Quantcast
Channel: Fréttatíminn
Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652

Opinbert uppeldi barna

$
0
0

Þrátt fyrir að straumhvörf hafi orðið í barnavernd á Íslandi undanfarinn áratug og börn séu síður tekin úr umhverfi sínu og vistuð á afskekktum stöðum, eru enn hundruð barna í uppeldi á stofnunum og opinberum heimilum. Um 400 börn voru vistuð utan heimilis síns árið 2014. 

Fréttatíminn hefur að undanförnu rakið sögur þeirra Sigurðar Hólm Sigurðssonar og Óðins Valgeirssonar sem báðir ólust upp á opinberum stofnunum. Þrátt fyrir tuttugu ára aldursmun áttu þeir það sameiginlegt að hafa velkst um í kerfinu frá barnsaldri og leiðst út í harða fíkniefnaneyslu og glæpi.

Sigurður Hólm lést í fangaklefa á Litla-Hrauni fyrir fjórum árum og eru tveir menn ákærðir fyrir að hafa valdið dauða hans. Óðinn afplánar nú dóm í fangelsinu vegna fjölmargra brota.
Báðir voru þeir teknir af heimilum sínum og vistaðir á ýmiskonar stofnunum þegar þeir voru börn. Þar bjuggu þeir við skort á ást og komust í vafasaman félagsskap.

Eftir að málefni Breiðavíkurheimilisins komust í hámæli árið 2007 voru fjölmörg vist- og meðferðarheimili, sem starfrækt voru á árum áður, skoðuð ofan í kjölinn af hinni opinberu Vistheimilanefnd. Nefndin komist að því, eftir að hafa verið að störfum frá árinu 2007, að rík ástæða væri til að efla eftirlit með vist- og meðferðarheimilum sem starfrækt voru fyrir börn af ríki og sveitarfélögum. Skýrslur nefndarinnar og straumhvörf í hugmyndafræði í meðferðarmálum barna með fjölþættan vanda, hafa hrundið af stað róttækum breytingum á barnavernd á Íslandi.

Á undanförnum tíu árum hefur fjölmörgum meðferðarheimilum verið lokað og hugmyndafræðin að taka börn úr umferð og vista þau á afskekktum stöðum virðist vera á algjöru undanhaldi. Meðferð barna fer þess í stað í auknum mæli fram í nærumhverfi þeirra og inni á heimilum. Börnum er veitt svokölluð MST-meðferð þar sem teymi sérfræðinga mætir þeim í þeim aðstæðum sem þau eru í.
Árið 2009 fengu 53 börn MST-meðferð en alls 91 barn árið 2014. Samhliða þessari aukningu hefur verulega dregið úr innlögnum barna á stofnanir.

Þó eru fjölmörg heimili enn starfrækt á vegum ríkis og sveitarfélaga en þau hafa ólík hlutverk.
Barnaverndarstofa rekur þrjú meðferðarheimili fyrir börn og unglinga sem glíma við hegðunarröskun, afbrotahegðun og vímuefnaneyslu. Heimilin eru öll á landsbyggðinni, Háholt er í Skagafirði, Laugaland í Eyjafjarðarsveit og Lækjarbakki er á Rangárvöllum. Auk þess er vistheimilið Hamarskoti í Flóahreppi fyrir unglinga eldri en sextán ára, sem hafa lokið meðferðum Barnaverndarstofu og eiga ekki afturkvæmt á heimili sín. Að auki reka sveitarfélögin Vinakot og vistheimili barna að Laugarásvegi og eru með samninga við einkaheimili um að taka á móti börnum til vistunar í bráðatilvikum. Barnaverndarstofa og velferðarráðuneytið hafa eftirlit með þessum úrræðum.

Langflestum börnum, sem ekki geta af einhverjum ástæðum búið heima hjá foreldrum sínum, er komið fyrir á fósturheimilum hjá venjulegum fjölskyldum. Nýjustu tölur, sem veita heildræna sýn yfir ráðstöfun barna í barnaverndarkerfinu, eru frá árinu 2014. Það ár var 403 börnum ráðstafað utan heimilis síns með samþykki fjölskyldna eða úrskurði frá ýmist barnaverndarnefndum eða dómstólum. Þó gæti verið að sama barni hafi verið ráðstafað í fleira en eitt úrræði sama ár og því gæti fjöldi barnanna verið ögn lægri. Í þessari tölu, 403, er meðtalinn sá fjöldi barna sem vistaður var tímabundið á lokaðri neyðardeild Stuðla. Sú dvöl er að öllu jöfnu 4-6 dagar.
Í tölunum hér að neðan eru ekki talin með börn sem send voru í fóstur, eða í tímabundna vistun hjá ættingjum eða öðrum.

 

Fjöldi barna í sólarhringsvistunum á ábyrgð sveitarfélaga árið 2014:
90 á vistheimilum
7 á sambýlum / fjölskylduheimilum
30 á einkaheimilum sem starfrækt eru allt árið

Fjöldi barna í sólarhringsvistun á ábyrgð ríkisins árið 2014:
81 á lokaðri deild Stuðla
26 á greiningar- og meðferðardeild Stuðla
19 á meðferðarheimilum

 

25357 robert spano

 

Staða innilokaðra barna getur versnað

„Í mínum huga er það alltaf þannig að ef börn eru vistuð á afskekktum stöðum, þar sem eru samankomnir einstaklingar í viðkvæmri stöðu, þá getur staða þeirra versnað mjög ef gæði stofnananna standast ekki fullkomlega nútímakröfur. Það er einn helsti lærdómurinn sem draga má af starfi vistheimilanefndanna,“ segir Róbert Spanó, fyrrverandi formaður Vistheimilanefndar.

Vistheimilanefndin kannaði starfsemi níu stofnana sem höfðu það hlutverk á árum áður að vista börn til skemmri eða lengri tíma. Róbert stýrði nefndinni frá 2007 til 2011 en hún skrifaði fjórar skýrslur um niðurstöður rannsókna sinna og tillögur að úrbótum.

„Niðurstöður þeirra kannana gefa augljóslega til kynna að víða hafi verið pottur brotinn við framkvæmd þessara mála af hálfu ríkisins og sveitarfélaga,“ segir í niðurlagi síðustu áfangaskýrslu Vistheimilanefndarinnar.

Taldi nefndin að meiri líkur en minni væru á að mörg börn sem vistuð voru á þessum stofnunum, hefðu sætt illri meðferð og ofbeldi af hálfu starfsmanna og annarra vistmanna.

„Við sáum að lang algengast var að vistmenn urðu fyrir ofbeldi af hendi annarra vistmanna á slíkum stöðum,“ segir Róbert. „Og það er mikilvægt að brýna fyrir þeim sem fara með málefni barna og geðsjúkra, að vera meðvitaðir um hætturnar sem fylgja því að vista börn á stofnunum á vegum ríkisins. Þeir sem fara fyrir slíkum heimilum þurfa að hafa skýra verkferla um hver ber ábyrgð innandyra og tryggja að einstaklingar séu ekki í þeirri stöðu að hægt sé að brjóta á þeim. Að eftirlitið sé í öflugt og ekki bara klínískt heldur nái einnig til mannúðlegri þátta.“

 

Jon björnsson
Jón Björnsson

 

 

Hvar er eftirlitsstofnunin?

Í rúm tíu ár hefur Jón Björnsson sálfræðingur verið eini maðurinn sem sinnt hefur óháðu eftirliti með meðferðar- og vistheimilum fyrir unglinga í landinu. Upphaflega var hann ráðinn af Barnaverndarstofu til að fara í eftirlitsferðir á hvert heimili en undanfarin þrjú ár hefur hann sinnt starfinu í umboði velferðarráðuneytisins. Hann hefur nú látið af störfum og kallar eftir óháðri eftirlitsstofnun.

Fyrir rúmum tíu árum ákvað Barnaverndarstofa að leita til utanaðkomandi aðila sem gæti haft eftirlit með vist- og meðferðarheimilum. Lögum samkvæmt var það hlutverk Barnaverndarstofu að bæði reka meðferðar- og vistheimili fyrir börn og unglinga – og hafa eftirlit með þeim. Það fyrirkomulag var þónokkuð gagnrýnt og þótti mörgum sérfræðingum ekki fara saman að stofnunin hefði eftirlit með sjálfri sér.

Barnaverndarstofa réði því Jón, sem var reyndur sálfræðingur, til að fara í eina til tvær eftirlitsferðir á hvert heimili á ári og meta gæði þjónustunnar og líðan barnanna. Auk þess komu stundum upp sérstök atvik þar sem hann var kallaður til.
„Barnaverndarstofa átti sjálf frumkvæði að þessu og réði mig sem verktaka til að sinna óháðu eftirliti. Ég fékk svigrúm til að skoða heimilin eins og ég vildi, skilaði skýrslu til Barnaverndarstofu og fékk greitt frá Barnaverndarstofu, þannig að formlega séð var ég kannski ekki algjörlega óháður. Stofnunin hlutaðist ekki til um það sem ég gerði en ég starfaði í hennar umboði. Þó það hafi verið ákveðinn formgalli á þessu fyrirkomulagi var frumkvæði Barnaverndarstofu gott.“

Jón segir að eftirlitinu hafi verið þannig háttað að hann heimsótti heimilin, tók viðtöl við börnin sem þar dvöldu, foreldra þeirra og forstöðumenn heimilanna. Þannig heyrði hann þrjár hliðar á hverju máli. „En það er ekki bara nóg að hafa eftirlit, það þurfti líka að búa til staðla um hvað má og má ekki gera við börn sem búa á slíkum heimilum. Lögin segja lítið um það. Vinnan mín fólst ekki síst í því að búa til staðla um verkferla um hvernig megi bregðast við í hinum ýmsu aðstæðum. Staðlarnir voru síðar endurskoðaðir og uppfærðir og það mætti gera aftur.“

Fyrir þremur árum var fyrirkomulaginu breytt og Jóni var falið að sinna eftirliti með heimilunum í umboði velferðarráðuneytisins í stað Barnaverndarstofu. Við það breyttist starfið ekki að öðru leyti en hann fékk greitt frá ráðuneytinu og skilað þeim skýrslum og niðurstöðum. „Nú hef ég skilað minni síðustu skýrslu og hef verið að bíða eftir því hver taki við af mér. Fróðlega spurningin er um hin gríðarlegu miklu áform um einhverskonar eftirlitsstofnun sem ekkert bólar á. Af hverju er hún ekki komin af stað? Stofnun sem hefur eftirlit með opinberum stofnunum, ekki bara vistheimilum. Eftirlitsmál á Íslandi eru í miklum lamasessi.“

 

25357 thorhildur lindal
Þórhildur Líndal fyrrum umboðsmaður barna

 

Vill hertara eftirlit

Þórhildur Líndal, fyrrverandi umboðsmaður barna, vill að eftirlit með meðferðar- og vistheimilum verði eflt.

„Allt bendir til þess að sjálfstætt eftirlit skipti máli fyrir hagsmuni barna. Ég hef lengi kallað eftir því. Það er ekki hægt að vera dómari í eigin sök.“
Þórhildur telur að breyting á barnaverndarlögum árið 2011 sé spor í rétta átt en leggur áherslu á að í framkvæmd þurfi það bæði að vera markvisst og öflugt. Hún er þeirrar skoðunar að fleiri en einn sérfræðingur þurfi að koma að eftirlitinu svo það verði trúverðugt.
„Við höfum á liðnum árum horft upp á opinbert eftirlit sem hefur brugðist hlutverki sínu, jafnt barnaverndareftirlit sem bankaeftirlit.
Aðalatriðið er að ákveðnum opinberum reglum sé framfylgt með markvissum og reglubundnum hætti. Börnin sem dvelja á meðferðar- og vistheimilum eiga að fá að segja sína skoðun og á þau skal hlustað af eftirlitsaðilum. Ábyrgðin liggur hjá þeim.“

The post Opinbert uppeldi barna appeared first on Fréttatíminn.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 7652