„Ég lá í götunni, særð og hrædd. Fann fyrir gríðarmiklum verkjum; tvær byssukúlur. Merde! Þetta er þá að gerast hugsaði ég. Svo hringdi ég í Finnboga” Caroline Courriouix er ein þeirra sem lifði af skotárásirnar í París, 16. nóvember. Í þessari viku steig hún í fyrsta skipti upp úr hjólastól sem hún hefur verið bundin við í tvo mánuði. Hún er búsett í Montmartre hverfinu þar sem hún býr ásamt unnusta sínum, Finnboga Rúti Finnborgasyni . Þau kynntust í Damaskus í Sýrlandi þar sem Finnbogi var við nám í arabísku, en flúðu land 2011 þegar borgarastyrjöldin braust út. “Ásrásirnar hafa ekki breytt okkur, við erum enn sama fólkið. Kannski vegna þess að við erum stöðugt umkringd af góðum vinum og fjölskyldu. Við erum gæfurík – það er það sem heldur okkur gangandi. Við stefnum á að ferðast meira, flytja jafnvel til Mið-Austurlanda.”
Æðruleysið og krafturinn hjá þessu unga fólki er í raun magnað. Caroline Courriouix er frönsk og Finnbogi Rútur Finnbogason íslenskur, þau eru bæði innan við þrítugt og tala um borgarastyrjaldir, arabíska vorið, hryðjuverkaárásir sem þau hafa upplifað á eigin skinni af ótrúlegri hugarró. Þau búa saman í lítilli íbúð í Montmartre hverfinu, hann lærir heimspeki og alþjóðafræði við Háskólann í Sorbonne á meðan hún vinnur í listageiranum í París. Örlögin leiddu þau saman í Damaskus í Sýrlandi þar sem Finnbogi var við nám í arabísku, en hún var á ferðalagi. Finnbogi þurfti svo að flýja land vegna borgarastyrjaldarinnar. Fór aftur heim til sín í París þar sem þau tóku aftur upp þráðinn og eru búin að vera saman síðan.
Hvað dró þig til Damaskus?
„Ég kom þangað fyrst 2006 með fjölskyldu minni, við ætluðum til Líbanon en þá skall á stríð í suðurhluta landsins og við breyttum ferðaáformum okkar og fórum til Sýrlands í staðinn og eyddum tveimur vikum þar. Ég varð algjörlega heillaður af Damaskus og þegar ég byrjaði mitt háskólanám í Reykjavík ákvað ég mjög fljótlega að drífa mig til Damaskus að læra arabísku. Ég var í Damaskus í eitt og hálft ár, kom haustið 2009 en færði mig síðan yfir til Jórdaníu um það leyti sem deildinni minni í háskólanum var lokað. Þetta var allt að gerst í byrjun 2011; arabíska vorið, Egyptaland féll, svo Líbýa. Síðan byrjuðu átökin í Sýrlandi, yfirvöld lokuðu landamærunum og ég komst ekki aftur í skólann.“
„Mér fannst aldrei líklegt að arabíska vorið myndi ná til Sýrlands, fannst það í raun fráleitt. Mér fannst Sýrland ekki stríða við sömu vandamál og nágrannalöndin. Ég skynjaði mjög sterkt hve allt var á fleygiferð, allt virtist opið, frjálst, viðskiptin stöðugt að aukast sem og ferðamennskan, hótelin urðu stærri og dýrari, úrvalið varð meira í mat og drykk. Þegar landið var opnað á sínum tíma fór mikil og jákvæð dýnamík í gang. Millistéttin óx hratt, það var friður í Damaskus og mikil og skemmtileg stemning í borginni.“
„Mér fannst Damaskus alveg ótrúlega falleg,“ segir Caroline. „Mikil gæska hjá öllu mannfólkinu. Allir svo hjartahlýir og góðir við mann. Og þarna urðum við ástfangin.“

Við lifðum af
Í síðustu viku komst Caroline loksins úr gifsi og hjólastól; stóð upprétt í fyrsta sinn í þrjá mánuði. Hún segir það ótrúlega tilfinningu að geta gengið aftur. Eftir að hafa verið særð á báðum fótleggjum og legið tvær vikur á sjúkrahúsi, dvalið þrjá mánuði í foreldrahúsum, fimmtíu daga samfleytt í sama rúminu, nánast ósjálfbjarga er hún loksins orðin frjáls. „Mér finnst ég hafa lifnað við. Ég er upprisin! Komin aftur heim til mín í íbúðina í París. Þetta lítur satt að segja mjög vel út, ég á eftir að ná mér að fullu, vonandi, verð með svona 5% örorku sem á ekki eftir að hamla mér mikið. Sem betur fer er ég ekki ballettdansari eða skíðakona!“
En hvað gerðist þetta föstudagskvöld þrettánda nóvember?
„Við vorum nýkomin úr ferðalagi frá Íran. Komum kvöldið áður. Ég ákvað að kíkja niður í bæ og fá mér rauðvínsglas með vinkonu minni, Alice, á kaffibarnum Le Carrillon. Þegar við heyrðum skothvelli héldum við fyrst að þetta væru flugeldar. En svo gerðist þetta æ háværara og ógnin þyrmdi yfir okkur. Við vissum ekkert hvað var að gerast fyrr en við sáum eldglæringarnar. Þetta var fyrsti staðurinn sem var ráðist á. Þarna hófust skotárásirnar þetta kvöld. Svo fékk ég fyrsta skotið og féll í götuna. Vinkona mín sömuleiðis. Fyrstu byssukúlurnar þeyttu okkur niður og það hefur sjálfsagt orðið okkur til lífs, að við féllum niður svona snemma. Alls staðar í kringum okkur lést fólk. Við vorum ótrúlega heppnar. Við lifðum af.“
„Ég komst samt ekki á gjörgæsludeild fyrr en eftir þrjá tíma, það voru svo margir særðir sem þurftu hjálp. Það var farið með okkur í fyrstu í sjúkrabíla út fyrir borgina, enn verið að leysa ástandið á Bataclan. Þetta voru alls þrír tímar sem liðu, frá því að ég var skotin og þangað til að ég komst undir læknishendur, þeir liðu hægt og sérkennilega á meðan verið var að girða allt af, loka öllum götum. Þetta virtist líða endalaust. En þrátt fyrir allan örvæntinguna fannst mér magnað að fylgjast með öllu þessu fólki að störfum. Það var mjög fallegt og manneskjulegt að sjá það vinna svona hratt og vel og gera alveg ótrúlega hluti undir gríðarmiklu álagi.“

Fjandinn, er þetta að gerast!
Sástu aldrei árásarmennina?
„Nei, aldrei. Ég var skotin, féll niður. Sá ekkert. Ég er ekki viss um að nokkur maður á þessum kaffibar hafi séð þá. Samt voru þeir einungis í tveggja metra fjarlægð. Þeir voru sennilega þrír eða fjórir. Við vitum það ekki enn. Þeir sem sáu árásarmennina greinilega hafa líklegast verið myrtir.“
Hvað fór í gegnum hugann þegar þú lást þarna og hafðir áttað þig á að þú vars varst stödd í miðri hryðjuverkaárás?
„Ég bara bölvaði hressilega! Merde, merde, merde! Fjandinn þetta er þá að gerast. Svo fór ég að hugsa um að fela mig, liggja á jörðinni og láta lítið fyrir mér fara. Hvernig get ég varið mig? En manni dettur ekkert gáfulegt í hug á svona stundu. Maður veit að þetta er að gerast og það er ekkert sem breytir því. Svo hringdi ég í Finnboga.“
„Ég sá bara skilaboðin í símanum – að hún hefði verið skotin og ég þyrfti að koma strax. Þannig að ég kom samstundis með leigubíl,“ segir Finnbogi.
Hvernig var aðkoman?
„Ég fékk ekki að sjá Caroline. Það voru herlögreglumenn alls staðar. Búið að girða allt af. Hvarvetna mátti sjá sjúkraflutningamenn bera út látna og særða. Það var mikil spenna í loftinu og ég fékk ekkert að vita. En það var þarna maður sem var með Caroline sem leyfði mér að heyra í henni gegnum síma og þá vissi ég að hún væri á lífi og væri á leið á spítala. Svo ég fór þangað tveimur tímum seinna og hitti hana þar.“
Að verða fyrir hryðjuverkaárás er ekki venjuleg lífsreynsla. Hafa þessar árásir breytt þér eitthvað Caroline?
„Nei, það held ég ekki. Það á samt eftir að koma í ljós. Ég er auðvitað nýskriðin upp úr hjólastól, ég er farin að ganga á ný. Ég er ekki búin að fara á kaffihús, bar eða veitingahús eftir að þetta gerðist. Kannski á ég eftir að verða hrædd. Ég veit það ekki ennþá. En að öðru leyti er ég sama manneskjan, en ég á örugglega eftir að upplifa einhver eftirköst, einhverja hræðslu sem ég hef aldrei fundið fyrir áður. Ég er meðvituð um þetta og það er eðlilegt að upplifa slíkt eftir svona áfall. En mér finnst ég ekki hafa breyst – og ég ætla ekki að láta þessa atburði breyta mér. Ég má ekki láta það gerast.“
En þú Finnbogi, hafa þessar árásir breytt þér? Ertu tortryggnari?
„Já, en kannski bara í fyrstu. Ég varð eftir í París og hélt áfram að gera það sem ég er að gera. Maður var afskaplega varfærinn svona fyrstu dagana. Svo kemur þetta alltaf yfir mann öðru hvoru, þetta óöryggi, mjög sjaldan að vísu. Ég labba mikið um París og er mikið úti á kaffihúsum og ég hef ekkert dregið úr því. Mestu áhrifin í fyrstu voru þessi mikla óvissa. Hvað hafði eiginlega gerst? Eftir því sem tíminn leið og maður skildi betur alla þessa atburðarás, leið manni betur.“
Finnst þér hryðjuverkaárásirnar hafa breytt stemningunni í París?
„Eins og er, já. Þetta voru stórar árásir sem hafa vissulega sett mark sitt á borgina. En þetta er tímabundið ástand. París hefur áður gengið í gegnum annað eins, hryðjuverk og stríð. Þetta var stór árás sem hafði stór og mikil áhrif, en París er bara svo miklu stærri. París er STÓRT og mikið fyrirbæri sem er ekki auðvelt að eyðileggja. Fyrir langflesta hér heldur því lífið bara áfram.“
Viðbrögð almennings friðsæl og yfirveguð
En hvað finnst þér þá um viðbrögð stjórnvalda? Stríðsyfirlýsingar, loftárásir í Sýrlandi, neyðarlögin, allar þessar handtökur?
„Mér finnst eðlilegt að ríkisstjórnin bregðist við. Mér finnst líka eðlilegt að þjóðin spyrji sig spurninga. Það er enn að gerast. Það er svo stutt síðan þetta gerðist. Við eigum eftir að sjá hvort þessar aðgerðir stjórnvalda séu réttmætar. Við höfum auðvitað ágætis fordæmi frá Bandaríkjunum þar sem menn fóru sannarlega yfir strikið í viðbrögðum við hryðjuverkum. Mér sýnist samt, og ég held, að viðbrögð franskra stjórnvalda séu þaulhugsuð. Þau voru greinilega vel undirbúin fyrir svona árásir, þau brugðust við hratt, það var greinilega til áætlun, strax frá byrjun.“
Caroline, óttast þú að árásirnar eigi eftir að breyta frönsku samfélagi?
„Nei, ekki raunverulega. Fylgi Front National var mikið fyrir þessar árásir og ég held að þær hafi ekki aukið fylgi hægri-öfgamanna. Mér fannst raunar jákvætt að sjá hin almennu viðbrögð, þau voru friðsæl og yfirveguð. Maður hefur auðvitað vissar efasemdir með þessi neyðarlög en ætli maður verði ekki bara að treysta stjórnvöldum í þessu. Þetta eru mjög flóknar og erfiðar kringumstæður, það er því erfitt að gagnrýna viðbrögð stjórnvalda. Hvað eiga þau að gera? Ég held þau séu að reyna að gera það besta í stöðunni.“

Ætla að læra arabísku
En framtíðin? Hvað tekur við hjá ykkur?
„Nú er það endurhæfing. Koma löppunum í gang sem fyrst. Ég get ekki ferðast mikið eins og er. Við erum föst hér í Montmartre, sem er svo sem ekki slæmt. Ég má samt ekki fara í flugvél en ég get tekið lest. Ég er farin að sakna þess að vera frjáls, geta farið um, gert það sem ég vil. Eins og er þarf ég manneskju til að hjálpa mér hvert sem ég fer.“
„Hún er vanalega alltaf með eitthvað á prjónunum,“ segir Finnbogi, „hún er alltaf að gera eitthvað. Þetta bindur hana niður eins og er. Manneskja sem er alltaf í fimmta gír og er allt í einu sett í handbremsu. Hún er samt sem áður óstöðvandi!“
„Það fyrsta sem ég ætla að gera er að læra arabísku og sjá Atlantshafið,“ segir Caroline. „Finnbogi talar arabísku og ég fer á fullt eftir tvær vikur hjá Arabísku menningarstofnuninni í París og svo kannski bara að flytja til Mið-Austurlanda. Það gæti verið spennandi! En fyrst er það Atlantshafið. Við þurfum að komast til Bretaníu eða Normandí, finna fyrir hafinu, fá kraftinn þaðan. Svo væri gaman að fara til Íslands í sumar.“
Þið eruð uppfull af krafti og bjartsýni – jafnvel eftir svona hrylling – hvernig farið þið að því?
„Hvað annað?,“ spyr Finnbogi. „Lífið er gott, uppfullt af tækifærum. Við erum umkringd góðu fólki, vinum og fjölskyldu, við erum enn með íbúðina okkar hér í Montmartre.“
„Við erum gæfurík,“ segir Caroline. „Það fylgir okkur einhver gæfa, Ég finn það sterkt. Svo hef ég aldrei kunnað að stoppa. Maður verður bara að halda áfram, sama hvað gerist.“
Freyr Eyjólfsson
ritstjorn@frettatiminn.is
Myndir: Oddlaug Árnadóttir.
The post Við erum gæfurík appeared first on Fréttatíminn.