Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Svikinn sem barn – 35 ár á stofnunum

$
0
0

Sigurður Hólm Sigurðsson, 49 ára fangi á Litla-Hrauni, fannst látinn í klefa sínum 17. maí árið 2012. Rúmu ári síðar voru Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson ákærðir fyrir stórfellda og hættulega líkamsárás sem hefði leitt hann til dauða. Árið 2013 var ákært í málinu. Rannsókn þess hefur verið gríðarlega umfangsmikil og ekkert til sparað. Byggð var nákvæm eftirlíking fangaklefans og ótal sérfræðingar hafa verið kallaðir til. Búist er við að dómur verði kveðinn upp á næstu vikum.

En þótt rannsóknin á dauða hans hafi verið dýr og ekki hafi verið horft í aurana þegar kom að því að loka hann inni á stofnunum, er ekki þar með sagt að íslenskt þjóðfélag hafi verið með opinn faðminn þegar hann var lítill og hræddur drengur sem þurfti á stuðningi að halda til að hefja lífið.

Lögheimili á Hrauninu

„Hann gekk aldrei lengi laus, það má nánast segja að hann hafi átt lögheimili á Litla-Hrauni, frá því að ég kynntist honum fyrst,“ segir vinur hans úr fangelsinu sem var síbrotamaður líkt og hann þar til fyrir nokkrum árum að hann gati snúið lífi sínu við. „Það kom mér ekki á óvart að lífi hans lauk á þennan hátt.“

2010 hóf Sigurður Hólm enn eina afplánunina fyrir ýmsa smáglæpi en í þetta sinn átti hann ekki afturkvæmt úr fangelsinu nema í nokkra daga. Þá var hann fluttur aftur í gæsluvarðhald, en þar endaði hann daga sína.
„Ég frétti af honum nokkrum dögum áður en hann lenti inni. Hann var rosalega illa farinn, var nánast við dauðans dyr af neyslu,“ segir æskuvinur hans úr fangelsinu.
„Hann hafði horast gríðarlega og neyslan var algerlega stjórnlaus. Það má segja að fangelsið hafi nánast bjargað lífi hans í nokkur skipti, eins einkennilega og það hljómar.“

Innmúraður Hraunari

„Sigurður Hólm var frekar rólegur, stríðinn og brosmildur náungi, eiginlega ljúflingur en þegar hann var undir áhrifum varð hann stjórnlaus, stal því sem hann kom höndum yfir og gat verið ofbeldisfullur,“ segir æskuvinurinn úr fangelsinu.
Hann segist hafa verið fjórtán ára þegar þeir kynntust á Hlemmi, þar sem uppreisnargjarnir krakkar, pönkarar, rónar og utangarðsmenn blönduðu geði. Þar var Bjarni móhíkani, Siggi pönk, Pési, Lalli Johns og fleiri. Menn skiptust á sjússum, reyktu hass og skiptust á töflum eða tóku spítt.
„Þegar ég var 18 ára var ég sendur á Litla-Hraun og þá hittumst við aftur, hann var þá um tvítugt og við urðum ágætis vinir. Hann var þá orðinn innmúraður Hraunari, eins og það var kallað. Ég átti eftir að verða það líka. Ég sat af mér um ellefu ár áður en ég náði að rétta mig við. Við vorum félagar megnið af þessum tíma. Hann var mér nánari en nokkur bróðir.“
En þrátt fyrir þetta segir félaginn í fangelsinu að þeir hafi lítið rætt um fortíðina. „Það gerðu menn bara yfirleitt ekki. Svo var nánast eins og hann skammaðist sín. Hann var með ljót ör á líkamanum og ég vissi að hann hafði orðið fyrir hræðilegu ofbeldi sem barn.“

Nær dauða en lífi

Sigurður Hólm bjó með móður sinni og yngri systur í Bjarnaborg á horni Vitastígs og Hverfisgötu fyrstu árin, en þar voru íbúðir fyrir fátækt fólk og fjölskyldur í erfiðleikum, á vegum Reykjavíkurborgar. Þrjár eldri hálfsystur hans ólust upp hjá ættingjum, en tveir eldri hálfbræður hans voru á barnaheimilinu á Kumbaravogi.
Fimm ára var hann fluttur nær dauða en lífi á sjúkrahús eftir að lögregla fann hann ráfandi um á Hverfisgötunni. Hann var vart nema skinn og bein, maginn uppblásinn eins og hjá börnum sem hafa ekki nærst í langan tíma. Hann var brotinn á báðum framhandleggjum og upphandlegg, afmyndaður í andliti af barsmíðum, nefbrotinn, með skaddaða vör og með ljót för á hálsi og höndum. Samkvæmt lögreglunni gat hann ekki talað og starði bara út í loftið þegar á hann var yrt.
Sigurður Hólm var fluttur á sjúkrahús en læknisskoðun leiddi í ljós að misþyrmingarnar hefðu staðið lengi yfir, þar sem bæði framhandleggsbrotin virtust vera gömul. Á sínum tíma kom fram að þetta væri versta barnaverndartilfelli sem sést hafði á Íslandi í áratugi.

Lítill og umkomulaus

Eftir fjölskylduharmleikinn í Bjarnaborg var hann sendur á barnaheimilið á Kumbaravogi en þar voru tveir bræður hans fyrir. „Ég man vel eftir deginum þegar hann kom. Hann var svo lítill, hræddur og umkomulaus, enn í gipsi og efri vörin saumuð saman,“ segir kona sem var barn á Kumbaravogi á þessum tíma. „Ég man að mér fannst að hann hefði verið sætur lítill strákur en andlitið var afmyndað. Þá var hann með skurði á höndum og fótum, því hann hafði verið bundinn og böndin höfðu skorist inn í holdið.“
Hún segir að það hafi verið rætt við krakkana, sem voru alls fjórtán talsins, og þeim bannað að ræða við hann um ofbeldið sem hann hafði orðið að þola. „Það var sjálfsagt hugsað til að vernda hann en við stelpurnar vorum ekki alveg á því. Við fórum gjarnan með hann afsíðis þegar enginn sá til og spurðum hann út í hvað hefði komið fyrir.“

Hefði þurft meira

Hún segist oft hafa hugsað það síðan, hvað það hafi verið harkalegt að setja svona lítið barn á heimili eins og Kumbaravog eftir þessa lífsreynslu. „Það fór lítið fyrir honum, hann var hljóðlátur og ljúfur. Hann hefði þurft meiri kærleika og skilning ef hann hefði átt að vinna úr áfallinu,“ segir hún.
Sigurður Hólm bjó á Kumbaravogi næstu tíu árin, þar til hann var fimmtán ára. „Það var enginn sérstaklega vondur við hann á Kumbaravogi. En það var enginn sérstaklega góður við hann heldur,“ segir uppeldissystir hans.
Seinna komumst mál barnaheimilisins á Kumbaravogi í hámæli og erfitt líf barnanna þar. Þar var barnaníðingurinn Karl Vignir Þorsteinsson tíður gestur en hann hefur játað fyrir lögreglu að hafa misnotað þrjá drengi á heimilinu þessum tíma.

Ráku upp stór augu

Sigurður Hólm var yngstur þegar hann kom í fyrsta sinn að Litla Hrauni, sextán ára, en fangelsið átti eftir að verða heimili hans næstu árin innan um fíkla, alkóhólista, harðsvíraða ofbeldismenn, barnaníðinga og þjófa. „Ég man að við rákum upp stór augu þegar hann mætti í afplánun. Ég fékk eiginlega sjokk. Hann var svo ungur og barnalegur og átti greinilega ekki heima þarna,“ segir Bárður R. Jónsson sem var í fangelsi þegar Sigurður Hólm mætti þangað í fyrsta skipti.

Hann féll þó fljótlega inn í hópinn í fangelsinu og var fljótlega farinn að spila póker upp á sígarettur. „Hann var mjór og uppburðarlítilll, hafði sig lítið í frammi í fangelsinu en þar var lifað eftir reglunni, sá sem er frekastur fær mest,“ segir annar fangi sem þekkti Sigurð vel úr fangelsinu. „Hann fékk fljótlega nafnið Siggi Póló enda eyddi hann öllum vasapeningunum sínum í kók og prins póló.“

Eftir því sem árin liðu kom Sigurður og fór úr fangelsinu. Hann þótti góður félagi, æfði lyftingar inni og spilaði fótbolta. „Sigurður var svolítið barnalegur, enda hafði hann ekki fengið mikla tilsögn í lífinu, en hann var alls ekki vitlaus,“ segir æskuvinur hans úr fangelsinu. „Hann var alltaf hress og skapgóður, en tengdist ekki mörgum nánum böndum í fangelsinu. Eftir á að hyggja, var það svolítið einkennandi fyrir hann.“
Kristján Friðbergsson, forstöðumaður barnaheimilisins á Kumbaravogi, reyndist Sigurði betri en enginn, heimsótti hann í fangelsið og færði honum ýmislegt sem hann vantaði og þá átti Sigurður eldri bróður sem leit til með honum.

Á vergangi

Áfengis- og fíkniefnaneysla Sigurðar fór vaxandi ár frá ári og utan fangelsisins var hann í samfelldri neyslu, smáglæpum og dópsölu til að standa straum af neyslunni.
„Ég held að hann hafi í raun meira og minna verið á vergangi þegar hann var ekki innan fangelsismúranna,“ segir æskuvinurinn. „Hann kunni ekki að eiga heima neins staðar annars staðar. Þetta var þessi venjulegi vítahringur fíkilsins. Maður kemur í fangelsið og ætlar að breytast í þetta sinn. Hætta allri neyslu, verða betri maður. Eftir nokkra daga í fangelsinu kemst maður yfir þetta, fær eitthvað efni og einhver lyf og dofnar upp aftur. Þegar maður kemur út fer allt í sama farið.“
Hann bendir á að í gamla daga hafi ekkert beðið manna utan fangelsisins sem voru búnir að brenna allar brýr að baki sér. Oft hafi menn átt smávegis pening eftir vinnu í fangelsinu en alls ekki alltaf. Sumir hafi átt fjölskyldu sem þeir hafi getað leitað til en alls ekki allir.
„Okkur var bara hleypt út, við tókum rútuna í bæinn og fórum að safna upp í næstu afplánun. Stundum komu menn fljótt aftur. Ég held að Siggi hafa samt nánast slegið eitthvert met þegar honum var hleypt út einn morguninn, en lokaður aftur inni um kvöldið. Þá hafði hann náð að brjóta af sér á Selfossi á leiðinni í bæinn.“

Ónauðsynlegt fórnarlamb

Sigurður Hólm Sigurðsson varð einungis 49 ára en varði 35 árum á stofnunum. Hann fékk samtals 32 fangelsisdóma og var samanlagt dæmdur til 26 ára fangelsisvistar. Hann var bak við lás og slá í alls 25 ár en gera má ráð fyrir að það hafi kostað samfélagið um 250 milljónir króna. Þá var hann tíu ár á barnaheimilinu Kumbaravogi. „Hann var skilgreint afkvæmi stofnanamenningar íslenska ríkisins og gat aldrei lifað sjálfstæðu lífi, vegna þess að hann fékk aldrei þá aðstoð sem hann þurfti,“ segir Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga. „Sigurður var veikur og þetta voru allt litlir glæpir og ónauðsynlegir, Um allt kerfið er fjöldinn allur af ónauðsynlegum fórnarlömbum. Hann hefði þurft markvissa hjálp strax og hann lenti inni í fangelsi og í raun miklu fyrr.“ Guðmundur Ingi segist engan þekkja inni í fangelsi sem ekki vilji vera eitthvað annað en afbrotamaður og fíkill. „Fangar fá bara ekki tækifæri til þess. Það er erfitt fyrir fíkla að vera edrú árum saman inni í fangelsi, jafnvel þótt þeir vilji taka sig á. Það er nóg af efnum inni í fangelsinu og læknadópið er ekki best. Það er mjög dýrt fyrir skattgreiðendur að hafa menn eins og Sigurð inn og út úr fangelsum alla ævi. Það væri miklu ódýrara að senda menn í markvissa meðferð, jafnvel í nokkur ár. Það myndi líka spara miklar þjáningar,“ segir Guðmundur Ingi.

Endastöðin

„Ég sá hann í síðasta sinn fyrir utan Bónus við Hallveigarstíg, rétt áður en hann dó,“ segir Bárður R. Jónsson. „Við skiptumst á nokkrum orðum og hann bar sig ágætlega. Reyndi ekki að slá mig um pening eða sígarettur eins og hann væri útigangsmaður. En hann bar þess auðvitað merki að vera tæplega fimmtugur, fíkniefnaneytandi og síbrotamaður. Það þolir þetta enginn til lengdar. Stundum er fólk bara komið á endastöð,“ segir hann.
„Hann var jarðaður í kyrrþey og bara nánasta fjölskylda viðstödd. Ég náði því ekki að fylgja honum til grafar. Mér fannst það svolítið leiðinlegt af því að við vorum samferða næstum því alla ævina. Auðvitað hefði ég átt að kveðja hann,“ segir æskuvinur hans úr fangelsinu. „En við því er ekkert að gera.“

 

The post Svikinn sem barn – 35 ár á stofnunum appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652