Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Fór með arfinn til Afríku

$
0
0

Ljósmyndarinn Saga Sigurðardóttir ferðaðist til Keníu og Eþíópíu til að ráðstafa í hjálparstarf tugmilljóna króna arfi eftir Lilju, ömmusystur sína. 

25155 val 2
Ung þjónustustúlka í Addis Ababa í Eþíópíu. Myndir /Saga Sig

„Það er ekki oft sem fólk biður mig um að taka mynd af sér að fyrra bragði. En þarna pikkaði í mig kona og vildi mynd af sér að gefa barninu brjóst, stolt af eigin líkama. Þetta fallega augnablik er mér minnisstætt, sérstaklega í allri umræðunni um kvenlíkamann á Íslandi, Free the Nipple, brjóstagjöf og fleira,“ segir Saga Sigurðardóttir ljósmyndari.

25155 val 1
Kona af Dassanech ættbálknum sem bað Sögu um mynd af sér að gefa brjóst.

Saga er nýkomin heim úr mánaðarferðalagi um Eþíópíu og Kenía með fjölskyldu sinni. Tilefni ferðarinnar voru þeir tugir milljóna króna sem ömmusystir Sögu, skáldið Lilja Sólveig Kristjánsdóttir, skildi eftir sig þegar hún lést. „Lilja fól pabba að ráðstafa arfi sínum til góðgerðamála í Afríku. Hún hafði alla tíð gefið peninga til trúboðastarfs og kærði sig ekki um auðæfi. Hún var ótrúleg kona og allt í kringum hana var sveipað glæsileika. Hún var fyrsta listakonan sem ég þekkti og hafði mikil áhrif á mig.“

25155 val 3
Rothschild gíraffi í þjóðgarðinum Nakuru, tegund sem er í útrýmingarhættu.

Styrkja konur til menntunar

Arfinn kalla þau Liljusjóð og ferðaðist fjölskyldan saman að kanna hvaða verkefni þau ættu að styrkja í Eþíópíu og Keníu. „Þetta eru menningarheimar sem við þekkjum ekki og erum ekki í stöðu til að ákvarða hvernig fjármagnið nýtist best. Systir mín er arkítekt og fór að skoða byggingu á heimili fyrir munaðarlausar stúlku. Þá sáum við hvernig hugmyndir okkar um hús og heimili eru ólík. Því er mikilvægt að fara á staðinn, kynnast samfélaginu og í samráði við íbúa ákvarða hvað er best til uppbyggingar.“

25155 Val 5
Krakkar kæla sig á landamærum Kenía og Úganda.

Verkefnin sem Saga vill helst að Liljusjóður styrki snúa að menntun kvenna. „Við viljum styðja við verkefni þar sem uppbygging er þegar hafin. Eitt þeirra er kvennamenntaskóli í Propoi í Keníu sem er stýrt er af ótrúlegri konu. Kerfið er þannig að nemendur þurfa að fá B- í einkunn til þess að ríkið styrki þá til háskólanáms. Hún vekur stelpurnar klukkan 4 á nóttunni til þess að læra því menntun er það eina sem gefur þeim tækifæri til betra lífs.“

25155 val 4
Addis Ababa, höfuðborg Eþíópíu. Saga segir miklar andstæður í uppbyggingu borgarinnar.

Myndaði allt ferðalagið

Saga festi ferðalagið á filmu og segir framandi umhverfið ótrúlegt myndefni fyrir ljósmyndara. Lífsgleði og sjálfsöryggi fólksins snerti við henni og hyggst hún gera ljósmyndabók frá ferðalaginu. „Ólíkt Íslendingum voru brosin breið, hláturinn hávær og dansinn allsráðandi. Fólkið var svo ánægt í eigin skinni. Mér var einnig hugsað til þess hvernig ég ólst upp á Þingvöllum umvafin náttúru með frelsi til þess að hlaupa um. Fólkið ber virðingu fyrir náttúrunni og þykir vænt um umhverfi sitt. Okkur skortir þessa tengingu, þess vegna förum við svona illa með jörðina.“

25155 val 6
Vegfarandi í Omo dal í Eþíópíu.

Saga segir ótrúlegt hvað hægt sé að gera fyrir litla peninga. „Mánaðarlaun kennara eru rúmar 12.000 krónur og það er hægt að byggja heimili fyrir börn fyrir nokkrar milljónir. Liljusjóðurinn gerir það líka að verkum að við fjárfestum tilfinningalega í þessu verkefni. Að sjá afraksturinn og geta fylgt honum eftir er ómetanlegt.“

25155 val 7
Ljón í Nakuru þjóðgarði í Keníu.
25155 val 8
Kona af Dassanech ættbálk.
25155 val 9
Hópur kvenna í „Konso“ pilsi í fótboltatreygju við, Saga segir það tískuna í Konso.
25155 val 10
Konur af Hamar ættbálki.
25155 val 11
Dæmigert hús í Konso.

svanhildur@frettatiminn.is

The post Fór með arfinn til Afríku appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652