
Þegar bankastarfsmennirnir Þóra Leifsdóttir og Noland Williams hittust á bar í London fyrir fimm árum voru þau bæði fráskilin með tvö börn. Bankahrunið hafði tekið sinn toll og hremmingar í einkalífinu gáfu ekki tilefni til mikillar bjartsýni. Í dag eiga þau saman fjögur börn og njóta hverrar stundar eftir kúvendinguna sem líf þeirra tók þetta örlagaríka kvöld.
Nolan Lorenzo Williams hafði unnið hjá Goldman Sachs bankanum í London í sextán ár en handan við hornið voru skrifstofur Landsbankans, þar sem Þóra Leifsdóttir var starfsmaður. Þau höfðu aldrei hist fyrr en ósköp hversdagslegt kvöld fyrir fimm árum þegar þau álpuðust óvart inn á sama bar í hverfinu.
„Ég var ekki á leiðinni í samband og reyndi að hrista hann af mér,“ segir Þóra en tilraunir hennar báru bersýnilega ekki árangur. „Ég gerði honum það ljóst að ég væri með algjöran pakka á bakinu, væri nýskilin og ætti tvö börn. Honum fannst það nú ekki mikið mál,“ segir hún og Nolan hlær.
Þóra fullyrðir að eftir fyrstu kynnin hafi hún ákveðið að láta hann eiga sig, hún þyrfti að jafna sig eftir sambandsslitin og ekkert vera að líta í kringum sig. Hún hafði búið með fyrrum sambýlismanni sínum í 12 ár og átti með honum dæturnar Birtu Maríu og Júlíu Ósk. Sambandinu lauk skyndilega og við það varð mikil óvissa með hvernig framhaldið yrði þarna úti í London.
„Mánuði síðar varð ég samt svo forvitin að ég sendi Nolan skilaboð. Við hittumst aftur og höfum verið óaðskiljanleg síðan.“
Nolan segir samband þeirra hafa þróast mjög hratt eftir það. „Okkur leið strax vel saman. Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu og efaðist aldrei um að lífið væri að taka rétta stefnu. Maður finnur það svo sterkt þegar eitthvað er rétt. Eitt leiddi að öðru og skömmu síðar vorum við farin að búa saman,“ segir hann.
Ástin var kærkomin
Nolan hafði flutt frá Karíbahafinu til London 20 árum áður til þess að spila sem atvinnumaður í krikket. Hann eignaðist síðan drengina Dylan og Jordan með fyrri eiginkonu sinni. Áður en hann flutti til London vann hann sem lögreglumaður í Karíbahafinu og við það kviknaði áhugi hans á rannsóknum. Áhuginn þróaðist þegar hann fetaði sig inn í bankageirann en þá voru það efnahagsbrot og fjársvik sem hann eltist við að uppræta.
Þóra vann hjá Landsbankanum í London á sviði útlánaeftirlits og áhættustýringar. Eftir hrunið urðu talsverðar breytingar á vinnuhögum hennar. Bankinn var tekinn yfir af ríkinu en hún starfaði áfram fyrir slitastjórnina.
Ástin var kærkomin inn í líf Þóru og Nolans og það var mikið gleðiefni þegar þau komust að því að þau ættu von á barni. Eftir stutt samband voru þau trúlofuð og héldu til Íslands til að giftast.
„Í Íslandsferðinni fór Nolan í atvinnuviðtal og var boðin vinna,“ segir Þóra. Nýgiftu hjónin voru full bjartsýni og létu verða af því að flytja til Íslands aðeins mánuði síðar. Þóra starfaði áfram fyrir slitastjórn Landsbankans en Nolan var ráðinn til hugbúnaðarfyrirtækisins Hugvits GoPro. Litla dóttir þeirra, hún Olivia, sameinaði fjölskyldurnar og batt þau öll saman. Synir Nolans héldu áfram að búa hjá móður sinni í London en koma reglulega til Íslands í frí.

Aldrei verið atvinnulaus áður
Nolan er opinskár og ófeiminn og gekk vel að aðlagast á Íslandi. Hans sérsvið hefur verið að fyrirbyggja og rannsaka efnahagsbrot, innherjasvik og peningaþvætti sem og aðra rekstraráhættu. Eftir eitt og hálft ár hjá GoPro bauðst honum ný staða hjá Credit Info, þar sem tækifæri fólust í samruna tveggja fyrirtækja. Nolan átti að leiða það verkefni en þegar á leið varð ekkert af samruna fyrirtækjanna og Nolan endaði atvinnulaus í fyrsta sinn í áratugi.
„Það var alveg ný staða að þurfa að leita mér að vinnu. Ég hafði alltaf haft nóg að gera.“
„Flest fyrirtækin sem hann leitaði til voru uppnumin yfir starfsferli hans en á einhvern hátt þótti reynsla hans sérhæfð og framandi,“ segir Þóra.
„Ég myndi ekki segja að ég væri mjög sérhæfður en ég komst að því að það er ekki algengt hjá íslenskum fyrirtækjum að vinna með fyrirbyggjandi hætti gegn fjársvikum. Mögulega er það viðkvæmt í litlu samfélagi. Fyrirtækin voru ekki með forvarnarstefnu eða viðbragðsáætlun í þessum málum og voru rög við að sýna starfsmönnum sínum tortryggni með því að leita sér þekkingar um fjársvik,“ segir Nolan.
„En málið er að fyrirtæki og stofnanir verða að hafa fyrirbyggjandi stefnu svo þau þurfi ekki að kynnast vandamálinu af eigin raun. Þau þurfa að hafa verklagsreglur og eftirlit í lagi. Mín nálgun er því alltaf að hvetja til fyrirbyggjandi úrræða.“
Stefið er kunnuglegt úr umræðunni um efnahagsglæpina sem framdir voru í aðdraganda bankahrunsins, þegar innherjaviðskipti voru stór hluti af vandamálinu. Og það hljómar kaldhæðnislega að maður með sérfræðikunnáttu í rannsóknum fjárglæpum hafi ekki fengið vinnu á Íslandi eftir bankahrun.
Í atvinnuleitinni rak Nolan sig á að fyrirtækin væru rög við að ráða hann vegna þess að hann talaði litla íslensku. „Og hann fékk nokkrum sinnum að heyra það, að honum hefði boðist starfið ef hann bara talaði málið. Samt fara nú samskipti fólks hjá stórum fyrirtækjum oft fram á ensku,“ segir Þóra.
Aðspurður um hvort litarháttur hans gæti mögulega hafa verið hindrun í atvinnuleitinni, kemur hik á Nolan. „Ég þori ekki að fullyrða um það því litur og uppruni fólks ætti auðvitað ekki að hafa nein áhrif á það hvort það fær að iðka það fag sem það hefur sérhæft sig í.“
Þóra bætir við að Nolan hafi þó fengið nokkrar undarlegar athugasemdir um litarhaft sitt. „Einn maður sem hann fundaði með fullyrti að hann teldi hann sennilega vera hæst setta svarta einstaklinginn á Íslandi.“
„Ég get samt ekki sagt að litarhaftið sé sérstök hindrun því ég hef líka kynnst írskum manni sem var að glíma við samskonar vandamál og ég á íslenskum vinnumarkaði. Mín upplifun er að útlendingar séu kannski framandi og að hindranirnar fyrir að ráða þá til starfa séu frekar af menningarlegum ástæðum en vegna litarháttar.“ Nolan telur þó að slík viðhorf séu á algjöru undanhaldi og mögulega algengari hjá eldri kynslóðinni. Yngra fólk hafi í ríkari mæli haft tækifæri á að stunda nám og vinnu í útlöndum og þar af leiðandi kynnst fólki úr ólíkum menningarheimum.

Stórundarleg meðganga
En þó atvinnuleitin gengi hægar fyrir sig en hann hafði vonað, þá var margt til að gleðjast yfir. Þau Þóra höfðu rætt um að það gæti verið gaman að eignast annað barn saman. Dóttir þeirra var komin á annað aldursár og hjónin ákváðu að reyna að eignast eitt í viðbót og þar af leiðandi sjötta barnið í fjölskyldunni. Þá ættu þau öll eitt alsystkini og það væri gott fyrir Oliviu að alast upp með barni á svipuðum aldri.
„Það tók ekki langan tíma áður en Þóra varð ólétt aftur. Við urðum auðvitað himinlifandi. Hún sagði reyndar strax að það væri eitthvað óvenjulegt við þessa meðgöngu,“ segir Nolan.
Þóra glottir og útskýrir að morgunógleðin og syfjan hafi verið margföld á við það sem hún upplifði á fyrri meðgöngum.
Þegar hjónin fóru að hitta fæðingalækni til að fara í snemmsónar, tók ung kona á móti þeim sem var að þreyta frumraun sína í sónarmyndatöku. Sú var undarleg á svipinn þegar hún skoðaði Þóru og ákvað að kalla á sérfræðing til að athuga hvort það gæti mögulega verið að börnin væru tvö. Þóru og Nolan var eðlilega brugðið en héldu ró sinni þar til skoðunin hélt áfram. Þá komu í ljós skýringar á heiftarlegri morgunógleði Þóru. Börnin voru þrjú.
Þau skellihlæja bæði þegar þau rifja læknisheimsóknina upp. „Við gátum ekkert gert nema hlæja. Í marga daga á eftir gátum við ekki horfst í augu öðruvísi en að skella upp úr. Þetta var svo fyndið og ótrúlegt,“ segir Þóra. „Og það voru bara okkar viðbrögð, okkur fannst þetta alveg rosalega skemmtilegt. Þrátt fyrir að þetta væri erfitt var ég mjög hraust og meðgangan gekk eins og í sögu.“
Afar sjaldgæft er að konur verði óléttar af þríburum með náttúrulegum hætti. En Nolan þarf víst að taka á sig hluta af sökinni því frjósemi er mikil í fjölskyldunni hans og fjölburar algengir. Auk þess er hann sjálfur hluti af 36 systkina hópi. „Þó að það sé nú ekki algengt í dag þá hefur fólk úr Karíbahafinu alltaf átt stórar fjölskyldur,“ segir Nolan. „Og það eru líka tvíburar í fjölskyldu Þóru.“
Fyrir hálfu ári voru þau Leó Leifur Þór, Lorenzo Þór og Ísabella Guðleif tekin með keisaraskurði eftir tæplega átta mánaða meðgöngu. Heilbrigð og hraust og undurfögur.
„Þó allt hafi gengið vel fyrir sig þurfti þvílíkan mannfjölda á skurðstofuna til að taka á móti börnunum. Ég taldi ég tuttugu starfsmenn þegar mest var,“ segir Nolan.
Eftir fjölgunina í fjölskyldunni mátti allt heimilisfólkið venjast talsvert breyttum lifnaðarháttum og reiða sig á mikla hjálp frá nánustu ættingjum. Systir Nolands flaug frá Karíbahafinu til að aðstoða þau með ungbörnin fyrstu mánuðina og móðir Þóru er einnig daglegur gestur á heimili þeirra.
Börnin braggast vel og eru augljóslega mjög sterkir og ólíkir persónuleikar. Öll eru enn á brjósti og það þarf því gott skipulag til að halda utan um brjóstagjafir, svefntíma bæði foreldra og barna á heimilinu. „En þetta gengur eins og í sögu,“ segir Þóra.
Nolan hefur stofnað sitt eigið ráðgjafafyrirtæki og hefur haldið námskeið fyrir einstaklinga og fyrirtæki í samvinnu við Háskólann í Reykjavík. Hann býður fram krafta sína í rannsóknir og forvarnir gegn fjársvikum og segist þegar hafa fengið fjölmargar fyrirspurnir. „Ég held ég hafi þurft að fara í gegnum djúpan dal til að finna mína hillu. Mig hafði lengi langað til að vinna sjálfstætt en alltaf verið bundinn einhverjum vinnustað. Nú býð ég upp á fræðslu og aðstoð við rannsóknir og fólki er frjálst að hafa samband við mig. Ég var að klára stutt námskeið á fundi Félags innri endurskoðenda. Eftir að ég fór af stað hef ég skynjað mikinn áhuga fólks og fengið sterk viðbrögð. Ísland er mitt heimaland og hér mun ég byggja okkar framtíð, þó það taki einhvern tíma,“ segir Noland, áður en hann rýkur upp til að sækja Ísabellu litlu sem var að vakna.
Nolan mun halda námskeið á Grand Hótel 15. apríl meðal annarra sérfræðinga, m.a. frá London í Anti-money Laundering, Fraud og compliance.
Meira um fyrirtæki Nolands á: theriskconsultancy.com
The post Eignuðust fjögur börn á þremur árum appeared first on Fréttatíminn.