
Átján ár eru síðan Geir var síðast í vinnu utan fangelsisins. Hann fann því fyrir mikilli tilhlökkun að byrja í nýju starfi og var andvaka aðfararnótt fyrsta vinnudagsins. „Ég vaknaði klukkan þrjú um nóttina, alltof spenntur.“ Til að ná niður stressinu fékk hann sér göngutúr um Elliðaárdalinn á fimmta tímanum og mætti svo hress til vinnu um morguninn.
Árið 1998 hlaut Geir 20 ára fangelsisdóm fyrir alvarlega líkamsárás og sat inni í 17 ár. Það er næstum tvöfalt lengur en morðingjar þurfa að sitja inni á Íslandi. Geir afplánaði dóminn í öryggisfangelsi í Bandaríkjunum við bágar aðstæður og varð fljótt staðráðinn í að bæta upp fyrir gjörðir sínar. Hann var látinn laus í september í fyrra og sneri þá aftur til Íslands. Síðan hefur hann unnið að því að byggja sig upp og aðlagast gjörbreyttu samfélagi.
The post Andvaka fyrir fyrsta vinnudaginn appeared first on Fréttatíminn.