Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Settist að á Vestfjörðum til að stunda skíði og sörf

$
0
0

Camilla Edwards er forfallin ævintýra- og útivistarkona sem ákvað að setjast að á Ísafirði eftir að hafa flakkað um heiminn í mörg ár. Þar býr hún í gömlu húsi sem hún er að gera upp og breyta í gistiheimili, það er þegar hún er ekki að renna sér niður fjöll eða stíga ölduna á brimbretti í einhverjum vestfirsku fjarðanna.

„Hér er allt til staðar. Það eina sem þarf að gera er að kenna fólki að fara út að leika sér, njóta náttúrunnar og nýta hana á sjálfbæran hátt.“ 

„Þegar ég segi Reykvíkingum hvar ég bý þá halda flest allir að ég sé eitthvað skrítin,“ segir Camilla og skellihlær. Hún segir fólk oft eiga erfitt með að skilja það hvernig hún hafi getað sest að fyrir vestan en eftir að hafa rætt við hana í nokkrar mínútur er ekkert vafamál að Camilla hefur tekið ástfóstri við bæði samfélagið og staðinn þar sem hún getur stundað bæði fjallaskíði og brimbretti þar sem henni finnst vera einn fallegasti staður á jörðinni.

Mynd: Chris Dunn
Myndir: Chris Dunn

Camilla er fædd og uppalin í Bretlandi þar sem hún lærði snemma að njóta náttúrunnar, ferðast og kynnast nýju fólki. Hún hefur þó ekki búið í Bretlandi frá hún var fimmtán ára gömul en þá var send á heimavist í Sviss. „Ég var alltaf í heimavistarskólum og í öllum fríum var ég svo send á einhverskonar námskeið í fjallaklifri, siglingum eða skyndihjálp. Pabbi var í útivistarbransanum og mikill siglingamaður og ég held hann hafi viljað að ég væri strákur,“ segir Camilla og hlær. „Það má eiginlega segja að ég hafi alltaf unnið við að vera úti að leika mér.“

24814 surfing flateryi

Camilla hefur búið víðsvegar um Evrópu, í Ástralíu, á Nýja-Sjálandi, í Patagóníu og Mið-Ameríku, og aldrei skemur en ár á hverjum stað. Fyrir fimm árum ákvað hún svo að koma í stutta ferð til Íslands. „Ég fór í fimm daga ferð frá Ísafirði með Borea Travel og við bjuggum í gömlum bóndabæ þaðan sem við fórum í siglingar á hina og þessa staði. Það bara gerðist eitthvað og mig langaði ekkert til að fara til baka. Mér leið strax eins og ég ætti heima hér. Ég bauðst til að vinna við að dytta að á bóndabænum þar sem við bjuggum og fékk vinnuna,“ segir Camilla sem hefur varla farið af landinu síðan. „Mér finnst haustið fallegasti tíminn hérna því þá er birtan svo ótrúleg og það er líka besti tíminn fyrir sörfið. Svo er vorið besti tíminn fyrir fjallaskíðin.“

Þegar við Camilla spjöllum í símann er hún heima að slaka á í brjáluðum stormi, nýkomin frá Spáni þar sem móðir hennar býr. Henni finnst gott að vera komin heim þó stormurinn haldi henni inni og að ekki sé hræða á ferli. „Það eru allir inni í dag, reyndar eru allir alltaf inni á veturna,“ segir hún og skellihlær aftur sínum smitandi hlátri. „Það er dálítið fast í fólki hér að vera inni á veturna, þó það hafi reyndar breyst mikið frá því að ég kom hingað fyrst. Fólki fannst ég dálítið skrítin hérna í upphafi, farandi ein á fjallaskíði með strætó úr bænum. Svo stökk ég alltaf æst á alla aðkomumenn í útivistarfötum,“ segir Camilla og hlær enn meira. „Í dag eru miklu fleiri á fjallaskíðum og svo eru líka nokkrir sörfarar hérna núna,“ segir Camillia en framan af var hún eina manneskjan sem stundaði brimbretti á svæðinu. Hún segir áhugann á jaðarsporti og fjallamennsku hafa aukist gífurlega á þessum fimm árum sem hún hefur búið fyrir vestan. „Mér finnst mikið af ungu fólki vera áhugasamt um þennan lífsstíl. Ég finn að fólk langar til að búa á stað eins og Vestfjörðum, fólk vill vera hér en það eina sem vantar eru atvinnutækifæri. Það er samt mikill kraftur hérna og frumkvöðlahugsun í loftinu. Ég hef búið og starfað út um allan heim en aldrei rekist á jafn mikla sköpunargleði og kraft og hér.“

24814 surfing chris dunn

Stuttu eftir að Camilla tók ákvörðun um að setjast að á Ísafirði keypti hún sér gamalt hús til að gera upp. „Mér fannst Ísafjörður, og reyndar Flateyri líka, strax magnaðir staðir sem hafa upp á svo margt að bjóða, en það vantaði notalega gistiaðstöðu. Það er mjög auðvelt að kaupa nokkur Ikea-rúm og selja herbergi á uppsprengdu verði en það er allt annað að búa til gistingu sem hefur alvöru karakter. Og svo er allt annað að gista þar sem gestgjafinn býr á staðnum og sem þekkir fólkið og svæðið. Það er það sem ég er að vinna í núna, bæði á Ísafirði og á Flateyri þar sem ég hef líka fjárfest í litlu húsi. Flateyri hefur gengið í gegnum ótrúlega erfiðleika en það er án efa einn fallegasti staður á Íslandi með helling af möguleikum. Þrátt fyrir að hafa búið á Ísafirði þá enda ég alltaf á því að fara þangað, bæði til að renna mér og sörfa.“

Camilla surf 24814

„Mikið af þeim stöðum sem ég hef búið á eru þekkt útivistarsvæði og mín tilfinning er sú að hér sé allt að byrja að blómstra. Það er líka svo auðvelt að framkvæma hugmyndir á Íslandi, bæði vegna þess hversu innviðirnir eru smáir en líka vegna þessa jákvæða hugarfars. Ég búið á og ferðast til svo margra staða sem hafa verið eyðilagðir af túrisma með ljótum hótelum og lélegri þjónustu, sérstaklega í Suður-Ameríku og í Kanada. Heilu strendurnar og bæirnir eru keyptar upp af ríku fólki og breytt í Disneyland og fólkið sem bjó þar áður þarf að flytja í jaðarinn, það má ekki gerast hér. Hér er allt til staðar. Það eina sem þarf að gera er að kenna fólki að fara út að leika sér, njóta náttúrunnar og nýta hana á sjálfbæran hátt.“

24814 Camilla Edwards

Það eru ekki bara fjöllin og sjórinn sem hafa hjálpað Camillu að skjóta rótum á Vestfjörðum, heldur líka samfélagið. „Hér er ótrúlega sterkt og gott samfélag sem hefur mikinn áhuga á því að gera nýja hluti og mér hefur verið tekið opnum örmum. Ég hef búið út um allan heim og aldrei upplifað slíkan náungakærleika, fólk bókstaflega faðmaði mig þegar það vissi að ég hafði keypt mér hús hérna. Þetta algjör andstaða við til dæmis Sviss þar sem allir eru mjög tortryggnir í garð útlendinga. Ég er ekki bara að gera þessi hús upp heldur er ég að taka þátt í alskyns samfélagslegum verkefnum sem ég hef engan áhuga á að yfirgefa. Þessi tilfinning sem ég fékk fyrir fimm árum, um að ég væri komin heim, er ekki að fara neitt heldur verður bara sterkari.“

24814 cam nær

 

 

The post Settist að á Vestfjörðum til að stunda skíði og sörf appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652