Nú verður í fyrsta sinn hægt að framleiða löglega vörur úr íslenskri geitamjólk en Jóhanna Bergman Þorvaldsdóttir, geitabóndi á Háafelli, hefur eftir langa baráttu fengið formlegt mjólkursöluleyfi. Þetta er í fyrsta sinn sem gefið er út slíkt leyfi á Íslandi. „Þetta þýðir að ég get selt mjólkina mína frá býlinu og til framleiðslu,“ segir Jóhanna. „Nú get ég selt mjólkina mína til Erpsstaða og látið gera fyrir mig osta þar, en ég hef þurft að gera það á undanþágum hingað til. Þetta þýðir líka að löglegt er að gerilsneyða mjólkina og setja hana á fernur. En þetta er bara fyrsta hænuskrefið,“ segir Jóhanna sem hefur lært geitaostagerð hjá bændum erlendis og hefur lengi dreymt um að framleiða ostana sjálf á Háafelli. „Planið er að auka framleiðslu og fara að mjólka á fullu og vonandi rís hér ostagerð í sumar. Nú getur ekkert stöðvað okkur i ostaframleiðslunni, þó það sé auðvitað ekki enn leyfilegt að gera osta úr ógerilsneyddri mjólk, líkt og gert er annarsstaðar. Það er vonandi næsta skref.“

Kostir geitamjólkur hafa verið þekktir frá örófi alda. Hún er mjög holl og þeim kostum gædd að í hana vantar próteinið sem veldur svo mörgum mjólkuróþoli. Ungbörn þola því geitamjólkin einstaklega vel. „Ég hef látið ógerilsneydda geitamjólk til þó nokkurra ungbarna sem ekki höfðu móðurmjólkina og þoldu hvorki kúamjólk né þurrmjólk. Þau döfnuðu öll mjög vel. Það er ekkert að þeim í dag. Geitamjólkin var það eina sem þau þoldu,“ segir Jóhanna.
The post Loksins leyfilegt að selja geitamjólk appeared first on Fréttatíminn.