Yfir 200 konur mættu á stofnfund Félags kvenna í vísindum síðastliðinn fimmtudag. Auður Magnúsdóttir lífefnafræðingur segir karla pota ungum körlum í réttu stöðurnar.
„Það er greinilega mikil þörf á þessum félagsskap. Persónulega átti ég von á svona 20 konum en það mættu yfir 200,“ segir Auður Magnúsdóttir, lífefnafræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu, um stofnfund hins nýstofnaða Félags kvenna í vísindum. Félagið á að stuðla að því að konur í vísindum myndi sterk og varanleg stuðnings- og tengslanet en skortur á þeim er talin vera ein af orsökum kynjahallans í vísindum. Auður segir fjölda kvenna hafa stigið fram á fundinum til að lýsa þungum áhyggjum af stöðunni. „Við fáum færri stöður og minni styrki en það er ekki eitthvað eitt sem hægt er að benda á. Þetta eru ofboðslega mörg lítil atriði sem þrýsta konunum út í eitthvað ósýnilegt horn. Við bara sjáumst ekki. Við vitum vel hver staðan er, því við höfum tölfræðina með okkur, en það er rosalega gott að finna samstöðu og hún var svo sannarlega til staðar á fundinum.“
„Hið almenna viðhorf til vísindamannsins er karl í hvítum slopp en ekki kona með barn á brjósti. Ástandið hjá okkur í íslenskri erfðagreiningu er samt gott enda eru konur í meirihluta í yfirstjórninni,“ segir Auður sem hefur mikil samskipti við fræðasamfélagið og önnur fyrirtæki í sínu starfi. Hún segist oft upplifa það hvernig komið er öðruvísi fram við vísindakonur en karla. „Þeir sem eru hærra settir eru miklu duglegri að ausa hrósi yfir ungu karlana og pota þeim inn á réttu staðina á meðan konurnar virðast vera ósýnilegar, þrátt fyrir að vera jafn hæfar eða hæfari.“
-Konur eru í meirihluta í háskólanum en fá ekki stöðurnar.
-Konur urðu fleiri en karlar á háskólastigi um miðjan 9. áratuginn og eru nú um 2/3 háskólanema.
-26% prófessora eru konur.
-Kerfisbundið brottfall kvenna milli stiga hefur verið nefnt „leaky pipelines“ því konur skila sér í minna mæli en karlar í háskólakennslu.
Auður Magnúsdóttir, sameindalíffræðingur og deildarstjóri hjá Íslenskri erfðagreiningu, er í stjórn hins nýstofnaða Félags kvenna í vísindum. Allar konur sem stunda rannsóknir á öllum fræðasviðum eða koma að vísindavinnu í einhverri mynd eru velkomnar í félagið.
The post Konur í vísindum eru ósýnilegar appeared first on Fréttatíminn.