Guðrún Inga Sigurðardóttir þurfti að greiða 540 þúsund krónur að kröfu Útlendingastofnunar til að fá að halda kærastanum í landinu.
Robert Qyra, 38 ára, kom til landsins sem hælisleitandi árið 2013. Hann er frá Albaníu en flaug hingað frá Belgíu. Hann kynntist Guðrúnu Ingu Sigurðardóttur, núverandi eiginkonu sinni sem er búsett í Sandgerði, meðan hann dvaldi hér. Í nóvember 2013 var honum hinsvegar synjað um hæli hér og fluttur aftur til Belgíu í lögreglufylgd.
„Ég vildi fá hann aftur til landsins og gerði ráðstafanir. Ég talaði við sýslumann og fékk fyrir hann dvalarleyfi í þrjá mánuði, gegn því að taka fjárhagslega ábyrgð á honum,“ segir Guðrún Inga.
Nokkru seinna voru þau stödd á dagskrá á bókasafninu í Keflavík og hittu þar fólk sem þekkti Robert frá því hann var hælisleitandi.
„Daginn eftir banka tveir lögreglumenn upp á og handtaka Robert, en ég fékk ekki leyfi til að hafa neitt samband við hann eða vita neitt um hvað væri á ferðinni, af því við vorum ekki gift. Daginn eftir kemur hann í fylgd tveggja óeinkennisklæddra lögreglumanna sem krefjast þess að ég kaupi flugmiða, því nú eigi að senda hann úr landi. Ég varð því að fara með þeim upp á flugvöll og staðgreiða miðann á skrifstofu Flugleiða þar, og horfa á eftir honum úr landi.“
En Guðrún Inga var ekki tilbúin að sleppa hendinni af kærastanum og leitaði til ríkislögreglustjóra til að fá að vita hvað þyrfti til að Robert fengi að dvelja hérna. Hún fékk þær upplýsingar að hún þyrfti að greiða 540 þúsund krónur, sem væri kostnaður við flugmiðann og lögreglufylgdina til Belgíu árið 2013.
Samkvæmt Útlendingalögum (56. gr.) skal útlendingur sem fluttur er úr landi sjálfur greiða kostnaðinn af brottför sinni og er heimilt að vísa útlendingi frá landi við komuna til landsins ef hann hefur ekki greitt kostnað hins opinbera við fyrri færslu hans úr landi Ofansagt gildir þó ekki þegar umsækjandi um hæli er endursendur til annars Evrópuríkis sem er aðili að Dyflinnarreglugerðinni en samkvæmt þeirri reglugerð greiðist kostnaður af því landi sem annast flutning og þarf umsækjandi ekki að endurgreiða þann kostnað. Ekki er því ljóst hvaða lagastoð lögreglan hefur til að rukka Róbert um þetta gjald.
„Ég spurði hvort, það væri hægt að greiða þetta með afborgunum eða taka þetta á raðgreiðslum, en nei, þetta þurfti að staðgreiða.“
Hún lét undan þessari kröfu, staðgreiddi fyrir kærastann og hann kom til landsins í kjölfarið. Í dag eru þau gift, búsett á Suðurnesjum og hann starfar sem múrari.
„En það hafa ekki allir Albanir, sem hafa snúið til baka til að vinna, þurft að greiða þessa upphæð. Einn vinur Roberts þurfti að greiða rúmlega níu hundruð þúsund en aðrir fimm sem hann þekkir þurftu ekki að greiða neitt. Ég hef reynt að fá skýringar á þessu og skilst að lögum hafi verið breytt árið 2014 og þeir sem hafi snúið til baka eftir það þurfi ekki að greiða. Ég er samt afar ósátt við þetta enda má segja að lögreglan hafi lagt okkur í hálfgert einelti, áður en ég greiddi þessa upphæð og það hafði verulegan kostnað og óþægindi í för með sér, sem út af fyrir sig var alveg nóg.“
Guðrún Inga segist ósátt við þessi svör en þau hafi ekki efni á lögfræðingi.
„Það má segja að lögreglan hafi lagt okkur í hálfgert einelti, áður en ég greiddi þessa upphæð og það hafði verulegan kostnað og óþægindi í för með sér, sem út af fyrir sig var alveg nóg,” segir Guðrún Inga sem segist þó ekki viss um hvort hún treysti sér í málaferli við lögregluna en auk þess hafi þau ekki efni á því.
The post Lögreglan vildi staðgreiðslu fyrir kærastann frá Albaníu appeared first on Fréttatíminn.