Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Var hafnað og hafnað og hafnað og hafnað

$
0
0

Ari Freyr Ísfeld gafst ekki upp á draumi sínum að gerast leiklistarnemi. Eftir fimm ár af neitunum komst hann inn í einn virtasta leiklistarskóla í heimi. 

Í fimm ár hefur Ari Freyr Ísfeld Óskarsson gert tilraun til þess að komast í leiklistarnám. Langþráður draumur varð að veruleika þegar hann fékk inngöngu í einn virtasta leiklistarskóla í heiminum fyrr í mánuðinum. Aðeins 18 komust að í Royal Central School of Speech and Drama af 4500 umsækjendum og er Ari í skýjunum að vera í hópi þeirra.

„Ég ætlaði ekki að þora að opna bréfið og trúði ekki mínum eigin augum. Ég var einn af þeim 18 sem komust inn af 4500 umsækjendum.“ Mynd/Hari

„Frá því ég útskrifaðist úr menntaskóla hef ég sótt eina til tvær prufur á ári, ýmist hérna heima eða úti,“ segir Ari en hann hefur fjórum sinnum sótt inntökupróf í leiklist við Listaháskóla Íslands. Þess á milli vann Ari ýmis störf en hefur aldrei misst sjónar á draumi sínum. „Ég vann á leikskóla, í Borgarleikhúsinu, sótti spunanámskeið, tók þátt í áhugamannaleikhópum og Stúdentaleikhúsinu. Ég gerði það sem ég gat til þess að verða betri leikari.“

Með árunum þróaði Ari með sér aukið sjálfsöryggi og æðruleysi. „Í hvert sinn sem ég fór í prófið ráðlagði fólk mér að hafa bara gaman af þessu. Inntökuprófin eru hinsvegar virkilega stressandi ferli þar sem ókunnugt fólk er að dæma þig út frá örfáum mínútum og það getur verið erfitt að njóta þess. Ég lærði eitthvað af hverju skipti og þegar mér loksins tókst að hafa gaman, þá small þetta.“

„Ég var nýbúinn að fá neitun frá Listaháskólanum þegar ég fékk tölvupóst þess efnis að ég gæti nálgast niðurstöðu úr umsókn minni við Royal Central School of Speech and Drama í London. Ég ætlaði ekki að þora að opna bréfið og trúði ekki mínum eigin augun. Ég var einn af þeim 18 sem komust inn af 4500 umsækjendum. Það var frábær tilfinning.“

Ari er fullur tilhlökkunar að hefja námið og flytur til London í lok október. „Næst á dagskrá er að finna mér stað til þess að búa, sem er hægara sagt en gert í stórborginni. Ég er mjög spenntur fyrir þessu og veit í raun ekkert hvað er að fara gerast.“ Aðspurður um draumahlutverkið er Ari opinn fyrir öllu. „Ég vil túlka fjölbreytt hlutverk en draumakarakterinn minn hefur lengi verið Mikki refur.“

The post Var hafnað og hafnað og hafnað og hafnað appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652