Lilja er að hefja störf um næstu mánaðamót í Landsbankanum þar sem hún mun sjá um eignastýringu fyrir fyrirtæki í einkabankaþjónustu. Hún hlakkar til nýrra áskorana og ekki síst að sjá hvernig mun takast að samræma nýtt starf og stórt heimili.
„Það var alls ekki planið að eiga svona mörg börn, ég var eiginlega ekkert að pæla í því þegar ég varð ólétt í háskólanámi, 22 ára,“ segir Lilja sem á börn á aldrinum 11 mánaða til 12 ára. Aðeins 17 mánuðir eru á milli þeirra tveggja yngstu. Heimilislífið er afar fjörugt og sjaldan dauður tími. „Börnin eru á svo ólíkum aldri að þarfirnar eru gríðarlega ólíkar ég er eiginlega á handahlaupum allan daginn! Stundum eru veikindi og svo eru sýningar og íþróttir og fleira og fleira. Við erum heppin að búa á Seltjarnarnesi sem er draumasveitarfélag þegar kemur að börnum. Þetta er svo sannarlega gaman en ég fer alveg þreytt upp í rúm á kvöldin!“
Mikilvægt að búa sér heilsusamlegt umhverfi
Þrátt fyrir annir og eril gefur Lilja sér alltaf tíma til þess að fara í ræktina og segir það auðvelda rútínu dagsins mikið að vera í góðu formi. „Ég byrjaði að æfa í mömmuleikfimi þegar yngsti drengurinn minn var lítill og ég hef aldrei verið í betra formi en nú; aldrei hlaupið hraðar eða getað lyft meiru eða haft meira þrek og þol. Þetta er það sem ég geri fyrir mig, klukkutími á dag sem ég kem alltaf að. Maðurinn minn er líka duglegur að æfa og svo reynum við að fara reglulega á Esjuna saman og þá tökum við bara tvö yngstu með. Það er svo mikilvægt að búa sér heilsusamlegt umhverfi þegar hættan á streitu er svona mikil – ég er ekki að segja neinar fréttir þegar ég segi að 4 barna heimili sé streituvaldur,“ segir Lilja og hlær.

Alltaf mætt skilningi vinnuveitanda
Lilja hefur unnið í bankageiranum síðastliðin 10 ár, var nú síðast í fimm ár í Arion banka en hlakkar til að venda kvæði sínu í kross um næstu mánaðamót þegar ný og krefjandi verkefni bíða hennar í Landsbankanum. Hún óttast síður en svo að það verði erfitt að samræma vinnuna og heimilið heldur hlakkar til. „Ég er svo kát með það sem ég geri í lífinu og finnst það svo gaman. Ég er bara mjög spennt að sjá hvernig þetta á eftir að ganga. Ég hef ekki enn unnið hjá fyrirtæki sem sýnir því ekki skilning að fólk á börn og er með heimili,“ segir Lilja og bætir við að það sé mikilvægt að hafa gaman af verkefnum lífsins, þá sé mun auðveldara að koma þeim öllum fyrir.
The post Auðveldar rútínu dagsins að vera í góðu formi appeared first on Fréttatíminn.