Eftir Þórdísi Bachman
Kristjanía í Kaupmannahöfn hefur sinn eigin, auðheyrða takt. Tjillið á Månefiskeren eða Morgenstedet. Kaupið inn í Grøntsagen. Filmuklúbbur, baðhús, reiðklúbbur, Kvennasmiðja, Loppen, Óperan og Woodstock (sem minnir á Alaska um 1910). Og svo er það Pusherstreet. Þarna er semsé allt mögulegt og engir bílar. Þar að auki er þetta samfélag opnara en höfuðborgin sem umlykur það. Þó er ekki hlaupið að því að ná íbúarétti þar. Möguleikarnir eru þeir að flytja inn hjá kærasta eða öðlast íbúarétt með vinnu. Á áttunda áratugnum var auðveldara að komast inn, nú er allt uppselt.
Kristjanía er svo sérstök, að hún laðar að sér ferðamenn alls staðar að úr heiminum. Á vissan hátt væri hægt að óska sér þess að hugsjónin þaðan skyti rótum í samfélaginu fyrir utan og þessi útópíski draumur um hóp fólks sem styður og virðir hvert annað af kærleika og umburðarlyndi gæti ræst í öllum samfélögum, um allan heim.
Kristjanía var herstöð, sem hústökufólk tók yfir árið 1971. Rúmlega 40 ára saga Kristjaníu hefur einkennst af ágreiningi og stöðugu reiptogi ríkisins og íbúanna, sem telja um eitt þúsund manns á 34 hektara svæði. Yfirvöld umbáru kannabissöluna þar til um 2004, en næstu ár á eftir einkenndust af árekstrum, lögreglurassíum og samningaviðræðum á milli íbúa og yfirvalda.

40 ára tengsl við „Stínu“
Fríða Hrefna flutti inn í Kristjaníu árið 1976 og bjó til að byrja með í Ljónahúsinu, þar sem hún hafði gist nokkur sumur. Meðal þeirra sem bjuggu þar þá voru Siggi rauði og Frikki svarti frá Keflavík.
Fríða fékk vinnu á Woodstock og hitti þar Svía sem hún fór að búa með, en sá var með hús úti á Dyssen, sem var með tré inni í miðju húsi og tilheyrandi gat á þakinu. Tréð er þarna ennþá, með nöglunum sem Fríða rak í það til þess að hengja viskustykkin á, en húsið var síðar rifið, enda rotið í gegn.
Parið flutti þá til Svíþjóðar, þar sem Fríða var í átta ár, en þegar hún kom til baka til Hafnar flutti hún beint inn hjá norskri vinkonu sinni í Kristjaníu. „Þar var ég með þrjú börn og stóran hund og Elísabet með sinn hund – þetta var óttalega þröngt, en þarna var ég í nokkra mánuði.“
Aðalstarf Fríðu hefur verið vinna með alkóhólistum, geðfötluðum og sem skartgripahönnuður, fyrir utan að koma fimm börnum til manns, en eins og sannur hippi er hún þúsundþjalasmiður, sem grípur í önnur störf þegar þau gefast. Síðast bjó Fríða í Kristjaníu fyrir tveimur árum, þegar hún var fengin til þess að gæta þar húss yfir sumarið, en þessi 40 ára tengsl við staðinn eru órofin.
Pusher Street var ekki komið til sögunnar þegar Fríða flutti inn, en á meðal íbúa var þó líklega töluvert meiri neysla en er í dag. Fríða kann mjög vel við samfélag Kristjaníttanna, eins og íbúar kallast, en minnist annars með minni ánægju: „Dönum fannst allt í lagi með hreinlætisaðstæðurnar þarna í gamla daga; fólk sem var alið upp við kaldavatnsíbúðir og kamar úti í garði sætti sig við þetta, en ég átti erfitt með það. Flest húsanna í Kristjaníu eru illa einangruð og afar erfitt að kynda þau með einum kola- eða olíuofni. Svo braust út berklafaraldur í Kristjaníu um 1980, vegna rakans og myrkursins innandyra. Berklar koma þar alltaf upp ennþá og reyndar fer rúta þaðan með fólk í berklaskoðun tvisvar á ári,“ segir Fríða. Hún minnist einnig færðarinnar í votviðri: „Um leið og kom rigning eða slydda, var allt á kafi í drullu, því þarna eru náttúrlega engar malbikaðar götur. Klósettmálin fundust mér þó langverst, þótt í Stínu séu leyniklósett hingað og þangað sem maður veit um.“
Margir vinanna frá fyrstu árunum í Kristjaníu eru farnir yfir móðuna miklu og Fríða telur að þetta mikla mannfall sé til komið af ofdrykkju. ‘Neyslumynstrið breyttist þegar ‘Junkblokaden’ var sett af stað um 1980. Þá var þeim sem voru komnir í hörðu efnin, á við heróín, ýmist vísað úr Kristjaníu eða þeir skikkaðir í meðferðir.’ Menn drukku þá meira í staðinn og afleiðingarnar létu ekki á sér standa.
Samband hennar við Kristjanítta er þó sterkt og þótt hún sé löngu flutt út, hittir hún þá oft á ári. Hvað var best við að búa í Kristjaníu? „Þarna var visst frelsi, sem þekktist ekki annars staðar. Eins og gengur var það líka fólkið sem maður þekkti þar og kunni að meta. Svo var alltaf hægt að fá vinnu þar, sem er mikill kostur í landi með landlægu atvinnuleysi,“ segir Fríða, sem bæði hefur starfað þar á veitingahúsum, við hreingerningar og félagsráðgjafastörf. Einnig nefnir hún, að þegar upp komu vandamál á milli rokkara og íbúa, voru haldnir fjöldafundir, því reynt er að taka á vandamálum þegar þau koma upp og áður en þau verða óviðráðanleg. „Þó er um ójöfnuð að ræða í Kristjaníu eins og alls staðar annars staðar, sérstaklega í sambandi við húsakost, því sumir eru með flennistórar íbúðar þarna, en aðrir búa í skúrum! Margir halda að allir þar séu svo fordómalausir, en það er alls ekki þannig. Þar eru líka kjaftasögur, klíkuskapur og mismunun, ekki síður en úti í samfélaginu,“ segir Fríða að lokum.

Laust herbergi í Ljónahúsinu
Tolli Morthens segir: „Árið 1973 fór ég með félaga mínum út í Kristjaníu, sem hústökufólk hafði tekið yfir tveimur árum áður. Í þessum hústökuhópi voru nokkrir Íslendingar, sem, eins og okkar er von og vísa, komu sér fyrir í flottasta húsinu, Ljónahúsinu, sem hafði verið rannsóknarstofa áður, þriggja hæða múrsteinshúsi með fallegum arkitektúr og stórum og miklum vistarverum. Þau lög giltu í Ljónahúsinu, að væri laust herbergi, mætti næsti maður taka það og sama gilti í neyslunni; sameignin var heilagri en eignarrétturinn og þeir fyrirlitnir sem seldu fíkniefni sér til gróða. Ættu menn mola eða lús, bar þeim heilög skylda til að deila sinni lús og mylja mönnum í pípu á meðan eitthvað var til. Einn félagi okkar var kaupmaður og soldið í meikinu og þegar fréttist að hann væri að selja eiturlyf, þá var honum útskúfað. Við félagi minn tókum semsé laust herbergi í Ljónahúsinu traustataki. Ég sá strax að margir íbúa hússins unnu ekki heiðarlega vinnu, voru aðallega í dópi og dílingum. Ég leit ekki á mig sem fíkil og fékk mér byggingarvinnu úti á Kristjánshöfn og mætti þar alltaf klukkan sjö á morgnana, en sukkaði svo fram á rauða nótt. Þetta tók sinn toll; ég hrundi loks úr byggingarvinnunni og tók þátt í þeim fíkniefnakúltúr sem var í gangi og lifði mig þarna til óbóta.
Í dag minnir þetta unga fólk sem þar var mig á menn í hugsjónabaráttu, sem æða gegn óvígum óvinaher og eru stráfelldir í fyrstu hrinu. Þarna voru menn að taka inn LSD og önnur efni í tilraunaskyni og trúðu því statt og stöðugt að þeir væru í andlegri vakningu, og að við værum öll á leið til að upplifa Nirvana með þessari neyslu. Vitanlega var staðreyndin þó sú, að við misstum þarna ungt fólk unnvörpum, bæði inn á geðdeildir og í sjálfsvígum. Hver einasti maður sem fór þarna í gegn varð fyrir afgerandi reynslu – en það er svo þversagnakennt, að það sem er neikvæð reynsla á meðan hún á sér stað, getur reynst gæfurík síðar meir, ef fólki tekst að vinna úr henni. Því miður komast þó afar fáir heilir út úr því að fara inn í þessa veröld og þetta er ekki ávísun á þroskaferli, heldur rússnesk rúlletta,“ segir Tolli, ómyrkur í máli.

Eins og í ævintýri
Olgalilja Bjarnadóttir flutti til Kaupmannahafnar í september 2015, eftir lokapróf í söng frá Listaháskóla Íslands. Hún fékk framleigða íbúð á Amager og hitti fljótlega skemmtilegan mann. Þegar að því kom að vinurinn byði henni heim og það rann upp fyrir henni að hann byggi í Kristjaníu, runnu á hana tvær grímur. Sem stúlka frá góðu heimili hafði hún komið inn í Kristjaníu sem túristi og það fyrsta og oft eina sem þeir sjá er Pusher Street. Kristjanía er þó ríki í ríkinu, sem rúmar margt annað en sölu á grasi og kannabisolíu, meðal annars listasafn, mörg tónlistarhús og græn veitingahús.
„Ég hélt að það fólk sem væri að selja hass úti á götu, væri fólkið sem byggi þarna og að allir sem byggju þarna væru fíklar. Og ég er sannarlega ekki ein um að halda það,’ segir Olgalilja.
Þegar Olgalilja kom í heimsókn, reyndist íbúð og allt umhverfi vinarins vera „sjúklega flott“. Mánuði síðar eða svo, missti hún húsnæðið og var um svipað leyti boðið heim til annars íbúa Kristjaníu, sem reyndist vera tónlistarmaður úr Konunglega Musikkonservatoriet. Þau Olgalilja náðu vel saman og þegar hann frétti af húsnæðisvanda hennar, bauð hann henni að passa íbúð sonar síns.
Olgalilja var hikandi; móðir hennar sagði þvert nei. „Þú ert ekki að fara að búa í Kristjaníu!“
Eftir að hún flutti inn, bauð Nils, faðir eigandans, henni að syngja í matarboðum sem hann heldur reglulega og eftir nokkur skipti ákvað hann að kaupa píanó, svo hún gæti spilað undir á meðan hún syngi. „Allt í einu var ég bara komin inn í einhverja elítu í Kristjaníu. Þekki alla og allir vita hvað ég heiti – þetta er geggjað,“ segir Olgalilja og bætir við að þetta sé í fyrsta skipti sem hún upplifir samfélag, þar sem „enginn pælir í því hvernig fólk lítur út; hvernig það er klætt, hvað maður hefur mikla menntun, hverra manna maður er eða hvort þú hafir einhvern tímann á lífsleiðinni gert mistök. Það eina sem máli skiptir er hver þú ert í dag. Ef þú ert góð við aðra og tilbúin að rétta hjálparhönd, þá ertu velkomin og þetta finnst mér mjög fallegt.“
Olgalilja nefnir fleiri dæmi um vingjarnleika Kristjaníttanna, og bendir á að „þetta myndi aldrei gerast á Íslandi. Þar er svo mikið baktal, á við: „Já, hún er nú alltaf í ógeðslega ljótum fötum,“ en í Kristjaníu er enginn að tala illa um aðra. Það er eins og þar sé skilningur á því að allir eru mannlegir og að fólk gerir mistök.
Þetta er eins og að stíga inn í ævintýri, fullt af skapandi, greiðviknu listafólki.“ Hún nefnir sem dæmi, að þegar henni er hrósað fyrir söng heima, segir fólk gjarnan: „Þetta var bara mjög flott,“ en að í Kristjaníu segi fólk: „Það var eins og tíminn stæði í stað,“ eða „Ég var hérna í þessu litla herbergi og svo fórst þú að syngja og herbergið bara stækkaði og stækkaði.“ Svona getur enginn sagt nema hann hafi mikinn skilning á listum. Svo eru allir svo opnir; hræðslan við að gera sig að fífli hverfur algerlega.
Heima þarf hins vegar mjög mikið að hugsa um í hverju maður er, hvað maður segir og á hverju maður leyfir sér að hafa skoðun. Ég var í Versló og þar, rétt eins og á öllu Íslandi, er mikið um snobb og peninga- og útlitsdýrkun. Í Kristjaníu er það þannig að þegar einhver lendir í erfiðleikum, streymir fólk að til þess að hjálpa – ekki til þess að dæma eða fordæma.“
Sá sem hún býr hjá er önnur kynslóð í Kristjaníu og góður vinur annars innfædds, söngvarans Lukas Graham, sem er nú að gera hinn danska garð frægan í Ameríku. Í Kristjaníu er mikið tónlistarlíf og tónleikar eru haldnir nokkrum sinnum í viku.
Olgalilja segir engan þeirra sem hún umgengst í Kristjaníu reykja gras og bætir við að hún væri ekki tilbúin til þess að vera þarna „ef þetta væri algjört sukk.“ Hasssalan er rekin af utanaðkomandi öflum og íbúar eru skiljanlega ekki ánægðir með návígið og hvað þá þegar lögreglan fór að sitja um staðinn frá um 2005 til 2010, þegar 31 hasssali þaðan var dreginn fyrir dóm.
Gæti hún hugsað sér að setjast að í Kristjaníu? Olgalilja hugsar sig um og nefnir síðan hve hrifin hún sé af þessa frjóa umhverfi og skapandi hópi, sem er svo skilningsríkur og fordómalaus. Segist reyndar aldrei hafa upplifað annað eins. Hún er enn ekki komin „inn“, en til þess að svo megi verða þurfa allir núverandi íbúar að samþykkja hana. Það gerist á þann hátt að hóað er á fund og umsækjandinn stendur fyrir framan alla íbúana og útskýrir hvers vegna hann sé góður kostur og síðan er kosið. Lýðræði í verki, en einnig góð leið til þess að halda úti þeim sem vilja flytja inn til þess að halda áfram sölu á hassi á Pusher Street.
Já, hún gæti hugsað sér það, en hvað sem verður, verður þetta fólk sem ég hef kynnst í Kristjaníu, vinir mínir til æviloka, segir Olgalilja að lokum.
Þórdís Bachmann
ritstjorn@frettatiminn.is
The post Verslunarskólastúlka sest að í Kristjaníu appeared first on Fréttatíminn.