Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Þegar heilsufæðisneysla verður að átröskun

$
0
0

Orthorexía þýðir rétt lyst og er heitið sem gefið var nýrri átröskun sem tengist heilsufæði. Röskunin er ekki viðurkennd af heilbrigðisgreiningakerfinu en hefur engu að síður stungið upp kolli hérlendis.

Ný átröskun, orthorexía, hefur skotið upp kollinum undanfarin ár og er orðin þekkt víða á Vesturlöndum, þótt ekki hafi hún enn fengið viðurkenningu í geðgreiningarkerfum. Röskunin hefur verið til umræðu frá árinu 1996, en þá var henni gefið nafnið „Orthorexia Nervosa“ af bandaríska lækninum Steven Bratman. Orthorexía er samsett orð, ættað úr grísku og þýðir bókstaflega „rétt lyst“. Í stuttu máli þá lýsir orthorexía sér í þráhyggjukenndri sókn í heilbrigt mataræði og þegar þráhyggjan er farin að raska lífi viðkomandi verulega er hægt að fara að tala um alvarlegan vanda, að sögn Sigurlaugar Maríu Jónsdóttur sálfræðings, teymisstjóra átröskunarteymis Landspítalans, sem segist hafa fengið nokkur slík tilfelli til meðferðar.

22907-Sigurlaug_U-459x502
Sigurlaug María Jónsdóttir sálfræðingur, teymisstjóri átröskunarteymis Landspítalans: „Það er auðvitað mikil áhersla á heilbrigði og hollustu í samfélaginu, að vera fitt og flottur, og þá er mataræðið gjarna tekið til endurskoðunar og stefnt að því að reyna að borða hreina og holla fæðu.“

Stór hópur gríðarlega upptekinn af heilsunni

„Við erum reyndar ekki að greina fólk með orthorexíu hér í átröskunarteyminu, þar sem sú greining er ekki viðurkennd í heilbrigðisgreiningakerfinu,“ segir Sigurlaug. „Ég hef ekki fengið mörg slík mál til meðferðar, en það hefur þó komið fyrir nokkrum sinnum að til mín hafa leitað stúlkur sem gætu fallið undir orthorexíu-hugtakið“.

Sigurlaug segir að það sem helst greini orthorexíu frá öðrum átröskunum sé áherslan á hreinleika og hollustu matarins, frekar en að vilja grennast. „Það er auðvitað mikil áhersla á heilbrigði og hollustu í samfélaginu, að vera fitt og flottur, og þá er mataræðið gjarna tekið til endurskoðunar og stefnt að því að reyna að borða hreina og holla fæðu. Auðvitað getur slík takmörkun á mataræði haft áhrif á þyngdina sem síðan getur kveikt sigurtilfinningu yfir góðum árangri sem hvetur fólk til að halda áfram. Þá geta farið að koma fram ákveðin sveltieinkenni og þráhyggja sem svipar mjög til átröskunar. Þetta er flókið samspil sem oft er erfitt að greina.“

Spurð hvort ungar konur séu í sérstökum áhættuhópi gagnvart orthorexíu segir Sigurlaug svo vera. „En ekki bara ungar konur, til okkar leita konur á aldrinum frá 18 ára og upp í fimmtugt, sextugt, en það er mjög stór hópur þarna úti sem er gríðarlega upptekinn af heilsunni, hollustu mataræðisins og réttri hreyfingu og það er alltaf spurning hvað við ætlum að sjúkdómsgera.“

Þráhyggjan skerðir lífsgæðin

Sigurlaug segir þó vissulega vera ýmis viðvörunarmerki um að fólk sé komið út í átröskun sem þurfi að vera vakandi fyrir. „Það er til dæmis hættumerki þegar fólk fer að draga sig til hlés félagslega, getur ekki farið út að borða með skólafélögum eða vinnufélögum, vill yfirleitt ekki borða með öðru fólki og þarf alltaf að elda matinn sinn sjálft. Þegar svo er komið er þráhyggjan farin að skerða lífsgæðin það mikið að bæði hugurinn og heimurinn snýst alfarið um mataræði og heilsufar.“
Spurð hvort ýmislegt af því sem fólk sleppir úr mataræðinu þegar það fer að hreinsa fæðið sé ekki nauðsynlegt fyrir eðlilega líkamsstarfsemi játar Sigurlaug strax. „Jú, það vill verða þannig þegar fólk vill fara að hafa allan mat svo hreinan og náttúrulegan og fer að taka út fæðuflokka þá getur það haft áhrif á andlega og líkamlega líðan. Ákveðnar fæðutegundir eru lífsnauðsynlegar fyrir líkamann og ef þeim er sleppt þá er voðinn vís.“

Ennþá skömm að vera karlmaður með átröskun
Á vefsíðu fyrrnefnds Stevens Bratman, orthorexia.com, má lesa reynslusögur fólks sem hefur beinlínis verið í lífshættu af völdum orthorexíu. Sigurlaug segist ekki hafa fengið svo alvarleg tilfelli til sín, enda geri einstaklingurinn sjálfur sér oft enga grein fyrir því að ástandið sé orðið alvarlegt. „Oft er fólk bara að reyna að gera allt rétt samkvæmt einhverjum ráðleggingum og oftast er það fjölskylda þess eða maki sem tekur fyrst eftir breytingunum. Það er líka mjög sterkt viðvörunarmerki þegar áráttan fyrir mataræðinu fer að bitna á samskiptum viðkomandi við fólkið sitt.“

Í öllu því ráðleggingaflóði sem fólk hefur aðgang að um heilbrigt mataræði og heilsuvernd getur einstaklingur með orthorexíu ansi lengi varið áráttu sína með því að hún/hann sé bara að gera það sem sé ráðlagt af heilsugúrúum. Réttlætingin er snar þáttur í öllum átröskunarsjúkdómum og Sigurlaug segir leiðina að því að ná árangri í meðferð vera m.a. þá að skoða hver grunnurinn sé, hvað hrindi átröskuninni af stað. „Oft snýst þetta um að fólk er að reyna að ná stjórn á því sem það hefur ekki stjórn á í lífi sínu og það þarf líka að skoða á hvaða þáttum fólk byggir sjálfsmat sitt. Maður hefur líka heyrt dæmi um að fólk sem lendir í veikindum fer að taka út eina og eina fæðutegund vegna þess að hún sé óholl og svo vindur það upp á sig. Það eru margir þættir sem geta hrundið þessu af stað og viðhaldið því.“

Spurð hvort ekki sé hætta á að þeir sem hafi orthorexíu þrói með sér anorexíu og búlimíu til að ná enn betri stjórn á heilsu, þyngd og útliti segir Sigurlaug það vissulega vera til í dæminu. „Við sjáum það hjá okkar skjólstæðingum að sé áráttan til staðar er hætt við því að fólk rokki á milli. Líkaminn þolir takmarkað eða einhæft mataræði bara upp að vissu marki og það er tiltölulega algengt að þá fari fólk yfir í átröskunarhegðun. Fólk hugsar sem svo að það ætli bara að taka aðeins til í lífi sínu og fara að borða hreinan og náttúrulegan mat en þegar það fer að léttast og líta betur út fer hugurinn á flug og allt hrósið og klappið hvetur fólk til að halda áfram, gera betur og ná enn betri árangri. Þá getur átröskunin farið að „kikka“ inn.“

Undanfarið hefur það verið mikið í umræðunni að karlmönnum með átraskanir fari sífjölgandi en þeir skila sér mun síður til meðferðaraðila en konurnar. Sigurlaug segir skýringuna fyrst og fremst mega rekja til fordóma. „Það eru ennþá heilmiklir fordómar í samfélaginu þegar kemur að átröskunum og það er litið á þær sem kvennasjúkdóma. Það leitar alltaf einn og einn karlmaður til okkar en þeir eru í miklum minnihluta. Það virðist ennþá fylgja því skömm að vera karlmaður með átröskun.“

Beðin um ráð fyrir aðstandendur sem óttast að börn þeirra eða maki séu að þróa með sér orthorexíu segir Sigurlaug að öllum sé velkomið að senda fyrirspurnir til átröskunarteymisins. „Við svörum öllum tölvupóstum og það er mjög auðvelt aðgengi til okkar. Við sinnum reyndar einungis 18 ára og eldri en BUGLið er með átröskunarteymi sem sinnir þeim yngri þannig að það er betra fyrir áhyggjufulla foreldra að snúa sér til þeirra.“

Viðvörunarmerki um orthorexíu

  • Þráhyggja fyrir því að allt fæði sé hreint
  • Einangrast félagslega vegna ótta við að borða mat sem aðrir elda
  • Sífellt fleiri nauðsynlegum fæðutegundum sleppt úr fæðinu
  • Leiðst út í svelti og búlimíu til að viðhalda „góðum“ árangri
  • Réttlætingar og afsakanir
  • Forðast að borða svo aðrir sjái
  • Líkamleg einkenni. T.d. stöðvun tíðablæðinga hjá konum.

The post Þegar heilsufæðisneysla verður að átröskun appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652