Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Mildin ætti að vera leiðarljós

$
0
0

Því miður er sú skoðun víða ríkjandi að mannúð og mildi séu ekki fyrirbrigði sem byggjandi er á. Né nothæf sem leiðarljós. Að mannúð og mildi séu eitthvað sem við getum leyft okkur þegar harkan og stífnin hefur skapað nægjanlegt svigrúm. Harkan skal marka stefnuna og stífnin varða leiðina en mildin og mannúðin eru munaður sem fólk getur ekki leyft sér fyrr en á leiðarenda – sem náttúrlega finnst aldrei. Við erum aldrei búin eða alveg komin, segir harkan.
Það má víða sjá merki þessa í samfélaginu. Það hefur lengi verið landlæg trú að fyrst þurfi að byggja upp sterkt atvinnulíf á einhæfum störfum og ágangi á auðlindir. Ef við efnumst af því getum við leyft okkur sköpun, gleði og meiri fjölbreytni í mannlífinu.
Þetta er náttúrlega rakalaus þvæla. Fyrir það fyrsta skapar fjölbreytnin fleiri störf og betur borguð, meiri tekjur og traustari og felur sjálf í sér gjöfulla mannlíf og samfélag. Einhæfnin leiðir til óþarflega viðkvæmrar efnahagslegrar stöðu samfélagsins, krónískrar láglaunastefnu, ágangs á auðlindir og veikrar stöðu meginþorra almennings.
En hvers vegna leggjum við þá trúnað við þessa hugmynd? Að við þurfum fyrst að gera það sem er erfitt og leiðinlegt áður en við getum notið þess sem er skemmtilegt og indælt?
Ætli svona hugmyndir séu ekki innprentaðar í okkur í æsku. Einn daginn vill enginn knúsa okkur nema við notum koppinn. Það hringir því einhverjum bjöllum í hausnum á okkur þegar því er haldið fram að við þurfum fyrst að virkja fljót, byggja síðan álver og vinna þar á vöktum áður en við getum gert það sem við helst myndum vilja.
Og auðvitað er til fólk sem spilar á þessar hnappa innra með okkur. Það heldur því fram að fyrst þurfi að tryggja að fyrirtækin þeirra skili góðum hagnaði og líði vel á allan máta áður en við getum leyft okkur að hugsa um það sem þjónar hagsmunum fjöldans eða það sem flestir njóta og hafa unun af.
Það er í raun magnað hversu auðvelt er að veiða okkur í slíkar gildrur. Lífið er nefnilega ekki svona. Alls ekki. Þvert á móti vill lífið helst vaxa upp af gleði og hamingju okkar, ást og virðingu, mildi og mannúð.
– – – – –
Því hefur líka lengi verið haldið fram að mannúð geti brotið okkur niður. Ef við látum mannúð, mildi og kærleika stjórna verkum okkar muni samfélagið koðna niður af vesaldómi og kæruleysi. Og utanaðkomandi muni ganga á lagið og misnota mildi okkar, meiða okkur og skaða.
Ekki veit ég hvaðan þessi hugmynd er komin. Kannast einhver við þetta úr sínu lífi? Er það virkilega svo að þegar við sýnum öðrum kærleika þá leiði það til ills? Ég kannast ekki við það af eigin reynslu.
Auðvitað höfum við öll upplifað að fólk brást trausti okkar eða að ást okkar var ekki endurgoldin. En lærdómur okkar af þeirri reynslu er ekki sá að hætta að sýna fólk ást og skilning. Það gengur ekki upp að ætla að sýna fólki fálæti og óvild en ætla svo að umvefja það ást sem tekst að brjótast í gegnum múrinn.
– – – – –
Það er einhver slík andleg skekkja sem hefur markað stefnu okkar í innflytjendamálum. Á sama tíma og íslenskt atvinnulíf, og þá einkum ferðaþjónustan, kallar eftir erlendu vinnuafli vill Útlendingastofnun sækja hælisleitendur inn í uppvaskið á veitingahúsum og senda úr landi.
Að baki býr líkast til sú trú að góðsemi geti brotið niður samfélög. Þess eru hins vegar engin dæmi í sögunni. Það hefur engin menning koðnað niður og engin samfélög leyst upp vegna mildi og mannúðar. Það eru hins vegar endalaust mörg dæmi þess að hatrið hafi brotið niður samfélög og eyðilagt.
Þannig eru það þeir sem vilja mæta hælisleitendum, flóttafólki og innflytjendum með tortryggni, andúð og hatri sem eru að mölva niður samfélagið – ekki fólkið sem leitar til okkar í von um mannúð og mildi.
Gunnar Smári

The post Mildin ætti að vera leiðarljós appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652