Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Héðinn Unnsteinsson: Dauðinn

$
0
0

„Dauði eða andlát eru endalok virkrar starfsemi lifandi veru,“ segir skilgreining wikipediu á fyrirbærinu. Eftir því sem árum fjölgar og reynslan af virkri tilvist, lífi, bætist í sarpinn þá hvarflar hugur okkar flestra á stundum að endalokunum. Eða eru það endalok? Ég heyrði af „endalokum“ einnar mannveru um daginn. „Ljósið“ slokknaði óforvarandis við dagleg störf. Var á „besta“ aldri. Hafði verið heil og væn mannvera sem gaf ríkulega til alls lifandi í kring. Óvænt. Áfall fyrir ástvini og aðra nákomna. „Ljósið“ var hluti af samfélagi „ljósa“ í sveitarfélagi úti á landi.

„…þegar allt kemur til alls er það skilningur okkar á dauðanum sem ákveður svörin við öllum þeim spurningum sem lífið leggur fyrir okkur. Af þessu leiðir nauðsyn þess að búa sig undir hann.“ Þessi orð eru höfð eftir Dag Hammarskjöld. Dag var sænskur hagfræðingur og diplómat sem gegndi síðustu ár ævi sinnar starfi framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann lést í flugslysi árið 1961, aðeins 54 ára. Hann var á leiðinni að „miðla málum“ í deilum í Norður-Ródesíu, nú Zambíu. Flestir eru á því að „ljós“ hans hafi verið skotið niður ásamt fimmtán öðrum sem voru um borð í Douglas DC-6 vélinni. Ljós Dags var andlegt og fallegt, menn eru almennt sammála um að hann hafi verið harmdauði fyrir heiminn. Ljós hans slokknaði við dagleg störf. Daglega þjónustu við aðra.

Á þeim árum sem ég starfaði fyrir Sameinuðu þjóðirnar minnist ég þess hversu mikil áhersla var lögð á það hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) að bæta fremur lífi við árin en árum við lífið. Að „ljósið“ megi lýsi sem best á meðan logar. Að hvetja „eldinn“ svo bruni hans megi leiða gott eitt af sér á meðan tírir. Deildinni, sem hafði með áhrifaþætti „ljóssins“ að gera, var á þeim árum stýrt af auðmjúkum og góðum íslenskum manni, Guðjóni Magnússyni. Hann líkt og Dag var í þjónustustörfum fyrir okkur öll.

„Ljósin“ okkar eru einungis hverfulir neistar af sama báli. Hvernig eldstæði okkur er valið er ekki okkar val en hvað við setjum á eld okkar, hvernig við ræktum hann og hvert við beinum honum er á okkar valdi. Hvernig við þjónustum bálið. Hann logar, heimsloginn.

Myrkur í ljósi

Tilfinningin tær sem lind
tendrar glóð í hjarta.
Hugi hvatur málar mynd
af mannúð heimsins; bjarta.

Ef lifað er með ljósri brá
og löngun góðra verka,
snúast syndir þrungnar þrá
þvert í dyggðir sterkar.

Dauðinn hvata lífi ljær
og leggur drög að tilvist.
Í ljósri dimmu lífið grær
í myrkur dagsins þyrstir. (hu)

The post Héðinn Unnsteinsson: Dauðinn appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652