Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fyrsti íslenski nautabaninn

$
0
0

Þegar Sigurður Ingibergur Björnsson sá myndskeið af portúgalska nautabananum Diego Ventura ákvað hann samstundis að læra list portúgalsks nautaats. Sigurður hefur alla tíð verið hestamaður og hefur síðustu ár kynnt sér ólíkt samband mannsins við hestinn út um allan heim. „Ég hef mikinn áhuga á að skoða sögu hestamennsku, enda tel ég að maðurinn hafi þá fyrst hætt að vera dýr sjálfur þegar hann fór á hestbak.“

Portúgalskt nautaat segir Sigurður ólíkt því spænska að mörgu leyti. Nautabaninn er á hestbaki en stendur ekki á tveimur jafnfljótum. Atið snýst ekki um að drepa nautið heldur að sigra það með því að stinga í það fimm spjótum. Sigurður segir spjótin ekki særa dýrið alvarlega, því spjótin nái bara rétt í gegnum húðina. Leiknum lýkur svo með að átta menn koma inn á leikvanginn og yfirbuga dýrið með handafli. „Á Spáni gengur leikurinn út á að nautabaninn drepur eða verður drepinn. Það er ekki raunin hér.“ Í Portúgal er ólöglegt að nautið sé drepið í nautaatshringnum, en nautunum er venjulega slátrað stuttu eftir atið.

25171-sigurðurálucitanohesti
Sigurður á baki Lucitano-hests.

Jorge D’Almeida þjálfar Sigurð í atinu. Sá á að baki fleiri en 1500 nautaöt. Sonur hans er einnig þekktur nautabani sem hefur tekið þátt í nautaati um 300 sinnum, en þetta sport gengur oft í ættir. Sigurður segir að ekki hafi verið hægðarleikur að fá Diego til að kenna sér. Nautaatsheimurinn sé lokað samfélag og fæstir í nautaatinu tali ensku.

Nautaat hefur lengi verið umdeild hefð í Evrópu og berjast dýraverndarsinnar fyrir því að sportið verði bannað vegna slæmrar meðferðar á nautunum.
„Ég hef pælt í siðferðislegu hliðinni á þessu en ekki myndað mér fasta skoðun. Mér virðist þó mikil virðing borin fyrir nautunum sem fara í hringinn. Nautin lifa fram að ati eins og konungar, frjáls í haga og fá nóg að éta. Þau lifa raunar miklu lengur en naut sem eru alin til manneldis.“ Hann segir nauti aldrei hleypt í hringinn nema dýralæknir sé búinn að votta að nautið sé stálhraust. Nautið megi ekki vera meitt á nokkurn hátt eða búið að missa sjón.

Hið næma Lucitano-hestakyn, sem þjálfað er sérstaklega til nautaats, heillar Sigurð mest við sportið. Hestunum er nær eingöngu stjórnað með fótunum í stað þess að þeim sé stýrt með taumi. Sigurður mun fyrst keppa í nautaati í maí, en þá á hann bókaða tvo bardaga. Hann verður þá líklega fyrsti Íslendingurinn til að keppa í portúgölsku nautaati.

25171-sigurðurogkennarinn
Sigurður Ingibergur Björnsson og kennari hans, Jorge D’Almeida, á góðri stundu.

 

The post Fyrsti íslenski nautabaninn appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652