Guðjón Friðriksson sagnfræðingur þekkir vel til sögu Reykjavíkur. Hann segir að á fyrri hluta 20. aldar hafi nokkrir staðir haft á sér rómantískan blæ.
„Suðurgatan var oft kölluð ástarbraut og þangað fóru ungir elskendur, eða fólk sem var að draga sig saman. Það gekk gjarnan þarna um og fór inn í kirkjugarðinn sem þá var kannski fegursti bletturinn í borginni. Hólavallakirkjugarður var bæði gróðursæll og friðsæll á þeim tíma,“ segir Guðjón.

„Svo fór nú orð af því að stelpur sem voru að slá sér upp með sjóliðum, sem komu oft hingað á þessum tíma, færu vestur á mela með þeim. Fólk fór mikið út í Örfirisey. Þá var ekki bílfært þangað og gengið var eftir mjóum hafnargarði til að komast í lautir og hóla sem þótti rómantískt. Þegar ég var á menntaskólaaldri fór fólk á bílum út í Örfirisey og síðan var bílunum lagt og fólk fór eitthvað í kelerí. Ég man alltaf eftir því að einn bekkjarbróðir minn í menntaskóla fékk lánaðan bíl pabba síns og við fórum stundum í gamni þangað. Þá slökkti hann á ljósunum og ók hægt upp að bílunum sem fólk var að kela í og kveikti svo skyndilega á háu ljósunum. Þá varð auðvitað uppi fótur og fit í bílunum!“

Guðjón segir að á þessum tíma hafi verið þrengra um fólk og stórar fjölskyldur voru kannski saman í tveimur herbergjum. „Áður en fólk eignaðist bíla var ekki um annað að ræða en fara eitthvert.
Þetta er allt öðruvísi nú þegar fólk hefur eigin herbergi og nóg er af vistarverum. Í dag eru líka allir þessir barir og veitingahús. Það breyttist margt þegar bílarnir komu – um allan heim. Bílarnir gáfu fólkinu frelsi. Þá fór fólk að fara út úr bænum, upp að Kolviðarhóli, að Lögbergi eða Geithálsi. Gjarnan þar sem voru veitingastaðir.“


The post Rómantík í Reykjavík appeared first on Fréttatíminn.