Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Hver er Lexi Picasso?

$
0
0

Lexi Picasso hefur svo sannarlega verið á milli tannanna hjá fólki. Hann hefur ögrað með rapptónlistinni sinni og myndböndum þar sem byssur, bílar, eiturlyf og þyrlur koma við sögu. Á Instagram birtir hann bunka af tíu þúsund króna seðlum, reykir gras, drekkur hina margrómuðu Actavis hóstasaft og hangir með frægum röppurum í Atlanta. Aðdáendur rapparans vilja vita hver er Lexi Picasso? Hvaðan koma peningarnir? Og hvernig endaði hann í Atlanta með 808 mafia?

Á veitingastaðnum Satt á Icelandair hótel mælum við Lexi Picasso og umboðsmaður hans, Selma, okkur mót. Öll okkar samskipti fram að þessu voru í gegnum umboðsmanninn og að ósk þeirra beggja fór viðtalið fram á ensku. Ég er smá hissa að sjá hann – bjóst allt eins við að hann myndi ekki mæta. En þarna er hann að drekka cappuccino, klæddur leðurbuxum og gullskóm, kurteis og auðmjúkur yfir að vera fenginn í viðtal.

24924 Lexi Picasso mynd Julia Runolfs
Myndir/Júlía Runólfsdóttir

Hver er Lexi Picasso?

„Ég er þúsundþjalasmiður, geðhvarfasjúkur og bý yfir mörgum persónum. Ég er listræn manneskja þó ég beri það ekki endilega með mér. Ég fór mikið á listasöfn þegar ég bjó í Frakklandi, þá sérstaklega Louvre. Ég er sjálfur málari og uppáhalds listamaðurinn minn er Picasso, þaðan kemur listamannsnafnið mitt. Ég er líka hvetjandi og veiti fólki innblástur.“

Lexi Picasso, eða Alex Þór Jónsson, ólst upp í miðbæ Reykjavíkur og gekk í Austurbæjarskóla þar til honum var vísað úr námi í sjöunda bekk. Þar með lauk hans skólagöngu þegar allir skólar höfuðborgarsvæðisins meinuðu honum aðgang að hans eigin sögn. „Ég á erfitt með að vera í margmenni og var lagður í einelti í barnaskóla. Ég brást illa við eineltinu og olli tjóni með þeim afleiðingum að ég var rekinn. Þá vildi enginn skóli neitt með mig hafa.“

Frá sextán til átján ára aldurs var Lexi einn á flakki um heiminn og þótti Ísland of lítið fyrir sína drauma. „Ég átti ekki heima í íslensku samfélagi, ég varð að slíta mig frá þessu landi. Ég var ákveðinn að gera eitthvað við líf mitt þó skólakerfið hefði brugðist mér.“

Lexi ætlar ekki að fara nánar út í ferðalag sitt en segir það hafa mótað sig sem listamann. „Ég var blankur og lenti í allskyns rugli sem ég ætla ekki að telja upp. Það góða var að ég kynntist öllum týpum af fólki. Fólki af ólíkum uppruna, á ólíkum stöðum í lífinu, á öllum aldri. Það er ekki til vottur af fordómum í mér eftir þessa lífsreynslu.“

Þegar Lexi sneri heim stofnaði hann hljómsveitina b2b ásamt félaga sínum Cody Shaw og gáfu þeir út umdeilt myndband þar sem ófáum fimmþúsundköllum var kastað í loftið með sportbílum í bakgrunni. Myndbandið rataði inn á vefsíðu World Star Hip Hop þar sem upprennandi tónlistarmenn eru gjarnan uppgötvaðir. Í kjölfarið segir Lexi að rapparinn og tónlistarframleiðandann Southside hafi hringt í sig og boðið sér takt undir lögin sín. „Hann sagðist fíla lagið okkar og spurði hvort við vildum kaupa af þeim takt fyrir fleiri lög. Ég millifærði á hann peninga en ákvað að taka þetta skrefinu lengra og kaupa mér miða til Atlanta í ágúst 2014. Ég held að Southside hafi dáðst að drifkraftinum í mér því hann var mættur til að taka á móti mér á flugvellinum. Hann bauð mér lítinn samning sem fól í sér aðstoð hans og meðlima 808 mafia. Ég fékk að búa hjá einum þeirra, TM 88, fyrstu þrjá mánuðina mína í Atlanta.“

94347732-82EC-4A61-82FD-F289CF6BEECC
808 mafia er þekkt hip-hop framleiðsluteymi sem stendur á bak við mörg vinsælustu rapplögin um þessar mundir. Það hefur unnið með tónlistarmönnum á borð við Future, Drake og Young Thug.

808 Mafia tók Lexa opnum örmum og kynntu hann fyrir drykknum lean, þar sem Sprite er blandað í hóstasaft. Götuverð hóstasaftar hefur snarhækkað eftir að Actavis tók vöruna sína af markaði vegna misnotkunar og segir Lexi þá hafa borgað 2500 dollara fyrir flöskuna. „Ég var staddur í höll rapparans Waka Flocka kvöldið sem ég prófaði lean í fyrsta skiptið. Þeir vöruðu mig við því að þetta væri sterkt. Ég er hins vegar með gott þol fyrir lyfjum því ég hef þurft að taka þau inn síðan ég var lítill vegna geðhvarfasýki, kæfisvefns og fleira. Ég endaði á að standa einn eftir þegar allir hinir voru rotaðir. Morguninn eftir stóðu þeir yfir mér, veifuðu tómri flöskunni, og voru gáttaðir á að ég væri enn á lífi eftir að hafa klárað hana alla.“

Dvölin í Atlanta tók sinn toll en Lexi segir sig hafa búið í einu hættulegasta hverfi Bandaríkjanna, svokölluðu Zone 6 í Austur-Atlanta. Þar eru skotárásir algengar og mikil klíkustarfsemi við lýði. „Ég var vitlaus fyrst þegar ég kom og hélt að ég, hvítur maður, gæti gengið einn um götur bæjarins. Vinir mínir spurði hvort ég væri klikkaður og sögðu mér að fara ekki út óvopnaður eða án fylgdar. Þar með hætti ég á að vera tekinn af lögreglunni, vera vísað úr landi og mega aldrei koma aftur inn fyrir landamærin. Það kom tímabil sem ég svaf varla í 90 daga. Við bjuggum nokkrir saman og það voru átta byssur í húsinu. Ég varð að flytja eftir að íbúðin okkar var skotin upp. Stressið við það að vera í þessu umhverfi gerði mig vitlausan. Ég er óþekkjanlegur á myndum af þessum tíma, þetta fór svo illa með mig.“

Atlanta er talin mekka rappsenunnar í dag. New York átti tíunda áratuginn en Atlanta er talin ala af sér það ferskasta í dag, líkt og Gucci Mane, Future, Young Thug, 2 Chainz og iLoveMakonnen.
Atlanta er talin mekka rappsenunnar í dag. New York átti tíunda áratuginn en Atlanta er talin ala af sér það ferskasta í dag, líkt og Gucci Mane, Future, Young Thug, 2 Chainz og iLoveMakonnen.

Aðspurður hvort hann geti deilt með lesendum myndum frá Atlanta segir umboðsmaður hans svo ekki vera, en tölvan hans hrundi fyrir nokkrum mánuðum. Sjá má nokkrar myndir og myndbönd á Instagram prófílnum hans.

Lexi kom aftur heim til Íslands eftir ágreining milli hans og meðlima 808 mafia. Hann kom sér í samband við framleiðandann Reazy Renegade sem aðstoðaði við nýjustu plötu hans. „Það er gaman að vera kominn aftur og finna fyrir áhuga á tónlistinni minni. Ég er að bóka mig á gigg og umboðsmaðurinn minn tekur á móti öllum beiðnum. Ég vil bara gefa til baka, gefa fólkinu eitthvað sem það hefur ekki séð áður. Ég hef haldið mig á hótelum úti á landi því ég þarf frið til þess að skapa. Mér er sama um frægðina og er vel stæður í dag.“

Hvaðan koma peningarnir?

„Ég er „ghostwriter“ skrifa texta fyrir erlenda rappara.“

Þegar Lexi rýnir í framtíðina sér hann sig giftan unnustu sinni með tvö börn. Þau eru búsett í Grikklandi, kannski á Ítalíu og Lexi lætur af störfum þrítugur til að njóta lífsins. Hann er búinn að hanna fatalínu fyrir bæði konur og karla og skilur eftir sig farsælt plötufyrirtæki. „Ég er kominn með gott teymi hérna heima og búinn að ráða til mín hæfileikaríkt fólk í plötufyrirtækið mitt, b2b. Hægt en örugglega vinn ég mig á toppinn enda 24 ára með 50 ár á bakinu.“

 

The post Hver er Lexi Picasso? appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652