Eigandi íbúðar, sem metin er stórhættuleg vegna myglusvepps, segist vel geta búið í íbúðinni. Húsfélagið hefur krafist þess fyrir héraðsdómi að eigandinn selji íbúðina sína. Farga þurfi öllum innréttingum og innbúi.
Eigandi íbúðar, sem metin er stórhættuleg vegna myglusvepps, er arkitekt og hefur unnið að bæjarskipulagi og ýmiskonar skipulagsmálum. Hann hefur ekki hugsað sér að flytja úr íbúðinni.

Íbúðin er í fjölbýlishúsi í Vesturbæ Reykjavíkur. Í lok janúar var mál húsfélagsins gegn honum þingfest fyrir héraðsdómi Reykjavíkur og þess krafist að hann selji íbúðina. Beðið er dómsniðurstöðu. Að sögn annarra íbúa í blokkinni hefur húsfélagið reynt að fá manninn til að bregðast við myglusveppnum í íbúðinni í bráðum fjögur ár. Ítrekaðar tilraunir hafi verið gerðar til að fá manninn til grípa til aðgerða svo sveppurinn dreifist ekki í aðrar íbúðir.
Tvær verkfræðistofur hafa gert úttekt á íbúðinni og bent á að hún sé ekki íbúðarhæf. Önnur skýrslan er frá 2013 og hin 2014. Heilbrigðiseftirlitið komst að sömu niðurstöðu. Viðgerðir þoli enga bið og að það sé brýnt heilsufarsmál eiganda íbúðarinnar og nærliggjandi íbúða að ráðið verði niðurlögum sveppsins. Farga verði öllu innbúi, endurnýja þurfi alla glugga, svalahurð, öll gólfefni og innréttingar. Þá þurfi að slípa útveggi og hreinsa einangrun af útveggjum fyrir enduruppbyggingu. Alla innanstokksmuni þurfi að flytja úr íbúðinni út um svaladyr svo myglugró dreifist ekki á stigagang eða í aðrar íbúðir.
„Þetta eru stór orð,“ segir íbúðareigandinn. Aðspurður um hið óvenjulega háa rakastig íbúðarinnar, sem skýrslurnar benda á, svarar hann: „Ég finn ekki fyrir því.“

Fulltrúar annarrar verkfræðistofunnar mættu á húsfund í blokkinni og fóru ítarlega yfir athugasemdirnar með eiganda íbúðarinnar. Hann hafi samt ekki brugðist við.
Maðurinn segist ekki hafa vitað að málið væri komið til héraðsdóms og var ekki viðstaddur þingfestinguna. „Það er óvenjulegt að fólk mæti ekki og taki til varna í svona máli,“ segir Eiríkur Gunnsteinsson, lögmaður húsfélagsins. „Ítrekað hefur verið reynt að fá íbúann til að bregðast við. Gerð var verkáætlun sem ekki var farið eftir og því gafst húsfélagið upp og leitaði réttar síns.“

„Ég hef reynt ýmislegt til að útrýma sveppnum en ég verð að kynna mér málið betur,“ segir maðurinn.
Einn íbúa í húsinu reyndi fyrir skemmstu að selja íbúð sína en kaupsamningnum var rift þegar kaupendur komust að því að nærliggjandi íbúð væri þakin myglusveppi.

The post Hyggst búa áfram í myglaðri íbúð appeared first on Fréttatíminn.