Ég tók mér frí frá vinnu nú í vikunni til þess að skreppa upp í sumarbústað með fjölskyldunni. Hlaða batteríin, spila yatzy og tala illa um fólkið í stóru eignabústöðunum hinum megin við veginn. Ég keyrði hægt upp brekkuna sem liggur að sumarhúsahverfinu en vegurinn var eitt klakabúnt og sá að á móti okkur kom hvítur jeppi úr nokkurri fjarlægð. Svona af því að ég var ekkert að flýta mér og auðvitað líka af því að ég er svo þroskaður og yfirvegaður, renndi ég skódanum út í vegkant og beið til að hleypa honum framhjá. Jeppinn þokaðist í áttina til ykkar, þar sem við biðum og fór hægt yfir. Þegar hann átti svona tíu metra í okkur sá ég að bílstjórinn lenti í vanda. Hann virtist ætla að beygja lengra yfir á hægri vegkantinn en sat fastur í hjólförunum og rann stjórnlaust áfram. Þetta gerðist allt á hraða snigilsins og engin hætta á ferðum en svona til þess að bílarnir rispuðust ekki, ef þeir rækjumst saman, bakkaði ég okkar bíl aðeins frá. Bílstjóra jeppans var mjög létt, sá ég. En þá gerðist hið ótrúlega. Hann rúllaði bílrúðunni niður og sagði við mig: Thank you.
Ég er ekki vanur því að fólk þakki mér fyrir í umferðinni, hvað þá á útlensku. Það var mjög gleðileg, spennandi og óvenjuleg upplifun.
Þessa tvo daga sem við vorum þarna í bústaðahverfinu rakst ég ekki á margt fólk. Kannski ekki skrítið, ég er ekki maður sem bankar upp á hjá fólki til þess að spjalla að fyrra bragði eða týpan sem mætir óboðin með gítar til þess að halda uppi fjöri (jú, ég er reyndar sú týpa en ég gerði það ekki að þessu sinni). En það vakti þó athygli mína að þeir sem ég hitti í göngutúrum mínum með hundinn eða að vesenast að sækja gaskút í þjónustumiðstöðina, að nágranna mínum undanþegnum, voru útlendingar. Hvernig veistu það? spyrjið þið. Heldurðu kannski að allir sem eru brúneygðir með krullur séu frá Spáni? Nei, ég held það ekki. Ég átti spjall við þetta fólk og veit það þannig.
Og það rann upp fyrir mér að við lifum í nokkurs konar blekkingu hér á landi. Við höldum að við séum ein og að útlendingar séu bara rollur sem við þurfum að smala í rútur og rýja inn að skinni. En fólkið sem hingað kemur er ekki rollur. Þetta er fólk sem kemur hingað, margt hvert á eigin vegum, sem langar að nýta tíma sinn til að gera sem mest; aka, ganga og hjóla um landið. Í okkar augum eru þessir gestir auðlind, eins og sumir hafa komist að orði. Við þurfum að græða á þeim, selja þeim eitthvað, plata þá til að gera þetta eða hitt. Við pirrum okkur á þeim og hneykslumst á þeim fyrir að fara óvarlega í náttúrunni sem við sjálf þykjumst þekkja svo vel. Þetta eru nú meiri bjánarnir, segjum við.
En þetta eru hvorki bjánar né rollur. Þetta er hið venjulegasta fólk sem er að reyna að upplifa eitthvað áhugavert, skelfingu lostið á ísilögðum vegunum, gónandi á fossa og guðdómleg norðurljós. Það er tími til kominn að við sýnum þessum ágætu gestum okkar meiri athygli, veitum þeim meiri upplýsingar og skiptum okkur meira af þeim, leiðbeinum þeim, hættum að selja þeim drasl og vatn á flöskum og pössum að þeir fari sér ekki að voða. Það er á okkar ábyrgð.
The post Þorsteinn Guðmundsson: Rakst næstum því á útlending appeared first on Fréttatíminn.