Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fæ ég leyfi til þess að hætta að vera ég?

$
0
0

Mistök á Landspítalanum urðu til þess að Tryggvi Einarsson hefur liðið gríðarlegar kvalir síðan, svo óbærilegar að hann hugleiðir nánast á hverjum degi að enda líf sitt. Hann vill eiga þess kost að geta sótt um líknardauða, fá aðstoð til þess deyja, en veit ekki hvort hann myndi ganga alla leið. „Ég vil eiga valið.“

Síðastliðin rúm þrjú ár hefur varla liðið sá dagur sem Tryggvi Einarsson leiðir ekki hugann að því að taka eigið líf. Árið 2012, þann 13. desember, var Tryggvi að jafna sig eftir minniháttar hjartaaðgerð á Landspítalanum og gekk inn á baðherbergi að pissa. Klósettskálin fylltist dökku blóði þannig að ekki glitti í hvítan blett á postulíninu.

Ísland varð fyrir valinu

Tryggvi fæddist í Bronx í New York 24. febrúar í desember árið 1974. Hope, móðir Tryggva, er bandarísk og ein af landsins merku tengdadætrum og hefur verið óþreytandi að víkka sjónarsvið landsmanna og frægust er hún líklega fyrir að vera stofnandi Siðmenntar og innleiðingu á borgaralegri fermingu, en Tryggvi og systir hans voru fyrstu einstaklingarnir sem fermdust á vegum Siðmenntar. Hope Knútsson hefur löngum verið aktífisti og friðarsinni og á tímum Víetnamstríðsins hugðist hún finna friðsælan blett á jarðarkúlunni til þess að flytjast til. Ísland varð fyrir valinu og hún settist að á skrifstofu íslenska flugfélagsins á Kennedy flugvelli með gítarinn sinn og söng þangað til Einar flugvirki tók eftir henni og þá var ekki aftur snúið. Saman eignuðust þau Tryggva og systur hans og fluttu fljótlega heim í Breiðholtið sem var að byggjast upp.

25207-tryggvi unglingur
Tryggvi sem unglingur. Hann varð fyrir alvarlegu einelti í skóla og síðar á vinnustað.

Einelti í skóla

Skólaganga Tryggva einkenndist af einelti og hann kom við í mörgum skólum. Þetta var á þeim árum sem einelti í skólum var lítið sem ekkert til umræðu en Hope, móðir Tryggva, var frumkvöðull í þeim efnum sem öðru og vakti athygli á vandamálinu í íslenskum skólum og fór hringinn í kringum landið með fyrirlestur varðandi einelti og ofbeldi meðal skólabarna. Það var strákagengi úr Breiðholtinu sem réðst á Tryggva og barði hann niður í Kolaportinu á síðasta ári hans í grunnskóla en málið lenti á borði lögreglunnar. Strákagengið átti eftir að ásækja Tryggva næstu árin og hafa í hótunum við hann sem hefti frelsi hans til þess að ferðast á milli staða í Reykjavík.

Bifvélavirkjun og reiðhjólasmíði

Tryggvi hafði engan áhuga á frekari skólagöngu eftir margra ára einelti, allavega gat hann ekki hugsað sér akademískt nám eins og metnaður var fyrir í fjölskyldu hans. Engu að síður kláraði hann grunnám í málmiðn í Iðnskólanum og fór til Oregon að læra reiðhjólasmíði og viðgerðir í eitt ár og nokkrum árum síðar lauk hann bifvélavirkjun við Iðnskólann, en það var eins og hann hefði himin höndum tekið þegar hann komst í tæri við vélar og farartæki.

25207-tryggvi með vélina
Vél sem Tryggvi smíðaði frá grunni í Bronco afa síns.

Merkið undir diskunum í sömu átt

Tryggvi var greindur með áráttuhegðun sem hvorki fjölskylda né kærasta kannaðist við í fari hans en hann greindi henni frá því að hann raðaði meðal annars diskunum upp í skáp þannig að merkið undir þeim snéri í sömu átt á öllum diskunum. Þetta kom henni í opna skjöldu og hún spurði hann á móti hvernig hann tæki því þegar hún raðaði öllu óreglulega upp í skáp. Hann sagðist reyna róa sig og halda í sér en það pirraði hann óneitanlega mikið. Hann hugsaði bara með sér að hann myndi laga þetta næst þegar hann tæki úr vélinni og gæti raðað öllu aftur í rétta átt.

Meinlaus hjartaaðgerð

Árið var erfitt ár hjá Heklu, þar sem hann vann, einelti, launalækkun og nýrnasteinakast og einhvern veginn gaf Tryggvi sér það að aðstæður gætu bara batnað og tók því boði hjartalæknis um að fara í smávegis aðgerð sem átti að koma í veg fyrir óreglulegan hjartslátt sem hann hafði átt við að stríða öðru hvoru síðan hann var unglingur.

Þvagleggur

Fyrir og meðan á hjartaaðgerðinni stóð hafði Tryggvi veitt drippinu í æð athygli sem honum fannst renna allt of ört og gæti gert það að verkum að hann þyrfti að kasta af sér þvagi fljótlega. Tryggvi var að jafna sig eftir velheppnaða aðgerð og bað um leyfi til þess að fara á klósettið. Hann mátti fyrir enga muni standa upp vegna aðgerðarinnar og þegar honum tókst ekki að pissa í flösku þá var engin undankomuleið, hjúkrunarfræðingurinn sá ekki annað í stöðunni en að setja upp þvaglegg. Fyrst var einn settur upp og Tryggvi fann nístandi sársauka og gat strax lesið í andlitssvip hjúkrunarfræðingsins að ísetningin hefði mistekist hrikalega og það blæddi úr typpinu. Í framhaldinu var annar mjórri settur upp sem heppnaðist og hann gat loksins losað sig við meira en einn lítra af vökva, meira en kemst í heila rauðvínsflösku.

Tryggvi fann nístandi sársauka og gat strax lesið í andlitssvip hjúkrunarfræðingsins að ísetningin hefði mistekist hrikalega og það blæddi úr typpinu.

„Ég grét út af verkjum og ég leyfði mér að segja að ég vildi ekki lifa lengur svona.“

Bunar út blóð

Hjartaðgerðin gekk annars vel þennan fimmtudagsmorgun og hann átti að fara heim næsta dag og bjóst við að mæta til vinnu á mánudagsmorgni. Kærasta hans var ennþá hjá honum þegar Tryggvi fékk loks leyfi til þess að fara á baðherbergið: „Ég var inni í þessu þokkalega stóra baðherbergi og hafði læst að mér en þegar ég byrjaði að pissa þá bunaði út blóðið, dökkt blóð en ekki blóðlitað þvag. Það var óbærilegur sársauki og ég fann að ég var að hníga niður út af sársauka. Ég öskraði og rétt náði að taka úr lás áður en það leið yfir mig. Það var blóð út um allt, ég sá flísarnar á gólfinu og fann sjúkrahúslyktina.
Ég fór ekki heim en dvaldi á spítalanum meira og minna í þrjár vikur eftir þetta. Fyrir og eftir allar klósettferðir var morfíni dælt í mig og Stesolid, sem er bara valíum. Þetta var á óheppilegum tíma, beint ofan í verkfall hjá hjúkrunarkonum. Ég er ekki að lasta neinn en það kom upp atvik þar sem ég hringdi hálparhnappnum í einn og hálfan tíma þangað til heyrðist í mér. Þá var ég kominn í jafn krítískt ástand og þegar þetta gerðist fyrst, pissaði blóði og lifrum. Verkirnir voru ólýsanlegir, ég myndi glaður pissa rakvélarblöðum frekar en þetta. Ég get best lýst þessu eins og það væri verið að draga hraunmola á girni niður þvagrásina.

5 x 25 mm áverki

Læknastéttin lá yfir mér og skoðaði typpið fram og til baka sem er út af fyrir sig miður skemmtilegt. Ég var látin prófa allskonar verkjastillandi lyf. Þvagfæralæknirinn minn, sem var alltaf mjög nærgætinn og studdi mig óendanlega mikið og ég treysti fullkomlega, hringdi síðan einn daginn. Það var þungt í honum hljóðið þegar hann tilkynnti mér að sárið væri 5 mm x 25 mm áverki sem kom út úr þvagrás og inn í vef og væntanlega gegnum æð og nálægt eitlum, langt inn í skrokknum á mér. Og allan þennan tíma hafði ég verið að pissa með ógróið sár í þvagrás.

Engin úrræði

Allra leiða hefur verið leitað, fjölskylda mín nær og fjær og vinir mínir lögðust á eitt. Einnig var verkjateymi á Reykjalundi sem reyndi að lina kvalirnar og ég fór á Miami Pain Clinic til að leita hjálpar. Sumt hefur auðvitað hjálpað en ekkert sem tekur frá mér sársaukann.
Þegar karlmenn fara í kynskiptiaðgerðir er passað upp á allt sem er þarna niðri og passað upp á allar taugar og æðar og að ekkert sé skaðað. Þegar ég er spurður um það hvort það sé ekki bara hægt að klippa typpið af þá myndi það ekki breyta neinu, sársaukinn minn er ekki bara niður typpið heldur lengst inni í mér. Eins með stómapoka, það gæti tekið af mér hræðsluna við að fara á klósettið en það tekur ekki verkina.

Missti allt á tveimur árum

Kærastan mín gat þetta ekki lengur. Hún stóð með mér í þessu í eitt ár, studdi mig og svaf á gólfinu á spítalanum og horfði upp á allt þetta blóð. Við erum góðir vinir í dag og hún passar kanínuna okkar. Ég reyndi að rembast við að vinna þangað til að þeir gáfu mér reisupassann og þökkuðu mér fyrir samveruna. Ég fékk tvisvar nýrnasteinakast á þessu tímabili, sem var ótrúlegur sársauki ofan á hitt. Ég missti allt, vinnuna, heilsuna og kærustuna á tveimur árum. Mér voru dæmdar 18,2 milljónir króna í bætur en Sjúkratryggingar eru með þak sem nemur 9 milljónum og meira fæ ég ekki frá þeim. „Þú þarft bara að fara í mál,“ var mér sagt. Ég borgaði íbúðarskuldir og reyndi að ganga frá öllu í kringum mig og ákvað að gera eitthvað skemmtilegt. Við pabbi fórum saman til Flórída á Monster Truck sýningu sem er sameiginlegt áhugamál okkar og ég reyndi að gera það sem ég gat til þess að lyfta mér upp. En það var kannski einn og hálfur dagur í þeirri ferð sem var bærilegur og ég gat notið til fulls.

25207-tryggv í jeppaferð
Tryggvi undir stýri með félögum sínum en jeppaferðir eru áhugamál hans. Hann fór með pabba sínum til Flórída á Monster Truck sýningu sem er sameiginlegt áhugamál þeirra.

Ýtt yfir á geðsviðið

Í nokkur ár var og hef ég glímt við áfallastreituröskun og fengið aðstoð sálfræðings og geðlækna. Það var verið að prófa lyfjabreytingar og ýmislegt á manni. Sumt hjálpaði, annað gerði ekki neitt og enn annað hræddi líftóruna úr mér. Eins og berskjöldunarvinna, að fara yfir atvikið aftur og aftur. Þá dett ég oftast út, ég aftengi mig ég fæ bara hellu og ég sit þarna, fullorðinn einstaklingur, gjörsamlega lamaður af ótta og ásaka mig fyrir að hafa ekki getað dílað við þvaglegg eða meiri verki.

„Ég grét út af verkjum og ég leyfði mér að segja að ég vildi ekki lifa lengur svona. Þarna fór mér að finnast eins og það ætti að ýta mér út á geðsviðið eins og verkirnir væru bara í hausnum á mér. Ég sé enga lausn til þess að stoppa verkina nema að fremja sjálfsmorð. „Fyrst þú ert í svona ástandi þá höldum við að það sé best að þú leggist inn á geðdeild,“ var svarið hjá heilbrigðisstarfsfólkinu. Ég var lagður inn, svo sem ekki mikill mótþrói, ég vildi vera samvinnuþýður og þá varð ég að vera hreinskilinn og segja frá hugleiðingum mínum. Mér var gerð grein fyrir því að ef maður væri í sjálfsmorðshugleiðingum þá væri hægt að taka af manni sjálfræðið en það væri óskandi að það þyrfti ekki að ganga svo langt. „Þú ert í hættulegu ástandi og við teljum að það þurfi að hafa eftirlit með þér.“ Þá hugsaði ég með mér að það væri betra að fara sjálfur inn á deild í góðu frekar en að láta taka mig með valdi.“

Pillukokteill í bankahólfinu

Geðheilbrigðisstarfsfólkið vildi vita hvernig ég hugðist taka líf mitt og gaf í skyn að það væri ekki einfalt. „Ég ætla að taka verkjatöflu rétt nóg til þess að vera verkjastilltur og Afipran til þess að varna því að ég æli, og heilt spjald af Stilnoct töflum til þess að rotast og þegar þetta fer að virka ætla ég að taka restina af Propanolol Beta blocker, sem var í mínum fórum út af hjartatruflunum, en Propanolol stöðvar á manni hjartað og mun drepa mig svona átta sinnum með það magn sem ég á. Geðsviðsstarfsfólkið vildi taka lyfin af mér sem ég neitaði að afhenda og þá var ég lagður aftur inn. Það gerðist í fimm skipti þangað til ég samdi við þá við þá að geyma lyfin í bankahólfi sem ég hefði aðeins aðgang að á opnunartíma og gæti því illa svipt mig lífi í einhverju bráðræði. Sem ég myndi aldrei gera.

„Peaceful pill“
Ég á bókina The Peaceful Pill Handbook, sem er gefin út af Exit hópnum og er aðallega skrifuð fyrir gamalt fólk sem vill enda líf sitt á snyrtilegan og hljóðlátan hátt. Þegar ég var að lesa mig til um aðferð til þess að fara og var að leita að upplýsingum um Nembutal eða Pentobarbital þá fann ég Dignitas í Sviss á netinu en þeir nota lyfið. Það geta allir sótt um líknardauða hjá Dignitas sem eru sjálfráða. Hjá þeim eru umsækjendur allir heimsborgarar. 80% af öllum þeim umsækjendum sem fá græna ljósið frá Dignitas klára ekki ferlið. Það nægir sumum bara að vita að þetta sé val og að það geti sjálfir valið að deyja. Dignitas er með teymi af sérfræðingum sem fara yfir sjúkraskýrslurnar sem umsækjandinn sendir inn og þeir reyna alltaf að finna bót á meinum umsækjanda, ef það er mögulegt. Ég er að ímynda mér að hugsanlega þekki þeir bót á mínum vanda.

Mamma
Ég veit ekki hvernig mamma tekur þessu, hún er stofnandi Siðmenntar en samtökin tala fyrir líknardauða á Íslandi og hefur málefnið verið til umræðu undanfarið hér á landi. En hvernig mamma bregst við líknardauða þegar hennar eigið barn á í hlut á eftir að koma í ljós.
Ég er alinn upp við það að mega velja, velja á milli fermingar í kirkju eða borgaralegrar, til dæmis. Með mitt uppeldi og bakgrunn þar sem valfrelsi er til grundvallar, með mína móður, víðsýni og ferðalög út um allan heim, kynni af allskonar menningu og trúarbrögðum, þá finnst mér það alveg rökrétt að ég eigi kost á því að bera upp málið við heilbrigðisstarfsfólk, um það hvort hægt sé að fá aðstoð til þess deyja. Ég veit ekki hvort að ég myndi ganga alla leið, en ég vil eiga valið.

Ef ég er ég og ég er sjálfstæður maður og ég á rétt á því að vera ég, af hverju má ég þá ekki bara, ef ég tek upplýsta ákvörðun, eiga rétt á því að hætta að vera ég.

25207-tryggvi og gormur 2
Tryggvi og Gormur hundurinn hans.

 

 

 

 

The post Fæ ég leyfi til þess að hætta að vera ég? appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652